Loading

Stóri bróðir

Þegar drengurinn okkar var yngri þá fannst mér oft vanta fleiri lausnir. Þó svo hann hafi verið greindur með ADHD, ODD og ýmsar hegðunarrasskanir og hann færi á lyf þá er það engin töfralausn þó að lyfin hafi hjálpað honum að halda stjórn og ganga betur í skólanum. Þó svo að lyfin hjálpi til að þá eru allar þessar raskanir enn til staðar og munu vera til staðar. Drengurinn okkar er mjög hvatvís og með mikinn mótrþóa. Hann er einnig er mjög áhrifagjarn og þó svo að hann sé brosandi, mjög kátur og glaður drengur að þá er hann mjög krefjandi. Sem betur fer hefur hann orðið meðfærilegri með árunum en á móti koma aðrar áhyggjur og vandamál.

Svo sem félagsleg vandamál sem hafa nýverið komið upp, því það er óneitanlegt að þessi börn falla ekki svo glatt inn í hvaða félagsskap sem er og eru oft talin „pirrandi börnin” og félögum fer minnkandi. Sem betur fer á hann 1-2 góða vini og við leggjum ríka áherslu á það að hann beri virðingu fyrir vinum sínum og passi samskiptin sín við aðra. Svo koma upp áhyggjur eins og „hvernig verður hann sem unglingur?” því hvort sem mér líkar það eða ekki þá styttist óðum í það þar sem hann er á tólfta ári.

Eins og ég sagði þá er hann mjög hvatvís og áhrifagjarn og það veldur mér áhyggjum. Mun hann leiðast út í slæman félagsskap, mun hann leitast eftir viðurkenningu því hann fær hana ekki hjá þeim félögum sem hann vill helst? Mun hann reykja, drekka, dópa eða mun hann verða þessi duglegi, ábyrgðafulli og vinnusami einstaklingur?

Við hjónin höfum alltaf verið mjög raunsæ þegar kemur að drengnum okkar og gerum okkur fyllilega grein fyrir því að hann er alveg líklegri en aðrir til að fara útaf sporinu, út af hans greiningum að þá er það bara staðreynd að börn sem eru með þessar greiningar finnast þau ekki passa inn.

Að sjálfsögðu gerum við eins og allir aðrir foreldrar, reynum okkar besta að beina honum rétta leið og undirbúa hann eins og við getum fyrir lífið, kenna honum vinnusemi, peningavit og að lífið er ekki alltaf eins og við viljum hafa það.

Sannleikurinn er sá að við vitum ekki hvernig börnin okkar verða þegar þau vaxa og dafna, við vitum ekki hvaða leið þau munu fara.

Og þá langar mig að koma aftur að því að mér finnst vanta þegar kemur að lausnum og ég hef oft pælt í þessu og sérstaklega þegar hann var yngri og við, aðallega ég samt, orðin buguð, ráðalaus og vonlaus á skapofsa –og mótþróaköstum. Og nú leiði ég hugann mikið að þessu þegar hann er kominn á þennan aldur og félagslega hliðin hefur farið aðeins dvínandi, hvað það væri mikil snilld ef það væri svona Stóra bróðurs prógram hér á landi.

Ég veit það eru stuðningsfjölskyldur í boði en mér fannst það ekki vera það sem okkur vantaði, heldur frekar einhvern fyrir hann, vin, sem hann myndi ná að tengjast og gera eitthvað skemmtileg með, fara í bíó, út að leika, sund eða hvað sem er. Sá aðili þyrfti að sjálfsögðu að vera ábyrgðarfullur, fyrirmynd í alla staði og með hjartað á réttum stað.

Börn með raskanir þurfa svo oft bara smá pásu frá öllu þessu neikvæða, sem því miður fylgir oft þeirra lífi.
Ég veit það allavega fyrir mitt leyti að ég myndi hiklaust nýta mér þetta fyrir hann ef þetta væri í boði.

Kolbrún Eva

– – –

Ég heiti Kolbrún Eva og er 30 ára tveggja barna móðir. Ég á yndislegan og krefjandi ellefu ára dreng með ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og allt sem fylgir því. Hann fittar ekki alveg inn í normið og lífið er oft mikil áskorun. Síðan á ég níu ára mjög svo ákveðna stúlku.

Einnig á ég yndislegan mann sem jafnframt er faðir barnanna minna, kletturinn minn og stuðningspúðinn minn. Það getur oft gengið mikið á á mínu heimili en við erum líka með tvo hunda á heimilinu sem við köllum ellilífeyrisþegann og öryrkjann. Annar er gamall blendingur og hinn er franskur bolabítur með þrjár lappir. Að lokum er það drottningin á heimilinu; kisan Solla.

Það sem ég mun skrifa hér er allt milli himins og jarðar sem er aðallega foreldrahlutverkið og að ala upp barn með raskanir og hvaða áhrif það hefur á systkyni og fjölskyldulífið, sem getur verið ansi skrautlegt.

– – –

Langar þig að verða bloggari?

Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt? Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hjá)foreldrahandbokin.is

X