Loading

TAKK ÖLL

Þegar ég skrifaði Foreldahandbókina á sínum tíma átti hún upphaflega að vera lítið hefti þar sem ég gæti komið á einn stað öllum þeim aragrúa góðu ráða sem mér höfðu áskotnast á upphafsvikum mínum í móðurhlutverkinu og fannst ég verða að deila.

Eftir því sem barnið óx og dafnaði stækkaði bunkinn og fljótlega áttaði ég mig á því að ég var með nægt efni í bók í höndunum. Áhuginn varð að ástríðu og í tæp tvö ár var ég heltekin af verkinu. Á meðan á þessu stóð varð ég aftur ófrísk og má eiginlega segja að dóttir mín og bókin hafi fæðst á sama tíma.

Mér fannst þó alltaf eins og ég ætti svo mikið ósagt – og ekki bara ég heldur mæður (foreldrar) almennt þarna úti. Mikilvægasta lexían sem ég lærði var nefnilega að við getum ekki endalaust speglað okkur í öðrum og gagnrýnt okkur fyrir að vera ekki svona eða hinsegin – hins vegar væru svo ótal margir búnir að ganga í gegnum sömu reynslu og upplifa hana á svipaðan hátt sem að væri ótrúlega hjálplegt.

Það var á þeim tíma sem að hugmyndin að þessari vefsíðu fæddist. Í fyrstu var hún lítil og hálfgert krútt en hefur vaxið ásmeginn í gegnum tímann. Hún er nánast alfarið unnin í sjálfboðavinnu og þær auglýsingatekjur sem koma inn fara í að greiða rekstrarkostnað sem er þó nokkur.

Á síðuna hafa ótal margir foreldrar kosið að deila reynslu sinni og endrum og eins rekur mig í rogastans. Það magn upplýsinga er er fyrir hendi er ótrúlegt og nú síðast fjallaði Rakel Rán um Skapofsaköst hjá börnum. Ég las þann pistil og allt í einu skyldi ég heiminn (og börnin mín) betur, eða þegar að Dísa Phea deildi með okkur reynslu sinni af lífinu á vökudeildinni og hvernig það er að eiga alvarlega veikt barn, Elísabet Stefáns fjallaði um stjúpfjölskyldur og endaði í Ísland í dag, Helga Eir Gunnlaugsdóttir, Kristín Greta og Hildur Lilja Guðmundsdóttir opnuðu sig á einlægan og hjartnæman hátt um fæðingarþunglyndi og fengu gríðarleg viðbrögð og Hjördís Birna Hjartardóttir skrifaði um barneignir og bleika skýið.

Ég er einungis að telja upp brotabrot af þeim ótrúlega fjölda pistla og blogga sem eru að finna á síðunni og í hvert sinn sem ég les þetta fyllist ég auðmýkt og þakklæti.

Takk kæru foreldrar fyrir að vera með og leggja ykkar á vogarskálarnar til að við getum haldið áfram að hlúa að þeim reynslubanka sem vefurinn er orðinn.

Án ykkar væri þetta ekki hægt…

X