Loading

SYSTKINAPÆLINGAR

Mér finnst ég ótrúlega heppin að búa í þjóðfélagi sem býður upp á fjölbreytt fjölsyldumynstur. Í mínum huga er ekkert sem heitir venjuleg fjölskylda, enda er bakgrunnur okkar misjafn.
Ég hef aldrei heyrt neinn segja „mín fjölskylda er nú bara ósköp venjuleg“. Mér finnst ég frekar heyra „mín fjölskylda er svo klikkuð“ eða „það er enginn eins og við“! Og þannig á það einmitt að vera, ef allir væru eins væri frekar óspennandi að búa í þessum heimi.
Ég átti frekar þægilega æsku. Við systkinin erum fjögur, þrjár systur og einn bróðir. Elsta systir mín fæddist á hinu ágæta ári 1968 eða á toppi hippatímabilsins og er hennar uppeldi sjálfsagt pínulítið litað af því. Hún var uppreisnarseggurinn og hefur sjálfsagt verið foreldrum mínum pínulítill höfuðverkur á tímabili. Bróðir minn kom næstur 1973, litli ljúfi drengurinn sem allir elskuðu enda svo sætur með hvítt krullað hár. Í dag er hárið á honum hvítt og krullað, bara aðeins öðruvísi hvítt ef þú skilur hvað ég meina. Nákvæmlega ári (1974) og viku seinna fæddist svo næsta systir mín. Þá var það búið, prakkarinn og litli tuðarinn var fæddur í líkama minnar yndislegu systur og áttu hún og bróðir minn í alveg sérstöku systkina sambandi sem enginn leikur eftir. Þetta reyndist foreldrum mínum, tjah eða móður minni frekar erfitt. Það er að segja að eignast tvö börn með árs millibili með 6 ára uppreisnarsegg á kanntinum og pabbi að sjálfsögðu útivinnandi eins og tíðkaðist á þessum tíma var kannski ekki draumastaða. En mömmu tókst nú samt að ala upp þessi frábæru börn sín og gera þau að því frábæra og vel heppnaða fólki sem það er í dag.
Það mætti ætla að foreldrar mínir hafi verið hættir að eignast börn enda nóg að gera með þrjú börn í heimili. Þegar elsta systir mín var á toppi gelgjunnar sextán ára gömul fæddist ég, krumpuð með stóran munn og grenjaði víst alveg hreint ósköp mömmu til mikillar gremju. Mamma var rétt að detta í árin fjörtíu og orðin nokkuð sátt með það að lítið væri eftir að uppeldi systkina minna. Það að eignast barn á fertugsaldri var kannski ekki beint litið hornauga en þótti nokkuð sérstakt fyrir tæpum þrjátíu árum síðan. Ég grenjaði í fjóra mánuði og lét hafa töluvert mikið fyrir mér. Eftir það var eins og stillt hefði verið á aðra bylgju, ég stein þagnaði og hef varla sagt orð síðan. Ætli ég hafi ekki verið þrjóskust af mínum systkinum en samt á mjög temmilegan máta þó ég segi sjálf frá. Ég var þægilegt barn og sérstaklega þægilegur unglingur enda fór lítið fyrir gelgjunni. Ég varð fullorðin mjög snemma en samt var stutt í barnið og er það enn í dag. Sálin er samt eld gömul og raun mun eldri en í mörgum eldri vinum mínum og sérstaklega systkinum mínum.
En það er svo skrítið að þó svo að ég sé svo heppin að eiga þrjú frábær systkini þá hef ég aldrei uppifað eða munað eftir því að eiga þau sem alvöru systkini. Ég veit ekki hvernig ég get útskýrt þessa tilfinningu. Jú, við erum tengd og spjöllum saman eins og systkini gera en ég man ekki eftir þeirri upplifun að hafa átt með þeim þessar systkinastundir sem svo margir kannast við. Það eru sextán ár á milli mín og elstu systur minnar og svo tíu og ellefu ár á milli næstu. Þau fluttu að heiman löngu áður en ég man eftir mér og því hafa þær stundir sem ég man eftir með þeim einkennst af heimsóknum mínum til þeirra eða heimsóknum þeirra til mömmu og pabba. Þetta gerir það að verkum að oft á tíðum er ég pínulítið utanveltu í fjölskylduboðum en ég meina það alls ekki á slæman hátt. Ég er bara mun yngri en allir hinir og hef ekki sömu tenginu og þau hafa sín á milli.
Nú er nákvæmlega það sama uppi á teningnum með börnin mín tvö. Þau eru svo heppin að eignast þrjú systkini sem öll eru mun eldri. Á milli þeirra verða mest tuttugu ár og minnst níu ár en þó aðeins rétt rúmlega ár þeirra á milli. Það er að segja, barnsfaðir minn var svo heppinn að eiga þrjú börn á þessu breiða aldursbili þegar við tókum saman og svo eigum við von að barni númer tvö saman. Fjölskyldumynstrið er aðeins farið að flækjast en þó ekki svo flókið miðað við mörg önnur spennandi og skemmtileg mynstur.
Það sem börnin mín hafa hins vegar umfram mig er að þau hafa hvort annað og það þykir mér það mikilvægasta. Ég vil að þau upplifi þetta sérstaka systkinasamband sem felst í því að alast upp saman, hvort sem það er í góðu eða illu og læra að umgangast hvort annað með heiðarleika og kærleika. Kannski verða þau eins og hundur og köttur og alls óferjandi, en hvernig sem það fer þá fá þau samt að upplifa systkinasambandið, bara á sinn hátt. Svo er aldrei að vita nema fleiri börn bætist í hópinn og fái að upplifa með þeim þessa tilfinningu en það verður tíminn að leiða í ljós.
– – –
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir er 27 ára gömul og búsett í sveitasælunni við Laugarvatn. Hún hefur eitt ómældum tíma og áhuga í það að mennta sig og þar af leiðandi prófað margt spennandi sérstaklega í tenglsum við útivist og heilsu.
Hún útskrifaðist sem íþrótta- og heilsufræðingur vorið 2010 en átti þá fljótlega sitt fyrsta barn. Dóttir henn varð eins árs 26. desember 2011 og á hún samkvæmt sónar von á litlum bróður í lok mars 2012. Starf hennar sem heimavinnandi og sjálfstætt starfandi húsmóðir er því langt í frá lokið og eftir því sem hún best veit bara rétt að byrja.
Hún segist alltaf vera að læra eitthvað nýtt í tengslum við uppeldi barna, og hefur oftar en ekki rekið sig á það að fæst er hægt að lesa um í bók. Það er því að hennar mati nauðsynlegt að spinna söguna eftir persónuleika barnsins og það þykir henni sérstaklega áhugavert.
Ljósmynd: Lýður Geir Guðmundsson

X