Loading

ÞAÐ ERU EKKI ALLAR MÖMMUR MJÚKU TÝPURNAR

Síðan ég átti son minn hef ég hægt og rólega verið að átta mig á því að ég er ekki þessi týpíska mamma. Ég hef kannski heldur aldrei verið þessi týpíska stelpa þannig þetta hefði ekki átt að koma mér neitt sérstaklega á óvart…

Það virðist vera víðtæk skoðun að mömmur eru þessar mjúku týpur, þær sem hlúa að, hugga, eru alltaf til staðar, elda, baka, þrífa og fullnægjan ein við að koma börnunum sínum til mans er einfaldlega nóg afþreying útaf fyrir sig.

Þetta er bara ekki ég…. ég er mamman sem kann öll leikskóla lögin, býr til tjald í stofunni, fer með út að drullumalla, ærslast í gamni slag, fíflast, set strangar reglur og er hlýtt og þarf nauðsynlega að vinkonuhittingum, deitum með manninum mínum og dekri fyrir sjálfan mig til að finnast lífið yndislegt.
Ýmsar ákvarðanir sem ég hef tekið sem mamma hafa fallið í grýttan jarðveg hjá sumum, ekki endilega vegna þess að fólk getur bent mér á að þær séu skaðlegar fyrir barnið mitt heldur eru þær óvenjulegar eða út fyrir normið. Aðrir hafa síðan hrósað mér í hástert fyrir dugnaðinn og það að þora.

Þegar sonur minn var um þriggja mánaða fékk ég til dæmis tækifæri til að fara til útlanda í vinnuferð/skemmtiferð. Ferðin var tæpir tveir dagar en ég var samt á báðum áttum með að fara, maðurinn minn tók hinsvegar ekki í mál að ég sæti heima og það var úr að ég fór. Ferðin var síðan ekkert stór mál utan við reglulegar mjaltir fyrir ferð og meðan á henni stóð. Það sem kom mér rosalega á óvart var að það höfðu margir mjög sterkar skoðanir á þessari ferð minni og margir vinnufélaga minna voru stór hneykslaðir á því að mér dytti í hug að fara. Í ferðinni var samt annar vinnufélagi minn, karlmaður, sem átti barn sem var rétt rúmlega mánaðargamalt. Það heyrðust engar athugasemdir um það hvernig honum dytti í hug að fara frá barninu sínu og skilja það eftir hjá móður þess….Ég var bara 5 og hálfan mánuð í fæðingarorlofi og svo tók maðurinn minn við, ég tek ekki alla veikindadaga með stráknum mínum heldur skiptum við þeim jafnt á milli okkar foreldrarnir. Allt ákvarðanir sem virðast fara mikið í taugarnar á sumum.

En af hverju má ekki bara vera til fleiri en ein týpa af mömmum? Af hverju finnst þeim sem styðja mjúku mömmu týpuna þeir í fullum rétti til að dæma þær sem falla ekki undir þá skilgreiningu? Væri ekki eðlilegra að styðja mömmur í þeirri langferð sem móðurhlutverkið er og fagna fjölbreytileikanum? Það er jú fjölbreytileikinn sem skilar okkur öllum þeim litríku og fjölhæfu einstaklingum sem samfélagið hefur upp á að bjóða.

– –
Ég heiti Telma Eir Aðalsteinsdóttir er 29 ára og búsett í Vesturbænum ásamt manninum mínum og syni okkar fæddum 2010. Ég er með BA-próf í Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og eins og sést á námsvalinu er ég ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.

X