Loading

Skrímslið sem býr á sófanum mínum

Það er eitthvað stórt og fyrirferðamikið sem reglulega yfirtekur nánast allan sófann í stofunni heima hjá mér. Ég hef frétt að þetta kvikindi geri sig heimakomið á sófum á fleiri heimilum, sérstaklega þar sem börn búa líka.

Þetta skrímsli sem ég tala um era að sjálfsögðu þvottur heimilisins.

Ég og maðurinn minn tókum okkur til og komum loksins á almennilegu skipulagi í þvottahúsinu í íbúðinni okkar eftir áramótin. Við keyptum nýja dalla til að flokka þvottinn í og keyptum voða fína þvottasnúru í Byko sem er hengd upp í loftið svo að við þurfum ekki að vera alltaf með þessa leiðinda þvottagrind í stofunni hjá okkur.

Þetta nýja fyrirkomulag er algjör snilld, þvotturinn er ekki lengur út um allt gólf í þvottahúsinu og það er mikið þægilegra að þvo af því það er búið að flokka þetta allt, þannig að það þarf bara að tæma eina körfuna þegar hún er full, setja í þvottavélina og svo hengja upp á snúruna inn í þvottahúsi eða henda í þurrkarann.

EN svo er það frágangurinn, bæði ég og maðurinn minn erum alveg hræðilega léleg í að ganga fá þvottinum okkar og þó að okkur hafi tekist að losna við þurrkgrindina úr stofunni tókst okkur ekki að losa okkur við þvottaskrímslið á sófanum! Það kemur alveg nokkuð oft fyrir að maður hendir í eina vél því að mann vantar eitthvað og svo þarf að sjálfsögðu að hengja upp eða setja í þurrkara… og ansi oft er þurrkarinn fullur af þurra hreina þvottinum frá því í seinustu þurrkun… og sama saga er með þvottasnúrurnar. Oftar en ekki þá er maður að flýta sér og nennir ekki að brjóta saman þannig að hreini þvotturinn er tekinn settur í körfu og sturtað á sófann. Tilbúinn í að vera brotinn saman…. En auðvitað má enginn vera að því að gera það strax. Þannig að þarna situr þvottaskrímsli sem tekur heilt sæti í sófanum. Svo einhvern veginn alveg óvart þá bætist næsta þvottahrúga ofan á þessa og skrímslið er orðið feitt og pattaralegt og farið að taka ennþá meira pláss í sófanum!

Ég dæsi í hvert skipti sem ég sé þetta ofvaxna skrímsli liggja í mestu makindum á sófanum og mér fallast hendur því ég bara sé ekki hvernig í ósköpunum ég á að komast í gegnum þessa ofvöxnu hrúgu…þannig ég finn mér eitthvað „betra” að gera en að brjóta saman þvottinn. Svo er smá vesen að dóttur minni þykir afskaplega vænt um þetta fataskrímsli og þykir gaman að hnoðast á því og róta og tæta í hreina þvottinum og stundum enda hreinu flíkurnar aftur í óhreina tauinu af því hún er búin að snýta sér í hann eða klína á hann banana. Það gengur líka illa að reyna að ganga frá þvottinum á meðan hún er með því auðvitað vill hún hjálpa. Hún er svo áhugasöm um húsverkin þessi elska en hún er er ekki alveg nógu gömul til að vera hjálpsöm í þessari deild. Hún tekur yfirleitt alltaf það sem ég er nýbúin að brjóta saman og „brýtur saman” aftur. Hún sem sagt kuðlar því einhvern veginn saman og réttir mér þannig ég þarf að brjóta saman aftur. Þannig að frágangur þarf að fara fram á meðan litla vinnukonan er ekki á svæðinu. Hvenær er hún ekki á svæðinu? Jú, þegar hún er í leikskólanum en ótrúlegt en satt þá tekst mér að finna eitthvað annað að gera en að brjóta saman þvott þegar hún er í leikskólanum…eitthvað eins og að leggja mig, fara í bað eða naglalakka mig…..eitthvað kósý er það ekki þannig sem á að gera í svona óléttu veikindaleyfi? OK, þá er hægt að brjóta saman yfir sjónvarpinu þegar hún er farin að sofa á kvöldin, já! En geri ég það? – Nei, yfirleitt ekki ég nenni stundum ekki einu sinni að horfa á sjónvarpið þegar hún er farin að sofa ég slekk oft bara ljósin og fer inn í rúm því oft erum við í stöðugri valdabaráttu frá því að ég sæki hana í leikskólann og þar til að hún sofnar og svona átök soga alveg úr mér alla orku. Þetta terrible two’s dæmi er ekkert grín þetta er alvöru og tekur alveg á mann, sérstaklega þegar þú ert gengin rúmar 37 vikur úff!

En aftur að sófa skrímslinu, það er alltaf svo gaman þegar það fer loksins úr sófanum, þó að það fari kanski ekki langt ég er stundum voða dugleg að brjóta allt saman og setja það í körfuna…en er þá komin með nóg og nenni ekki að ganga frá öllu inní skúffur og skápa. Þannig að sófaskrímslið kúrir í þvottakörfunni þar til einhver sér sig færann að koma því inní skáp.

En við reynum bara að reyna lifa með þessu sófaskrímsli það hverfur aldrei lengi á þessu heimili…

Anna Sigrún

– – –

Ég heiti Anna Sigrún og er 28 ára. Ég á eina dóttur sem heitir Freyja og er fædd þann 1. maí 2015 og síðan er lítill drengur væntanlegur í heiminn í lok mars. Ég hef verið gift í þrjú ár en við höfum verið saman síðan 2009.

Ég bý og vinn í Breiðholti, er að vinna á leikskóla í augnablikinu en það styttist í að ég fari í veikindaleyfi á síðustu vikum meðgöngunnar og við tekur svo fæðingarorlof. Helstu áhugamál mín eru barnauppeldi og barnamenning, förðun, ljósmyndun, DIY stúss og falleg hönnun. Ég hef MJÖG gaman af því að versla og skoða allskonar sniðugt á netinu og svo er ég með skipulagsdellu! Ég er mjög dugleg að búa til allskonar lista og skipulag yfir hvernig er best að skipuleggja hitt og þetta…en ég er ekki alveg jafn góð í að fylgja þeim, sérstaklega innan veggja heimilisins.

– – –

Langar þig að verða bloggari? Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hjá)foreldrahandbokin.is

X