Loading

STAÐGÖNGUMÆÐRUN

Ég heiti Edda og ég er „ófrjó” í þeim skilningi að ég get ekki gengið með mitt eigið barn heldur þarf á aðstoð staðgöngumóður að halda.

Ég var 22 ára þegar fæðingarlæknirinn minn reyndi að útskýra fyrir mér óvæntan endi á barneignarferli mínum viku eftir að ég átti son minn. Eftir dásamlega og heilbrigða meðgöngu fór fæðingin á versta veg. Eftir mislukkaða gangsetningu fór ég í bráðakeisara þar sem drengurinn var tekinn en mikil blæðing fylgdi í kjölfarið sem læknarnir réðu ekki við og ákváðu að fjarlægja legið til þess að stöðva hana.
Ég var með fulla meðvitund í gegnum allt saman svo ég hafði þegar gert mér grein fyrir því að ég mundi aldrei ganga með annað barn, frekar einföld líffræði! Læknirinn minn útskýrði þó fyrir mér að ég hefði ennþá öll æxlunarfæri á sínum stað og að með aðstoð annarrar konu gæti ég átt mitt eigið “líffræðilegt” barn, EN það væri ekki í boði hérna á Íslandi. Hugsanlega væri þetta möguleiki seinna í framtíðinni, á mínu “frjósemisskeiði” en það var efasemdar tónn hjá henni og ég taldi þetta í raun aldrei raunhæfan möguleika.

Það var 2007 ef ég man rétt sem ég rak augun í smáauglýsingu í blaðinu þar sem óskað var eftir staðgöngumóður (ég las blaðið lítið á þessum tíma svo þetta var skondin tilviljun). Eftir það fór umræðan aðeins að aukast og þetta fór að verða möguleiki fyrir mér þó fjarlægur væri. Þarna var ég skilin við barnsföður minn og í sambúð með núverandi eiginmanni mínum, sem skiljanlega hefur löngun til frekari barneigna en þá er eigið barn auðvitað fyrsti kosturinn. Umræðan jókst með tímanum og þetta fór að verða raunverulegra en um leið fóru ýmis álitamál að koma upp á borðið sem áttu mörg hver rétt á sér, en einnig fór að bera meira á leiðinlegum ummælum, fordómum og vitleysu sem stöfuðu fyrst og fremst af fáfræði og hleypidómum í fólki sem hafði lítið kynnt sér þetta ferli eins og það tíðkast víða annars staðar með góðum árangri.
Við tókum þátt í að stofna þrýstihóp fyrir staðgöngumæðrun sem hefur síðan þá verið mjög öflugur að koma þessu máli á framfæri. Ég hef reynt að fylgja umræðunni vel eftir en verð að viðurkenna að ég veigra mér oft undan henni og forðast á köflum þegar ég þoli ekki meira. Ég tel mig ekki sérstaklega hörundsára miðað við aðstæður og þrátt fyrir að vera augljóslega ekki í hlutlausri aðstöðu þá er reyni ég mitt besta í að vera mjög opin fyrir öllum hliðum málsins.

Markmiðið með því að segja mína sögu er aðeins að beina athygli að því að í þessu mjög svo umdeilda máli í dag eru einstaklingar og fjölskyldur í mjög viðkvæmri og erfiðri stöðu. Í öllum öðrum tilfellum sem snúast um ófrjósemi og erfileikum fólks við barneignir er stuðningur og samhugur ríkjandi og telst fullkomlega eðlilegt að fólk dreymi um að eignast börn saman, sín eigin, með eðlilegum hætti. Þar er skilningur í gegnum ótal meðferðir, aðgerðir og vonlausar tilraunir tilvonandi foreldra í að láta þann draum rætast. Í tilfelli staðgöngumæðrunar er þriðji aðili kominn inn í myndina en vilji og tilgangur foreldranna er nákvæmlega sá sami en þau mæta minni skilningi, jafnvel stimpluð sem tækifærissinnar sem bíða færis á að misnota umkomulausar konur sem sjá sér ekki aðrar leiðir færar. Það fer engin í þetta ferli umhugsunarlaust og samband og traust foreldranna til konunnar sem þau eru að treysta fyrir allri umönnun og þroska barnsins þeirra er gríðarlega mikilvægt. Ég er í þeirri einstöku stöðu að hafa upplifað meðgöngu og ég geri mér fulla grein fyrir því sem ég væri að óska af staðgöngumóður. Persónulega þá mundi ég treysta mér í slíkt ef ég væri fær um það því ég tel að tengslamyndunin sem er til staðar á milli móður og barns sé ekki sú sama í tilfelli staðgöngumæðra eins og ef hún gengi með sitt eigið barn. Mikil áhersla hefur verið lögð á að staðgöngumóðir eigi að vera nákomin, jafnvel skyld foreldrum sem mér finnst ekki rétt að alhæfa um en á meðan það gæti skapað óþægilega pressu á einhverjar sem eru ekki reiðubúnar þá eru það einmitt þær sem eru nákomnar þessum aðstæðum sem svíður það skelfilega að vilja aðstoða en er meinað það. Nákomin eða ekki þá skiptir öllu máli að staðgöngumóðir sé fullkomlega tilbúin og meðvituð um það sem hún er að bjóða sig í. Þar tel ég mikilvægt að margvíslegir fagaðilar meti aðstæður og aðila frá öllum hliðum á hlutlausan hátt.
Margar konur geta ekki hugsað sér að bjóða sig fram í svona lagað, enda um mikla sjálfsfórn að ræða og fullkomlega eðlilegt að það sé ekki á allra færi en á sama tíma er mikilvægt að draga ekki úr einlægni þeirra fáu sem hafa áhuga á gerast staðgöngumæður ef þeim biðist sá kostur. Það sem gengur fyrir eina gengur ekki yfir allar.

