Loading

STUNDUM OPNA ÉG MUNNINN OG MÓÐIR MÍN MÆTIR Á SVÆIÐ

Þetta var skársta þýðingin – eða þannig en ég sá þessa mynd á Facebook í vikunni og staldraði við. Hugsaði málið í smá stund og áttaði mig svo á því að stundum – bara stundum – hljóma ég nákvæmlega eins og mamma mín. Og það er svo fyndið… nákvæmlega sömu frasarnir sem að hún tuggði yfir hausamótunum á mér eru núna í uppáhaldi hjá sjálfri mér. Kláraðu matinn þinn annars hættirðu að stækka, þú verður að borða skorpuna, viljiði gjöra svo vel að hlýða mér eða…

Ef ég pæli í því þá lætur pabbi eiginlega oftar á sér kræla. Hann kenndi mér að mála, smíða, káfa ekki á veggjunum, slökkva alltaf ljósin á eftir mér, ganga snyrtilega um (það klikkaði reyndar) og svo ótal margt fleira. Oft þegar ég tek mér málningarpensil í hendurnar er eins og spólan með Pabbaleiðbeiningunum hrökkvi í gang. Og mér finnst það æðislegt…

Best er samt þegar ég læt út úr mér setningar sem ég þoldi ekki að hlusta á sem barn… þá brosi ég í laumi og hugsa með mér að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni…

X