Loading

STJÚPMAMMAN

Árið 2010 kynntist ég manni. Hann er að mínu mati heppnasti maður í heimi, því hann á litla sex ára stelpu sem er dásamleg. Þarna datt ég líka í lukkupottinn með þau bæði.

Við tvö kynntumst hratt, en fórum varlega með stelpuna. Svo varlega að ári eftir að við byrjuðum saman hélt hún enn að ég væri bara vinkona hennar og grét í reiði sinni að ég væri kærasta pabba síns. En hún var sem betur fer fljót að jafna sig.

Ég var alltaf staðráðin í því að ég ætlaði bara að vera Kristín. Hún hitti mömmu sína reglulega og ég ætlaði mér bara að vera Kristín og ekki að reyna að koma í staðinn fyrir einn eða neinn. En það gerðist, hún fór að kalla mig mömmu. Fyrsta árið svaraði ég ekki þegar hún kallaði mig þessu nafni.
Ég var með stóran hnút í maganaum, því mér fannst ég vera að hafna henni, sem ég vissulega gerði en mig langaði samt alveg að vera mamma hennar. Mér leið stöðugt verr en það kom að því að samstarfskona mín, sem er vel menntaður leiksskólakennari og með bs í sálfræði sagði við mig: „Kristín mín, þú býrð með henni, elur hana upp. Fyrir henni ertu mamma.“

Hún veit alveg hvaðan hún kom. Hún kom ekki úr mínum maga. Í herberginu sínu er hún með myndir af sér og mömmu sinni. Hún horfir oft á myndbönd sem tekin voru á fæðingardeildinni, alveg splunkuný í fanginu á mömmu sinni. Við tölum um hana, við föndrum afmælis og jólagjafir handa henni, hún hringir stundum í hana og er hjá henni aðrahverja helgi. En þegar hún kemur aftur hleypur hún til mín og segir „hæ mamma“ kyssir mig og faðmar og segir mér hvað var gert, hvernig henni líður o.þ.h.
Mamma hennar vill ekki að hún kalli mig mömmu og ég skil það upp að vissu marki. Ég skil það vel að hún vill vera mamman, verja þann titil, en er þetta ekki barnsins að ákveða? Við erum alvöru fjölskylda. Ég er mamman,pabbinn er pabbinn og svo er litli bróðir. Hann er alvöru bróðir hennar, ekki platbróðir eins og blóðmóðirnin segir henni. Hann er alvöru. Pabbi hennar er alvöru kærastinn minn þó svo að ég hafi átt aðra kærasta á undan honum. Og ég er alvöru þrátt fyrir að hann væri trúlofaður áður.

Svo kom að því að það var bekkjarkvöld í skólanum hjá henni. Foreldrar mættu með krökkunum sínum. Það var spilað og borðað og dansað. Svo kom að því að allir áttu að kynna sig og segja hvaða börnum þau tilheyrðu. „Ég heiti Kristín og ég er stjúpmamma hennar“ sagði ég því ég vildi ekki segjast vera mamma hennar. Hvað myndu allir foreldrarnir halda? Ekki vildi ég að þau héldu að ég væri að reyna að taka þennan titil frá annari konu. Ekki vildi ég að þau héldu að ég væri eitthvað furðuleg, segðist vera allt önnur en ég var í raun. Þannig að ég sagði það sem ég taldi vera fyrir bestu.

En stelpan sem leit á mig var vonsvikin. Hún kynnir mig alltaf sem mömmu sína. Hún segir að vísu alltaf frá því að hún eigi aðra mömmu líka, mömmuna sem hún var í maganum á. En ég gerði hana vonsvikna. Og það ætla ég aldrei aftur að gera. Hér eftir er mér alveg sama hvað öðrum foreldrum finnst um mig. En mér er ekki sama hvað dóttur minni finnst. Ef ég er mamma fyrir henni, þá kynni ég mig sem slíka. Ég ætla alltaf að standa með henni. Ég er með henni í liði.

Kristín.

X