Loading

STJÚPFORELDRAR: RÉTTINDI EÐA RÉTTINDALEYSI?

Ég var svo lánsöm fyrir um fimm og hálfu ári síðan að kynnast yndislegri fjögurra ára hnátu sem bræddi hjarta mitt strax á fyrsta degi. Ég opnaði faðm minn og við tengdumst fljótlega ótrúlega sterkum böndum. Ég tók henni sem dóttur og seinna, þegar hún flutti til mín með pabba sínum, varð hún strax eins og hluti af mér, hluti af fjölskyldu minni. Ég var búin að eignast fjórðu dótturina og fannst ég ótrúlega rík. Þegar eitthvað var keypt handa yngstu dóttur minni, fékk hún líka. Þetta geri ég enn þótt mér beri engar skyldur til þess. Ég gaf henni ást og umhyggju jafnt hinum dætrum mínum. Þótt engin séu blóðtengslin og ég hafi aðeins annast hana í þrjú og hálft ár, þá er hún og verður alltaf stór hluti af mér.

En hef ég einhvern rétt á að segja þetta? Já, ég met það svo. Ég opnaði hjarta mitt og lagði mig alla fram um að tengjast henni og vera henni eins góð móðir og ég gat. En eftir að við pabbi hennar slitum sambandi hef ég engan lagalegan rétt. En gleymum ekki barninu sem átti mig að og á heldur engan rétt gagnvart mér. En sem betur fer er ég svo lánsöm að við pabbi hennar erum í ágætu sambandi og ég fæ að hitta hana reglulega. En hugur minn stendur svo sannarlega til miklu meiri umgengni og samneyti við hana en raun ber vitni. Ég fæ líka að heyra það frá henni, í hvert sinn sem ég hitti hana, að hún saknar mín mikið. Á milli okkar er órjúfanlegur strengur.

Ég hef oft velt fyrir mér, eftir þessa lífsreynslu, hvernig stjúpforeldrar geta skilið við stjúpbörnin sín á sama tíma og leiðir foreldranna skilja. Að sama skapi velti ég fyrir mér þeirri höfnun sem stjúpbörnin þurfa að fara í gegnum eftir að hafa átt stjúpmömmu eða stjúpföður í ákveðinn tíma, en svo er eins og þau séu hrifsuð burt og þau sjálf skipti þá litlu máli. Ef til vill er ég öðruvísi en aðrir stjúpforeldrar, en ég veit að þetta gæti ég ekki gert. Fyrir mér er foreldrahlutverkið eitthvað sem maður losar sig ekki undan og sama á við um stjúpforeldrahlutverkið. Ég tók að mér stjúpbarn, elskaði eins og dætur mínar og mun alltaf gera. Það, að ég og faðir hennar fórum sitt í hvora áttina, breytir ekki tilfinningum mínum í hennar garð. Ég er þess einnig fullviss að það breytir heldur ekki tilfinningum hennar til okkar. Við vorum stór hluti af hennar lífi og fáum sem betur fer að vera það áfram.
Veltum aðeins fyrir okkur hvers virði það er fyrir stjúpbörnin okkar að halda áfram jákvæðum tengslum við stjúpforeldra sína. Þótt foreldrarnir séu kannski ekki alltaf sáttir og leiðir þeirra skilji, þá skiptir máli að virða tilfinningar og óskir barnanna. Þeirra réttur er að eiga samskipti við það fólk sem þau hafa tengst tilfinningaböndum og elska. Eða er það ekki svo?

– – –
Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn.  Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X