Loading

Skipulag

Ég held að mér sé nánast óhætt að fullyrða að þeir sem þekkja mig myndu flissa ansi mikið ef ég ætti að fara að halda því fram að ég væri skipulögð. Það er því í besta falli örlítið skondið að ég ætli mér að byrja á því að skrifa um skipulag! Það er nú bara samt þannig að þegar maður er með fjögur börn þá kemst maður eiginlega ekki upp með neitt annað en að hafa allavegana örlítið skipulag af og til!

Mig langar aðeins að skrifa um og sýna ykkur sjónræna skipulagið sem við notum fyrir krakkana okkar. Það skal engu logið um það að hugmyndin er ekki mín, maðurinn minn átti hana upphaflega. Við erum með 4 börn á aldrinum eins til sjö ára, það segir sig sjálft að sú eins árs er ekki með svona skipulag ennþá.

Hérna er mynd af morgun verkefnalistanum hjá 6 ára stráknum okkar.

Auði reiturinn fyrir framan er til þess að maður geti sett mynd af klukku ef eitthvað á að gerast klukkan eitthvað ákveðið.

Verkefnalistinn virkar semsagt þannig að allt byrjar í rauðum þumli og er þá ógert. Þegar barnið er búið að leysa verkefnið færir það verkefnið í græna þumals reitinn. Svo þurfum við foreldarnir að „samþykkja” verkefnið, sum eru auðvitað þannig að þegar þau eru búin eru þau bara búin. Eins og að borða morgunmatinn, en að búa um rúmið getur verið það illa gert að það þurfi að gera það aftur og þá færum við miðann til baka og barnið gerir aftur, færir svo aftur miðann í græna þumalinn og ef það er nógu vel gert þá, þá setjum við það lengst til hægri og samþykkjum og þá er það búið.

Eitt af kvöldverkunum er svo að finna til fötin sem barnið ætlar í daginn eftir, þau velja þau sjálf og finna til og það er þá hægt að þvo ef bolurinn sem átti að fara í er ekki hreinn. Morgnarnir hjá okkur fóru að ganga mun betur eftir að við byrjuðum á þessu.

Skipulagið sjálft var ekki flókið í framkvæmd, við notuðum segultöflu, og tússuðum reiti á hana, svo keypti ég franskann rennilás og festi á hana myndirnar fundum við svo bara á google og prentuðum út og plöstuðum og festi franskann rennilás aftaná þær líka. Þá er svo einfalt að skipta um myndir eftir hvað liggur fyrir hverju sinni. Síðan er líka svo þægilegt að það er hægt að velja sér bara þær myndir sem manni finnast henta best hverju sinni.

Kostirnir við sjónrænt skipulag eru margir en það sem við sjáum helst er að börnin verða örugg í hvað það er sem þarf að gera, og ef maður gleymir einhverju getur maður bara kíkt á töfluna hvað er eftir.

Læt fylgja með í lokin mynd af allri töflunni, það var ekki til nægilega mikill svartur franskur þegar ég gerði þetta svo elsti er með hvítt, þarf að laga það við tækifæri. Eins er stelpan ekki með klukkureit.

Sif

– – –

Sif Hauksdóttir er fjörurra barna móðir sem hefur lengi verið viðloðandi Foreldrahandbókina. Hér má lesa fleiri pistla eftir hana:

Við erum allar jafn miklar mæður.

Hvað gerir okkur að foreldrum?

Fyrstu mínúturnar eftir að barnið fæðist.

Með tvö börn í búð.

Brjóstagjöf á almannafæri.

Mjólkuróþol.

Gráhærð fyrir þrítugt.

– – –

Langar þig að verða bloggari?
Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórkemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora@foreldrahandbokin.is

X