Loading

Skref fyrir skref leiðbeiningar um klósettþjálfun

Skref fyrir skref leiðbeiningar um klósettþjálfun

Björk Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur í Heimahjúkrun barna

Að byrja að kynna barnið fyrir klósettinu.

Misjafnt er hvenær barnið byrjar á klósettþjálfun en oft er það á aldrinum 18 mánaða til 2 ára. Því er gott að byrja að fjalla um þessi efni í kringum eins árs aldurinn og skapa áhuga hjá barninu. Gott er að hafa myndabækur aðgengilegar heima um koppaþjálfun. Það er líka mjög gott að eiga lítinn dúkkukopp til að uppáhalds tuskudýr barnsins geti pissað og kúkað í hann.

Þegar barnið er tilbúið er mikilvægt að taka eftir því.

Nokkrar vísbendingar sem gefa til kynna að barnið sé tilbúið:

 • Barnið sýnir aukinn áhuga á því að nota koppinn.
 • Barninu finnst óþægilegt að vera með fulla bleyju.
 • Barnið talar um koppinn.
 • Barnið er farið að klæða sig.
 • Barnið er farið að sýna klósettinu áhuga.
 • Barnið getur fylgt einföldum leiðbeiningum.
 • Barnið helst þurrt til lengri tíma.

Þetta eru nokkur atriði sem gefa vísbendingar um að barnið sé tilbúið fyrir næstu skref, en ekki þurfa öll skilyrðin að vera til staðar. Mikilvægt er að foreldrar taki eftir því að barnið sýni þessu áhuga og geti notað koppinn eða klósettið.

Á að kaupa kopp eða klósettsetu?

Kaupið það sem þið teljið henta barninu, hvort sem það er barnakoppur sem situr á gólfinu, barnakoppur sem er settur undir klósettsetuna, eða lítil barna-seta sem er sett undir klósettsetuna eða yfir hana. Ef þið veljið að kaupa klósettsetu þá er mikilvægt að hún sé ekki laus á klósettinu.  Sumir foreldrar kjósa að kaupa nokkrar gerðir af þessum hlutum og hafa hér og þar á heimilinu.. Þó er talið best að hafa bara einn kopp eða setu sem er staðsett á þeim stað þar sem barninu líður best. Oft er barnið búið að sýna þessu áhuga annars staðar.

Ef þú velur að nota barna-setu á klósettið er mikilvægt að hafa háan skemil undir fótum barnsins. Barnið verður að geta tyllt niður fótum, rétt.eins og við fullorðna fólkið. Svo er líka alltaf gott að venja barnið á stóra klósettið án þess að nota hjálpartæki. Ef barnið er óöruggt á klósettinu getið þið kropið fyrir fram barnið og leyft því að finna öryggið hjá ykkur.

Mikilvægt að velja réttu tímasetninguna.

Þó svo að þú teljir barnið þitt alveg tilbúið telja sérfræðingar mikilvægt að klósettþjálfunin fari ekki fram á álagstíma í lífi barnsins, eins og við flutninga, við að eignast nýtt systkini, við aðlögun hjá dagmömmu eða í leikskóla eða við skilnað foreldra svo dæmi séu tekin. Bíddu í a.m.k. mánuð með að byrja klósettþjálfun, eða byrjaðu áður en álagstíminn skellur á ef þér finnst barnið mjög áhugasamt. Það er best fyrir barnið að læra þetta þegar það er í sinni venjulegu rútínu og er afslappað.

Sumir foreldrar vilja bara drífa klósettþjálfun af og koma barninu á koppinn um 2 ára aldurinn, og telja sig jafnvel geta náð þessu á einni helgi.  En hafðu þá í huga að barnið þarf að hafa aðgang að klósettinu allan sólarhringinn sem er oft erfitt þar sem þessi börn sofa flest ennþá í rimlarúmum.

Þegar eru að koma „slys í brók” allt að fjórum sinnum á dag er betra að bíða með klósettþjálfun þar til barnið er sjálft tilbúið. Aldrei á að þvinga barnið á kopp né klósett. Barnið fer sjálfviljugt á klósettið þegar það er tilbúið.

Ef þú telur að barnið sé ekki tilbúið að hætta að sofa í rimlarúmi (eða þú ert ekki tilbúin(n) fyrir það) er ekkert sem mælir gegn því að leyfa barninu að sofa eitthvað lengur með bleyju.  Eins og áður segir er mjög misjafnt hvenær barnið er tilbúið fyrir klósettþjálfun en langoftast eru þau búin að ná þessu fyrir þriggja ára aldurinn.

Skipuleg klósettþjálfun

Þegar þú telur að barnið sé tilbúið er gott að fastsetja ákveðna tíma dagsins þar sem þú ferð með barnið á koppinn / klósettið, hvort sem barnið þarf eða ekki. Hentugur tími er fyrst á morgnana, áður en farið er út, fyrir miðdegislúrinn og fyrir nóttina. Ef til vill þarft þú að fara með barnið á koppinn eða klósettið á tveggja tíma fresti.

Lykillinn er að skapa rútínu við þessa athöfn svo að hún verði að vana.

Veldu buxur á barnið með teygju í mittið.  Eða eitthvað þægilegt sem auðvelt er að klæða úr. Biddu barnið sjálft um að taka buxurnar niður um sig og síðan nærbuxurnar eða buxnableyuna. Næst ætti barnið að setjast á klósettið í um 3 mínútur, hugsanlega aðeins lengur ef þú telur að barnið þurfi að kúka. Gott er að lesa fyrir barnið eða fara í leik til að stytta tímann, samt má ekki trufla einbeitinguna of mikið. Hvort sem eitthvað kemur í koppinn / klósettið eða ekki skaltu kenna barninu að þurrka sér og girða sig aftur. Einnig er mikilvægt að kenna barninu að sturta niður og þvo sér vel um hendur á eftir.

