Loading

TABÚ TILFINNINGAR

Flest varðandi meðgöngu, fæðingu, brjóstagjöf, sængulegu og ungbörn er sveipað rósrauðum lit. Þessi tími er sá besti í lífi hverrar konu, fæðingarorlofið er yndislegt. Eða hvað?

Ég er ein af þessum sem er stútfull af tabú tilfinningum á þessum tíma. Meðgöngurnar eru jú yfirleitt frekar ljúfar og hvað varðar fæðingarnar þá er ég ein af þeim sem finnst fæðingar lengri en fjórir tímar ofboðslega langar! (Heppin ég!)
En brjóstagjöf, andvökunætur og ungbörn er eitthvað sem mér finnst stressandi og erfitt. (Best ef að blessuð börnin kæmu bara ca 9 mánaða gömul í heiminn.)
Mér gengur yfirleitt erfiðlega að aðlaga mig breyttum aðstæðum og að læra á nýja barnið, er alveg ómöguleg líka í að lesa grát ungbarna og hef í rauninni aldrei náð að mastera þann talent hjá sjálfri mér.

Tilfinningalega er ég yfirleitt ein stór hrúga, er yfir mig ástfangin af nýja einstaklingnum en ekki ástfangin af þessum flókna tíma. Man aldrei hvaða brjóst ég gaf síðast eða hvenær ég skipti á síðast þannig að börnin mín enda oft ofalin og bleyjuskostnaðurinn verður mikill. Flóknast fannst mér þegar ég átti börn með 2 og hálfs ár millibili. Að kynnast litla einstaklingum, ná að balansera brjóstagjöf, svefn og hvað hann eiginlega meinti með grátnum og að sinna dóttur minni sem var 2 og hálfs ár og dóttur minni sem var 11 ára.
Hvernig sumar konur ná að komast í gegnum þennan tíma í lífi sínu án þess að vera reyttar og tættar skil ég ekki?

Sem betur fer þá er ég ótrúlega rík af góðu fólki í kringum mig, maðurinn minn, foreldrar mínir, sysktyn og vinkonur sem ég hef alltaf getað leitað til, sem leyfa mér að tala um það sem er erfitt á þessum tíma og dæma mig ekki fyrir að vera ekki að rifna úr hamingju. Svo má ekki gleyma möntrunni sem ég fór með daglega eftir að ég átti yngsta barnið: ”This too shall pass!”

Það tók mig smá tíma að sætta mig við sjálfa mig eins og ég er hvað þetta varðar. Vita það að ég er engu verri móðir með því að verða hálf ringluð á þessum tíma og vilja helst að þessi tími þjóti framhjá sem fyrst.
Það er í lagi að finnast þetta erfitt, það er í lagi að vera leið, þreytt og finnast maður hafa týnt sjálfri sér alveg eins og það er í lagi að njóta þessa tíma í botn, vera hamingjusöm og vilja helst að þessi tími muni aldrei taka enda.

– – –
Sandra Guðlaugsdóttir er 32 ára mamma þriggja yndislegra barna á aldrinum 14, 6 og 4 ára. Hún er búsett í Svíþjóð með sínum heittelskaða. Sandra er jafnframt nýútskrifuð sem sjúkraliði og er núna að klára stúdentsprófið og stefnir ótrauð á hjúkkunám.

X