Loading

Taugaveiklun par excellance!

Þegar sonur minn fæddist fyrir tveimur árum síðan sór ég þess dýran eið að ég ætlaði að vera besta mamma í heimi. Ef það tækist ekki (og þekkjandi sjálfa mig og mína galla þá varð það að teljast harla ólíklegt) þá ætlaði ég hið minnsta að gera mitt besta. Afkvæmið var helst ekki sett í pössun enda auðvitað engum treystandi fyrir honum og mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég ætlaði að hætta mér alla leið út á hárgreiðslustofu án hans þegar hann var fimm vikna gamall. Systir mín – sem nota bene á tvö afskaplega vel heppnuð börn – var beðin um að passa og taugaveikluð sat ég méð álpappír í hárinu og síman í höndunum og sendi henni skilaboð á átta mínútna fresti. Það er skemmst frá því að segja að barnið lifði pössunina af og hlaut ekkert varnalegt tjón af.

Eins er mér minnisstætt þegar að við vinkonurnar ætluðum að hittast eitt kvöldið og skella okkur á barinn. Ég var búin að mála mig, komin í bumbuvænasta dressið og tilbúin að skella mér út þegar að ungi litli fór að orga. Við snillingarnir (lesist: foreldravitleysingarnir) vorum með það á hreinu að okkar stórkostlega afkvæmi fyndi á sér yfirvofandi aðskilnað við móður sína og orgið í honum væru heiftarleg aðskilnaðar og óttaviðbrögð. Ég fór að sjálfsögðu ekki út úr húsi þetta kvöld.

Eftir á að hyggja var auðvitað eitthvað stórkostlega mikið að hjá mér og ég kem sérstaklega inn á þetta heilkenni í kaflanum um Líkamann efitr fæðingu í bókinni góðu. Ég reyndar nefni það ekki berum orðum (og líklegast ætti ég að skýra það viðeigandi nafni) en ég legg gríðarlega áherslu á að við mömmur gleymum okkur ekki í ruglinu og hættum að vera við sjálfar. Þegar ég segi ruglið þá á ég ekki við að það sé skylda hverrar konu að skella sér á djammið korteri eftir fæðingu – því fer fjarri. Það sem ég á við er að það er nauðsynlegt að finna jafnvægi! Í mínu tilfelli dauðlangaði mig út með vinkonunum en lét það ekki eftir mig af því að ég var svo mikil mamma – og svo svakalega ómissandi. Auðvitað hefði ekki væst um barnið í öruggum höndum föðursins en hvað vissi ég.

Þegar næsta barn fæddist ekki alls fyrir löngu var þessu þveröfugt farið. Ekki var lengur tími til að liggja upp í rúmi og dúlla sér með nýja barninu heldur þurfti að sinna eldra barninu þar sem dagmamman var í fríi, elda mat, þvo þvott, gefa út bók, hringja, græja og gera. Það var því sjaldnast dauð stund.

Þá kom það sér gríðarlega vel að hafa ömmu á svæðinu, systur sem allt kunni og vini sem voru tilbúnir að hlaupa undir bagga. Ég get ekki séð að dóttir mín hafi hlotið neitt tjón af. Ef eitthvað er þá er hún spök sem spói, unir sér gríðarlega vel og er vön því að þó hún kvaki öðru hvoru þá er engin taugaveikluð móðir á kantinum sem rífur hana upp og reynir að þagga niður í henni. Þó að það sé miklu meira að gera þá er verður að viðurkennast að móðirin er mun betur stemmd og ef að mamman er sátt þá eru allir aðrir sáttir!

X