Ekki er mælt með verðlaunakerfi í formi sælgætis eða peninga fyrir að standa sig vel. Hrós er alltaf nauðsynlegt og það að barnið verði hreint á eftir er besta umbunin.

Kenndu barninu viðeigandi hreinlæti

Við klósettþjálfun er mikilvægt að kenna barninu hvernig á að þurrka sér á eftir. Bæði stelpur og strákar ættu að læra að þurrka sér að framan og aftur (ekki öfugt). Einnig þarf að kenna barninu að sturta niður og þvo hendurnar með sápu. Ef þarf að auka hjá þeim áhugann á að þvo hendurnar er hægt að kaupa alls konar litskrúðugar sápur og sápur sem freyða meira.

Hrós og umbun

Meðan á klósettþjálfuninni stendur eru slys í brók hluti af ferlinu. Sum börn lenda í þessum slysum allt fram að fimm til sex ára aldri. Sum eiga það til að væta rúmið eitthvað lengur á næturnar. Aldrei á að refsa barninu þegar þvag- eða hægðaslys koma. Mundu að barnið er að læra að hafa vald á þessari líkamsstarfsemi og þegar slys koma fyrir er það oftast ósjálfrátt. Ef barninu er refsað getur það valdið ótta hjá barninu við að nota koppinn / klósettið, sem seinkar öllu ferlinu. Þegar barnið fer á koppinn / klósettið og skilar sínu veitið þá barninu hæfilegt hrós og umbun.

Notið límmiðakerfi ef það hentar barninu og þegar barnið skilar í koppinn fær það einn límmiða fyrir. Stundum er gaman að safna límmiðum og þegar eru komnir 6-8 límmiðar á blaðið er hægt að umbuna barninu með því að gera eitthvað skemmtilegt með því, t.d fara í sund eða bíó. Gætið þess bara að fara ekki í eitthvað óhóf með verðlaunin.

Verið óspör á falleg orð eins og „þú ert orðin(n) svo stór” eða „mamma / pabbi er svo stolt(ur) af þér”

Þetta gerir mikið fyrir barnið.

Vandamál sem geta komið upp við klósettþjálfunina

Auðvitað binda allir foreldrar vonir við að klósettþjálfun gangi snurðulaust fyrir sig og allt sé komið eftir viku eða svo. Hins vegar er algengt að komi bakslag og kannski nokkur. Sumum gengur ótrúlega vel í byrjun og síðan fara að koma endurtekin slys í buxurnar. Mjög algengt er að það komi bakslag ef breytingar koma upp í lífi barnsins, sem hafa hugsanlega truflandi áhrif á rútínu barnsins og leiða þannig til aukinna slysa.

Helstu atriði sem geta komið upp við klósettþjálfunina og valdið truflunum.

 1. Barnið gleymir sér í leik og er utan við sig. Það getur verið gott að stilla klukku, t.d. eggjaklukkuna í eldhúsinu. Látið barnið hjálpa til við að stilla hana og þegar hún hringir eftir t.d. klukkustund veit barnið að það á að fara á klósettið.
 1. Hræðsla við klósettið. Barnið er ef til vill hrætt við að detta ofan í klósettið, jafnvel hrætt við vatnið í klósettinu eða hrætt þegar sturtað er niður. Barninu finnst jafnvel vera risa klósettskrímsli í klósettinu. Börn á aldrinum 2-3 ára geta ekki greint ímyndun frá raunveruleikanum og því getur fundist klósettið vera mjög ógnandi. Reynið að komast að því hvað barnið er hrætt við, þið gætuð prófað að reyna að sannfæra barnið um að kannski sé klósettskrímslið hrætt við börn. Hjálpið barninu að finnast það stærra og meira en þetta ímyndaða. “Farðu í burtu klósettskrímsli”
 1. Stjórnsama barnið. Sum börn hafa meiri áhyggjur af því að foreldrarnir séu að stjórna því hvað þau eigi að gera. Látið bara sem ekkert sé. Takið bara bleiuna af barninu leyfið barninu að ráða ferðinni. En hjálpið barninu við að þrífa sig en forðist valdabaráttu.  Reynið hér við eggjaklukkuna. En stjórnsama barnið verður að taka þetta á þeim tíma sem það er tilbúið. Verið þolinmóð oft er það fyrr en síðar hjá þessum litlu ákveðnu einstaklingum.
 1. Það að halda í sér. Ef barnið hefur lent í því að fá hægðatregðu.  Á minningu um stórar hægðir og upplifað sársauka við að hafa hægðir getur það haft mjög truflandi áhrif. Þarf oft ekki nema eitt atvik og barnið harðneitar að kúka. Vítahringur skapast. Hægðir verða harðari og harðari og erfiðara verður að koma þeim frá sér. Lausnin hér er að barnið þarf að fá aðstoð frá læknum og öðrum fagaðilum og fá meðferð í formi lyfja og ráðgjafar til að leysa þetta vandamál.

 

Sótt á vefsíðu (2017)  Parents.com Höfundur Díana Roth Port, Step-by-Step Guide to Potty Training 

 

Sótt a vefsíðu (2017) Parents.com  Höfundur: Dr Ari Brown. Potty training dos and dont´s

 

X