Loading

STUÐNINGSKONUR

Stuðningskonur eru svolítið skemmtilegar konur. Stuðningskonur er hópur kvenna sem gefur sig út til að aðstoða aðrar konur með börn á brjósti, í sjálfboðaliðavinnu. Það er svolítið merkilegt.

Hugmyndin á bakvið stuðningskonur er ekkert ný og ekkert frumleg þannig. Konur sem hafa verið með börn á brjósti, afla sér þekkingar um brjóstagjöf og eru svo tilbúnar að miðla áfram þekkingu sinni til þeirra sem þurfa á henni að halda. Stuðningurinn sem er veittur er á jafningjagrundvelli og fer fram í gegnum tölvupóst eða síma. Svo er líka öflug fyrirspurnarsíða á Facebook, þar sem konur geta sett inn spurningu og stuðningskona svarar. Einfalt, þægilegt og skemmtilegt.

Ekki fyrir svo löngu náði hópurinn þeim merka áfanga að vera búin að svara yfir 100 fyrirspurnum, það er ekki hægt að gera lítið úr því. Það þýðir að 100 konur með börn hafa viljað spjalla um brjóstagjöf sína og þurft ráð eða aðstoð. Það segir að yfir 100 konur gátu leitað í stuðning á jafningjagrundvelli og vonandi hafa yfir hundrað konur fengið góð svör við spurningum sínum og flestar fengið lausn á vandanum.

Til stuðningskvenna er leitað eftir ýmsum ráðum, stundum eru börnin helst til létt, stundum þyngjast þau hressilega, það smellur í góm og sveppasýking lætur á sér kræla. Konur vilja vita hvort það sé eðlilegt að börn hangi á brjósti á kvöldin og hvenær er best að gefa snuð. Stuðningskonur hafa svarað fyrirspurnum um sog, kúk og hvernig er best að geyma og gefa brjóstamjólk. Við höfum svarað fyrirspurnum um brjóstastækkun og ömmur og gefið ráð um hvernig sé hægt að hætta næturgjöfum og hætta brjóstagjöf, við höfum svarað fyrirspurnum um stærð brjósta og eðlilegan lit á brjóstamjólk.

Stuðningskonur fylgja ströngum siðareglum og ráðleggingar þeirra eiga að vera í samræmi við leiðbeiningar WHO og almennar ráðleggingar um brjóstagjöf. Við höfum það markmið að mæta konum þar sem þær eru staddar og veita upplýsingar og ráð eftir bestu sannfæringu. Við erum svona leynihópur, göngum um í venjulegum fötum og erum bara með síma og tölvu að vopni. Ég hef fulla trú á því að stuðningskonur skipti sköpum fyrir samfélag mæðra og vona svo innilega að þær komi til með að vaxa og dafna í framtíðinni.

Í dag eru engin sérstök tímamót eða nokkurt tilefni til að segja frá stuðningskonum nema kannski í þeirri von að fleiri vita af þeim. Nema fyrir það að í dag skrifaði mér kona og þakkaði mér kærlega fyrir góð ráð fyrir fjórum mánuðum. Ég verð að játa að ég mundi varla eftir því að hafa talað við hana (sorrý) og fannst jafnvel að ég hefði ekkert orðið að liði. Hún var hinsvegar hörð á því að þessi tölvupóstsamskipti okkar hefur gert gæfumuninn og vildi þakka fyrir sig. Og þarna sem ég las yfir bréfið var ég svo óendanlega þakklát og stolt af því að vera hluti af hreyfingu sem hefur það eina markmið að láta gott af sér leiða. Takk kærlega fyrir að senda póstinn, hann hvetur mig og stuðningskonur til að halda áfram starfsemi sinni.

Hægt er að hafa samband við stuðningskonu með því að skoða www.brjostagjafasamtokin.org – það er verið að vinna í nýrri síðu og svo er hægt að sækja um aðild að stuðningskonur við brjóstagjöf á Facebook.

– –
Soffía Bæringsdóttir er kennari, doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X