Loading

TENGSL MILLI MEÐGÖNGULENGDAR OG ADHD

Nýleg rannsókn í Hollandi hefur leitt í ljós að tengsl eru milli langrar meðgöngu og aukinnar tíðni hegðunarvandamála hjá börnum. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu sérstaklega á tengsl milli ADHD og óeðlilegrar meðgöngulengdar sem telst meðganga sem er lengri en 42 vikur.

Fimm þúsund börn voru í úrtakinu og þar af voru 7% fædd eftir 42 vikna meðgöngu og 4% voru fædd fyrir 37 viku. Aukin tíðni hegðunarvandamála reyndist hjá þessum hópum þegar börnin voru orðin 18 og 36 mánaða gömul og börn sem fædd voru eftir 42 vikna meðgöngu voru helmingi líklegri til að sýna einkenni ADHD. Rannsóknin birtist í tímaritinu International Journal of Epidemiology.
Engir aðrir þættir á borð við þyngd móðuður, aldur, kynþátt, tekjur, áfengisneyslu, reykingar, menntun eða andlega heilsu á meðgöngunni, virtust hafa áhrif á niðurstöðurnar.

Þrátt fyrir að tengsl hafi fundist milli ADHD og lengdrar meðgöngu kom ekki í ljós hver ástæða þess er. „Frekari rannsókna er vissulega þörf, bæði til að finna út orsakirnar og eins til að kanna hvort vandamálið fylgi börnunum fram yfir 36 mánaða aldurinn,” sagði stjórnandi rannsóknarinnar, Hanan El Marroun í fréttatilkynningu.

X