Loading

Skipulag og markmiðasetning

Við vitum allar hversu erfitt getur verið að halda utan um allt sem þarf að gera þegar maður er í 100% vinnu, með börn og heimili.
Mér persónulega finnst gott að skrifa allt niður sem ég þarf að gera fyrir hvern dag, hvort sem það er að setja í vél, ryksuga, skúra eða æfingar barnanna eða hvað ég ætla elda.

Fyrir manneskju eins og mig sem þjáist af kvíða að þá hjálpar það mér rosalega að koma hlutunum í verk og gerir mér rosalega gott að getað hakað við það sem er búið, sjá það svart á hvítu að hlutirnir hafi verið gerðir, þar sem ég stressast mjög auðveldlega upp ef það er of mikið sem mér finnst ég þurfa að gera eða er í tímaþröng.

Maðurinn minn gaf mér æðislega bók sem gerir mér kleift að skrifa allt niður og setja mér markmið.
Þessi bók, sem ég get bara ekki hætt að lofa nógu mikið (nei – fæ engar prósentur fyrir) er svo hvetjandi og tala nú ekki um hvað hún er falleg.

Oft setur maður sér markmið um að gera eitthvað ákveðið en tekst ekki alveg nógu vel til. Í þessari bók eru leiðbeiningar um hvernig maður á að setja sér markmið og hvernig sé best að forgangsraða hlutum.
Í þessari bók er markmiðatré sem mér finnst ótrúlega sniðugt. Þá setur þú þér yfirmarkmið t.d. fjölskyldan, og setur þér svo lítil undirmarkmið eins og að borða oftar saman kvöldmat og svo loks tímasetningu, eins og til dæmis fimm sinnum í viku.

Í byrjun bókarinnar setur þú þér þrjú markmið fyrir árið, og af hverju þú velur þessi ákveðnu markmið, því manni gengur betur með markmiðin sín ef við höfum ríka ástæðu til ná þeim.

Fyrir hvern mánuð er dagatal með góðum gluggum sem er hægt að skrifa t.d. æfingar, læknistíma eða hvað sem er.
Fyrir neðan getur þú sett þér markmið fyrir mánuðinn.

Þegar ný vika byrjar getur þú sett þér markmið og verkefni fyrir hverja viku. Einnig eru 10 mínútna verkefni sem mér finnast ótrúlega sniðug og iðullega set ég þar að setja í þvottavél, þar sem ég á mjög erfitt að temja mér að setja í eina vél á dag. Þvotturinn á það nefnilega til að safnast ótrúlega hratt hér upp. Það sem mér finnst einnig svo sniðugt er að fyrir hverja viku er hægt að skrifa fyrir hvað maður er þakklátur, því eins ótrúlegt og það er þá gleymir maður oft að hrósa og vera þakklátur fyrir hvað maður hefur í kringum sig – maka, börn og þá sérstaklega sjálfan sig!

Síðast en ekki síst þá er þessi bók svo rosalega hvetjandi og maður fer jákvæður inn í hverja viku því það eru mjög uppbyggilegar tilvitnanir fyrir hverja viku.

Get ekki hætt að lofa þessa bók nóg, ég reyni alltaf að setjast niður á sunnudagsmorgnum (þá eru börnin til friðs) með góðan kaffibolla og plana næstu viku.

Fyrir ykkur sem viljið nálgast svona bók, þá veit ég að hún fæst á heimasíðu MUNUM og kostar 3.990 kr.

Kolbrún Eva

– – –

Ég heiti Kolbrún Eva og er 30 ára tveggja barna móðir. Ég á yndislegan og krefjandi ellefu ára dreng með ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og allt sem fylgir því. Hann fittar ekki alveg inn í normið og lífið er oft mikil áskorun. Síðan á ég níu ára mjög svo ákveðna stúlku.

Einnig á ég yndislegan mann sem jafnframt er faðir barnanna minna, kletturinn minn og stuðningspúðinn minn. Það getur oft gengið mikið á á mínu heimili en við erum líka með tvo hunda á heimilinu sem við köllum ellilífeyrisþegann og öryrkjann. Annar er gamall blendingur og hinn er franskur bolabítur með þrjár lappir. Að lokum er það drottningin á heimilinu; kisan Solla.

Það sem ég mun skrifa hér er allt milli himins og jarðar sem er aðallega foreldrahlutverkið og að ala upp barn með raskanir og hvaða áhrif það hefur á systkyni og fjölskyldulífið, sem getur verið ansi skrautlegt.

– – –

Athugasemd frá ritstjóra: Þar sem við erum sérlega hrifin af MUNUM dagbókinni og fannst æðislegt að sjá hvað Kolbrún Eva var ánægð með hana höfðum við samband við Erlu sem er annar helmingurinn af MUNUM og spurðum hvort við mættum ekki gefa nokkrum heppnum lesendum Foreldrhandbókarinnar eintak af bókinni. Erla samþykkt það fúslega og því ætlum við að gefa 2-3 eintök af bókinni. Það eina sem þú þarft að gera er að kvitta hér fyrir neðan (og svo máttu auðvitað „læka” Foreldrahandbókina og MUNUM).

Bókina er líka hægt að kaupa á heimasíðu MUNUM.

– – –

Langar þig að verða bloggari?

Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt? Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórkemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hjá)foreldrahandbokin.is

X