Loading

STUNDUM ÞARF ÞRJÁ…

… til að búa til barn! Ég hef einstaka reynslu af því og þannig er það fyrir fjölda fólks sem vill stofna fjölskyldu.

Ég sat á biðstofu fyrir rúmum 8 árum og fletti þar í blaði þar til ég rak aukun í viðtal við konu sem vildi vekja athygli á skortinum á gjafaeggjum á Íslandi. Ég var 23 ára með tæplega árs gamlan son. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu áður, ekkert frekar en að ég gæti misst legið í fæðingu eða staðgöngumæðrun. Allir vissu hvað glasafrjóvgun var án þess að kunna einhver nákvæmari skil á ferlinu. Þá hvarflaði að mér að ég stæði í samskonar sporum en ég hefði tök á að aðstoða aðra í þessari stöðu.

En að gefa egg finnst mér stór gjöf að gefa og aðstaða mín aðeins flóknari og erfiðari en flestra. Að óska þess að eignast fleiri börn en vera meinað það og horfa á eftir þessum möguleika til annarra var stór biti að kyngja. Þrátt fyrir að eiga ekki hlut í barninu eins og foreldrarnir eða réttmæt móðir þess sem gengur með og fæðir það og elur upp sem sitt þá er þarna hluti af þér og það hef ég hugsað mikið um í gegnum árin. En ég hef alltaf ætlað mér að gefa egg um leið og ég væri tilbúin til þess.

Við fjölskyldan höfum hugleitt mikið bæði að ættleiða og fóstra barn og í kjölfarið höfum við tekist mikið á við þessar aðstæður sem ófrjósemi felur í sér, sjálf og í gengum aðra í Art Medica “pakkanum” ef svo má að orði komast. Í þeim hópi er mikið fengist við sorgina eða missinn af því að eiga sín eigin líffræðileg börn með eðlilegum hætti en það ristir misjafnlega djúpt hjá hverjum og einum. Ég tel líffræðilegu tenginguna ekki mikilvægari en þau tengsl sem myndast á milli foreldra og barna á hverjum degi, hverja minningu og stund saman. Þá finnst mér það frekar mun mikilvægari þáttur í sjálfmynd barnanna sjálfra að vita uppruna sinn og hlutur foreldranna að bera virðingu fyrir því og vera til staðar þegar að því kemur. Eftir að hafa fengist við þessa hluti fannst mér ég tilbúin til að gefa egg til annarra vitandi það að ég mun e.t.v. aldrei eiga fleiri “líffræðileg” börn og er sátt við það. Ég ákvað að sjálfsögðu að vera þekktur gjafi, sem þýðir að ef vel tekst til og úr verður barn/börn þá hefur það/þau völ á að fá upplýsingar um mig við 18 ára aldur.

Þegar ég hafði samband við Art Medica gekk allt mjög hratt fyrir sig enda magnað fólk sem starfar þar. Eftir stuttaralegan spurningalista þá vildu þau ólm fá mig í ítarlegra viðtal og skoðun til að athuga hversu hentugur eggjagjafi ég væri. Ég kom ósköp vel út á pappírum og öllum sýnum og prufum. Síðan var það aðeins spurning hvernig eggjabúið tæki við hormónameðferðinni og hversu mörg og góð egg ég gæti framleitt í einum skammti. Oftast er gengið út frá því að gefa tvemur konum ef svo mörg egg fást úr eggheimtunni.

Fyrir utan almennan slappleika og einstöku hitaköst þá voru aukaverkanirnar ekkert óviðráðanlegar, þreytt og sveitt á köflum og dálítið hæg um mig en ekkert sem truflaði mig og mína að ráði.

Ég fékk smá sjokk þegar ég labbaði inn á ART Medica einn morguninn í fyrsta sónarinn en biðstofan var pökkuð! Þar var fjöldi fólks í einhvers konar skoðunum og/eða meðferðum og yfir sumum óskapleg sorg eða hreinlega andleg þreyta. Mér verður oft hugsað til þess hversu margar konur fara ítrekað í gegnum þessa meðferð, sem fer oft verr í þær líklega vegna aukinnar streitu í þessum aðstæðum, ásamt uppsetningunni, jafnvel þungun og fósturláti. Aftur og aftur, ár eftir ár! Þvílíkur styrkur sem þessar konur og menn þeirra hafa!

Þegar ég upplifði það að ég gæti ekki átt (gengið með) fleiri börn var ég með nýbura í fanginu en eins og flestar mæður var ég nokkuð góð í þeim aðstæðum í dágóðan tíma áður en ég fór að hugsa um frekari barneignir. Það gaf mér nokkur ár til að melta aðstæður undir mildari kringumstæðum ef svo má kalla því að þegar löngunin og núna þörfin gerir vart við sig þá verða aðstæðurnar mun sárari. Hormónameðferðin ýtti auðvitað meira undir þetta alltsaman en ég fann óskaplega til með þeim konum sem uppgötva ófrjósemi á þessum tímapunkti og þurfa að ganga í gegnum ekki aðeins þann veruleika heldur einnig sáran missinn og líkamlega álagið sem fylgir óteljandi ófrjósemismeðferðum, allt á einu bretti! Undarlegasta tilfinningin í öllu ferlinu var líkalega undir lok meðferðinnar þegar þrýstingurinn í neðri kviðnum fór að aukast eftir því sem eggbúin stækkuðu svo að bumbutilfinningin jókst ásamt slappleikanum, brjóstin þrútnuðu í kjölfarið og ég fann svakalega meðgöngutilfinningu sem var frekar öfugsnúið þar sem ég er faktískt að bíða eftir barni en ekki “þessu” barni sem ég var samt að gefa o.s.frv. o.s.frv. frekar einstök staða.

Ég sá samt aldrei eftir þessari ákvörðun, ekki eina sekúndu, þvert á móti þá hjálpaði virkilega að geta mögulega hjálpað öðrum í þessari stöðu með eggjagjöfinni. Að geta takmarkað samskonar sársauka hjá öðrum að einhverju leyti birti gríðarlega yfir mínum eigin aðstæðum.

Eggheimtan fór fram úr öllum vonum og náðust fjöldi eggja fyrir tvo eggþega. Þetta verður allaveganna mín besta jólagjöf þetta árið, til þeirra og til mín en ég fæ líklega að heyra hvernig gekk fyrir jólin.

Eggjagjöf er auðvitað ekki fyrir allar enda tekur hormónameðferðin á en aðeins í 4 – 6 vikur.  Þetta er svakalega stór gjöf að gefa og ýmsar tilfinningar sem spila inn í en fyrir þær sem gætu hugsað sér það þá mæli ég endilega með að gera þetta.

Svo sakar ekki að eiga frábærann eiginmann og son sem tóku heilshugar undir þetta og þótti þetta allt saman sjálfsagt.

(Nafnleyndar óskað)

X