Loading

SÚPERMÖMMUR VS. SÚPERPABBAR – ERU KRÖFURNAR ÞÆR SÖMU?

Þegar kemur að uppeldi barnanna okkar þá tel ég mig geta sagt það fullum fetum að flestir foreldrar taka þær athugasemdir sem gerðar eru varðandi uppeldi eða aðbúnað barnanna okkar nærri sér, hversu gáfulegar sem þær svo kunna að vera. Þessar athugsemdir eru oft hluti af þeirri einkunnargjöfin sem við gefum sjálfum okkur sem foreldrar.

Ég hef fengið allskonar athugsemdir um minnstu smámuni sem lúta að stráknum mínum og velt mér upp úr þeim fram og til baka. Ég hef hinsvegar tekið eftir því að maðurinn minn fær ekki sömu athugasemdir og ef hann fær einhverjar þá eru þær vafnar inn í bómul áður en þær eru settar fram á nettan og alúðlegan hátt.

Getur verið að árið 2012 sé enn himin og haf á milli þeirra krafna sem gerðar eru til mæðra og feðra? Mig langar ekki að trúa þessu en verð því miður að viðurkenna að mý mörg dæmi renna stoðum undir að svarið við þessari spurningu sé jákvætt.
Svo ég haldi nú áfram að fullyrða þá myndi ég segja að öll stefnum við að því að verða súperforeldrar. Við gerum okkur væntingar og vonir um þau fjölmörgu atriði sem okkkur langar að barnið okkar fái að njóta. En hvað þurfum við að gera til að flokkast sem súpermamma annarsvegar og súperpabbi hinsvegar?

Súpermamma: eiga deyfingarlausa fæðingu með slökunartónlistina eina að vopni, vera gengin saman og komin í gömlu gallabuxurnar á innan við viku, brjóstagjöfin verður eitt bleikt ský þar sem móðir og barn tengjast órjúfanlegum böndum, barnið er farið að sofa í gegnum nóttina áður en mánuður líður frá fæðingu, litli bossinn kemst aldrei í snertingu við annað en taubleyjur, allur matur sem litli unginn fær er heimagerður og lífrænn, fæðingarorlofið er að minnsta kosti ár, allar veitingar sem komið er með í mömmuhópinn eru heimagerðar og hollar….. ég gæti haldið endalaust áfram en þið náið líklega hvert ég er að fara….

Súperpabbi: vera viðstaddur fæðinguna ef því er komið við, að vera á staðnum þegar hans er brýn þörf og „passa“ þegar mamma þarf nauðsynlega að bregða sér frá…

Endilega leiðréttið mig ef ykkur finnst ég vera á villigötum en ég hef í raun og veru ekki rekið mig harkalega á að það sé mikið meira sem „súperpabbinn“ þarf að gera til að fá að bera titilinn að margra mati.

Mér og manninum mínum var tjáð af hjúkrunarfræðingi sem heimsótti okkur frá heilsugæslustöðinni að það sem hann þyrfti að passa þegar sonur okkar var nýfæddur var að vera ekki afbrýðsamur út í samband okkar mæðginanna og síðan mætti hann ekki ganga of hart að mér þegar kæmi að kynlífi … ef hann héldi sig á mottunni hvað varðaði þessi tvö atriði væri hann bara golden. Þegar sami hjúkrunarfræðingur komst svo að því að á þessum tímapunkti, þegar sonur minn var aðeins tæplega tveggja vikna, hefði pabbi hans skipt á öllum kúkableyjum var hún nærri fallin í yfirlið af hetjulegri framgöngu mannsins míns í föðurhlutverkinu. Á sama tíma tíundaði téður hjúkrunarfræðingur fyrir mér alla þá ótal þætti sem ungabörn þurfa á að halda og mér væri skylt að veita barninu og ítrekaði fyrir mér að brjóstagjöf, á þessum tímapunkti hálf grét ég mig í gegnum hverja gjöf af sársauka, væri eina leiðin, alls ekki gefa með.

Nú halda kannski sumir að ég sé að úthúða þeim fríða flokki feðra sem Ísland hefur alið, af og frá, ég held að flestir feður geri sér að jafnaði háar hugmyndir um föðurhlutverkið og hafi mikinn áhuga á að taka virkan þátt í því. Þegar á hólminn er komið er bara svo fátt sem þeim er ætlað að gera. Ef að það eru ekki konurnar þeirra sem taka að sér verkefnin sem þeim er „skylt“ að sinna sem mæðrum, mömmur þeirra sem hnussa yfir „allri“ þeirri ábyrgð sem konurnar leggja á þá greyin (það er jú hennar að útdeilda þessum mikilvægu verkefnum er það ekki) þá er það samfélagið sem lætur þá vita að það sé verið að fara hálf illa með þá ef þeir taka á sig of mikla ábyrg á nýja fjölskyldumeðlimnum. Meira að segja vinnuveitendur taka þátt í leiknum og fussa ef karlmanni dettur í hug að taka meira en þá þrjá mánuði sem þeim eru eyrnamerktir af fæðingarorlofi.

Ég vona að allavega nokkrum sem lesi þennan pistill finnist hann fráleitur, sumir kannist ekki við neinar ofangengina fullyrðinga og jafnvel sumir sem kannast bara við helminginn. Ef svo er getur nefnilega vel verið að fleiri séu farnir að átta sig á að foreldrahlutverkið er nefnilega foreldrahlutverk ekki móðurhlutverk þar sem pabbinn fær að eiga nokkrar frábærar innkomur en situr annars á bekknum.

Finnist fólki nauðsynlegt að koma með athugasemd um klæðaburð, mataræði, fjarveru móður, brjóstagjöf, vöntun á taubleyju notkun, of miklu sjónvarpsáhorfi, barnið ekki farið að labba fyrir eins árs, dótið ekki CE vottað, kökurnar í afmælinu keyptar ekki heimabakaðar og er barnið ekki þreytt-þyrst-blautt-svangt munið að flest börn eiga tvo foreldra og þessum athugasemdum er jafn vel borgið hjá hvoru foreldrinu fyrir sig.
– – –
Ég heiti Telma Eir Aðalsteinsdóttir er 29 ára og búsett í Vesturbænum ásamt manninum mínum og syni okkar fæddum 2010. Ég er með BA-próf í Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og eins og sést á námsvalinu er ég ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.

X