Hérna tek ég mér leyfi til að birta brot af mjög einlægri grein og mikilvægum punkti frá konu sem vill vera staðgöngumóðir:

“Þetta er minn líkami, mitt líf og mín ákvörðun…. Það þurfa ekkert allir að skilja mig, bara sjá til þess að ég hafi það frelsi á Íslandi að taka þessa ákvörðun ef ég vil.”
Þessi grein er birt í heild sinni á síðu stuðningsfélags staðgöngumæðrunar á Íslandi http://stadganga.com/egvilverastadgongumodir

Ófrjósemi fylgja óumflýjanlega efasemdir um rétt þinn og getu til barneigna. Að kannski sé ástæða fyrir þessu eða að maður sé skelfilega manneskja. Í umræðunni í dag er ítrekað gefið í skyn að þarna sé aðeins náttúruvalið að verki og þú hafir ekki RÉTT á að biðja um þessa aðstoð – það sé hrein og bein frekja. Spurningar á borð við „af hverju ættleiðiru ekki? Það nóg af börnum í heiminum…” „Af hverju gerirstu ekki stuðningforeldri barna sem eiga fjölskyldu sem þarfnast aðstoðar við að hugsa um þau?” dynja stöðugt á manni. Stanslaust þarftu að réttlæta löngun þína og rétt á að eignast fjölskyldu með þeim hætti sem þú þráir. Það er ekkert óeðlilegt við að fólk dreymi um að eignast eigið barn, sameiginlegur hluti af þeim báðum, vilji upplifa meðgöngu, fæðingu og þroska barnsins frá upphafi.

Staðreynd málsins er að það er aðeins um örfá pör á ári að ræða, venjulegt, sómasamlegt fólk sem þarfnast aðstoðar, af velgjörð, frá færum og viljugum konum sem eru á engan hátt nauðbeygðar eða ósjálfstæðar eins og háværar raddir vilja líkja þeim við. Við búum í litlu samfélagi sem er seint hægt að líkja við aðstæður þriðja heims þjóða og ég hef alla trú á að það sé hægt að standa rétt að allri umgjörð utan um þetta ferli og þar með tryggja réttan ásetning allra aðila í höndum fagaðila sem meta líkamlegt, andlegt, tilfinningalegt og félagslegt ástand staðgöngumóður og foreldra til að koma í veg fyrir hvers konar misnotkun. Eflaust er það barnsleg einföldun á aðstæðum en ég kýs að trúa því að það að koma nýjum einstaklingi í heiminn vekji einlægan og fórnfúsan vilja meðal staðgöngumóður og foreldra með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Staðgöngumæðrun stendur víða til boða með góðum árangri og er því er það eðlilegt að fólk í þessari aðstöðu vilji sjá hana verða að veruleika hérna á Íslandi. Það er aðeins tímaspursmál að mínu mati hvenær staðgöngumæðrun verði leyfð hérn á landi og aðeins spurning um það hvenær umræðan fer að snúast um raunveruleg álitamál og hugsað í lausnum en ekki einungis í vandamálum sem eiga mörg hver ekki við í íslensku samfélagi.

Stuðningsfélag staðgöngu hefur þegar tekið nokkur áberandi álitamál til umfjöllunar á síðu sinni http://stadganga.com/svorvidalitaefnum og víða er að finna margar góðar, rökstuddar greinar um málið. Ég tek það fram að ég er aðeins að tjá mig um mína persónulegu afstöðu í málinu en ekki efna til málefnalegrar umræðu á minn kostnað eða annarra í mínum aðstæðum og hef reynt að forðast helstu deilumálin og læt betra fólk um rökræðurnar.

Rödd okkar í þessum fámenna hópi hefur lítið heyrst enda fáir sem treysta sér í að opna sig í þessum aðstæðum. Það er líka auðvelt að gleyma því að verið er að ræða um aðstæður raunverulegs fólks og þar sem þetta er mjög persónulegt og viðkvæmt og því er nauðsynlegt að sýna tillitsemi í meðferð málsins. Ég hvet aðeins fleiri í þessari aðstöðu til þess að koma fram með sína hlið, tilvonandi foreldra sem og staðgöngumæður eða aðstandendur og vekja athygli á fólkinu sem verið er að ræða um.

Við hjónin erum svo lánsöm að hafa eiga einn skæruliða, þó að við þurfum deila honum þrjú stykki af foreldrum á tveimur heimilum. Okkur langar þó að stækka við fjölskylduna, upplifa foreldrahlutverkið saman frá upphafi og eiga litríkt og hávaðasamt fjölskyldulíf eins og þau gerast best! Sonur minn hefur þráð syskini síðan hann vissi merkingu orðsins og verður besti stóri bróðir sem þú finnur þegar að því kemur. Við erum að stíga fyrstu skrefin í dag í að ættleiða barn en höfum ekki ennþá misst vonina um staðgöngumæðrun í framtíðinni.

Edda Gunnarsdóttir

X