Loading

SLIT Á MEÐGÖNGU

Í upphafi minnar fyrri meðgöngu hafði ég miklar áhyggjur af sliti og keypti þar af leiðandi alls kyns undrakrem til þess að maka á bumbuna. Það hefði kannski verið í lagi ef ég væri þessi rosalega snyrtubudda, en kona eins og ég sem rétt nenni að bera á mig rakakrem í andlitið, reyndar af einskærri nauðsyn ætti kannski að hugsa sig tvisvar um. Að minnsta kosti söfnuðust dýru og fínu kremin upp og á ég þau ennþá nánast ósnert ofan í skúffu.

Það kom reyndar svo í ljós að slitin voru í lágmarki. Reyndar slitnaði ég ekki neitt á sjálfri meðgöngunni og var það ekki fyrr en nokkrum dögum eftir að barnið fæddist sem slitin komu í ljós. Það leiðir hugann að því hvort slit á meðgöngu eigi alltaf að tengja við teygjanleika húðarinnar eða hvort hormónarnir geti hreinlega haft þessi áhrif. Ekki veit ég hvað orsakar en jú, við konurnar eru auðvitað misjafnar. Stundum stækkum við svo hratt að erfitt er fyrir húðina að aðlagast og þá eru slit ekkert óeðlileg.

Nú á minni seinni meðgöngu hef ég ákveðið að gera vel við mig og í leiðinni gera smá tilraun. Ég valdi eins einfalda og ódýra lausn og ég gat hugsað mér og skrapp því í Body Shop og keypti mér skrúbbhanska á fimmhundruð krónur.

  • Ég skrúbba bumbuna, brjóstin, mjaðmirnar, mjóbakið, rasskinnarnar og lærin um það bil tvisvar til þrisvar í viku með hönskunum, nota enga kornasápu, bara milda húðsápu með góðri lykt.
  • Þess má geta að ég læt alveg heilögu svæðin þarna í kjallaranum vera enda þau viðkvæm og kannski ekki sniðugt að skrúbba þau með grófum hanska í tíma og ótíma.
  • Eftir sturtuna ber ég svo á mig kókos kremið frá Body Shop eða bara kókosolíu enda með svakalegt „craving“ fyrir kókoslykt þessa dagana. Þá ber ég á þessi sömu svæði og talin eru upp hér að framan.
  • Með þessu græði ég smá tíma fyrir sjálfa mig enda hafa sturtuferðir verið á lista yfir ákveðinn munað eftir að fyrra barnið fæddist og reyni ég að nýta tímann í sturtunni til að slaka á.

Ég hef tröllatrú á þessari aðferð og tel mig vera að fyrirbyggja slit seinna á meðgöngu. En hvað veit ég? Kannski verð ég voðalega krumpuð, en hver sem niðurstaðan verður þá verð ég sátt því það er ekkert jafn stórkostlegt og að fá tækifæri til þess að ganga með barn. Ég tek sátt við þeim breytingum sem verða á líkama mínum enda þær breytingar bara minning um þau yndislegu börn sem ég gekk með og skapaði á undraverðan hátt.

– – –
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir er 27 ára gömul og búsett í sveitasælunni við Laugarvatn. Hún hefur eitt ómældum tíma og áhuga í það að mennta sig og þar af leiðandi prófað margt spennandi sérstaklega í tenglsum við útivist og heilsu.

Hún útskrifaðist sem íþrótta- og heilsufræðingur vorið 2010 en átti þá fljótlega sitt fyrsta barn. Dóttir henn varð eins árs 26. desember 2011 og á hún samkvæmt sónar von á litlum bróður í lok mars 2012. Starf hennar sem heimavinnandi og sjálfstætt starfandi húsmóðir er því langt í frá lokið og eftir því sem hún best veit bara rétt að byrja.
Hún segist alltaf vera að læra eitthvað nýtt í tengslum við uppeldi barna, og hefur oftar en ekki rekið sig á það að fæst er hægt að lesa um í bók. Það er því að hennar mati nauðsynlegt að spinna söguna eftir persónuleika barnsins og það þykir henni sérstaklega áhugavert.

Ljósmynd: Lýður Geir Guðmundsson

X