Loading

TEDRYKKJA Á MEÐGÖNGU

Pistill eftir Soffíu Bæringsdóttur, kennara, doulu og burðarpokaspekúlant.

Því er stundum fleygt fram að te á meðgöngu sé allra meina bót án nokkurra útskýringa. Te er jú allra meina bót á meðgöngu en það skiptir að sjálfsögðu máli hvaða te er drukkið. Hér er smá listi yfir nokkur te sem upplagt er að njóta á meðgöngunni.

Hindberjalaufste er járnríkt, dregur úr ógleði og styrkir og örvar legið. Hindberjalauf inniheldur A, B, C, og E vítamín og kalk, járn, magnesíum og fleiri steinefni. Það er misjafnt hvort talið sé óhætt að drekka hindberjalaufste alla meðgönguna eða eingöngu á seinasta þriðjungi hennar. Svo er það líka skemmtilega bragðgott.

Brenninettlute er talið gott fyrir blóðrásina og er mjög járnríkt. Brenninettlute er talið fyrirbyggja æðahnúta og gyllinæð. Brenninettlute er óhætt að drekka alla meðgönguna. Nettlute er örlítið rammt en mjög bragðgott og auðvelt að blanda því með öðru tei. Piparmynta og brenninettla blandast t.d. mjög vel saman.

Piparmyntute er róandi og getur slegið á ógleði og er gott við brjóstsviða. Piparmyntute inniheldur meðal annars B vítamín og kalsíum.

Lavenderte er vel þekkt fyrir góða verkun. Það getur slegið á ógleði, bætt svefn og róað taugarnar og slegið á kvíða. Það er svolítið væmið og sætt. Það blandast einstaklega vel með mintu.

Öll tein eru góð heit, en það er ekkert verra að hita te að morgni og setja á brúsa og dreypa á því yfir daginn.

– – –
Soffía Bæringsdóttir er kennari og doula og burðarpokaspekúlant. Hún rekur vefverslunina www.hondihond.is sem selur bækur og burðarpoka. Hún hefur óbilandi áhuga á öllu sem tengist fæðingum og barnauppeldi.
Hægt er að hafa samband við Soffíu með tölvupósti á netfangið soffia@hondihond.is.

X