Loading

ÞAÐ SEM GLEYMIST AÐ TALA UM

„Ó, þið ungu stúlkurnar eruð svo saklausar og krúttlegar með litlu bumburnar ykkar og maður vill ómögulega vera að tala um svona hluti.“ Þetta sagði eldri samstarfskona við mig eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn. Ég var að spjalla við nokkrar úr vinnunni, sem allar áttu börn fyrir, um þá hluti sem hefðu nú komið mér svolítið á óvart eftir að ég fæddi.

Ekki það að ég held ég hafi verið frekar vel undirbúin, miðað við margar frumbyrjur. Ég var búin að lesa helling, horfa á alls konar video og spá í hinum og þessum hlutum, hvort ég ætti að borða fylgjuna, hvernig ég gæti örvað mjólkurmyndun fyrstu dagana og svo reyndi ég að nudda spöngina síðustu vikurnar fyrir settan dag, til að mögulega koma í veg fyrir að rifna (ég gafst reyndar upp á því mjög snemma því spangarnuddið lét mig þurfa að pissa, ég pissaði einu sinni smá á rúmið mitt og fannst þetta síðan allt of fyndið eitthvað til að geta slakað á, sem er nauðsynlegt fyrir nuddið). Mér fannst ég vera nokkuð vel undirbúin og að fátt tengt þessu ferli gæti komið mér eitthvað á óvart.

En það sem ég komst að er að það er sumt sem fylgir því að fæða barn, sem er einfaldlega ekki talað mikið um. Hvorki í samfélaginu né á netmiðlum, ekki nema maður sé svo heppin að ramba inn á þannig blogg eða síðu, þær eru ekkert svakalega margar. Og það segir sig sjálft, að ef konurnar í kringum mann tala ekki um þessa hluti, þá gerir maður ósjálfkrafa bara ekki ráð fyrir þeim og er heldur ekkert að leita sér að upplýsingum varðandi þá.

Nú ætla ég alls ekki að sitja hér og skrifa upp einhvern tæmandi lista yfir allt sem mögulega gæti komið frumbyrju á óvart eftir að fæðingin fer af stað, ég tel mig alls ekki nægilega reynda né fróða til að gera það. En mig langar að minnast á nokkur atriði, sem gætu kannski gagnast ykkur sem hafið áhuga á að fá smá forsmekk af sælunni:

  • Svæðið þarna niðri mun vera bólgið og aumt fyrstu dagana. Mér skilst að konur sem enda í keisaraskurði lendi líka í þessu og það skiptir víst ekki miklu máli hvort þú varst saumuð eða ekki. Meirihluti kvenna semsagt lendir í þessu. Mér fannst sérstaklega óþægilegt að fara fram úr rúminu, að pissa og svo þegar það koma að því að gera nr.2 þá varð ég hrædd um að ég væri ennþá með barn inni mér sem ætlaði að koma út þá og þarna. Ég var líka saumuð sem gerði það að verkum að mig sveið rosalega hvert skipti sem ég pissaði, fyrstu dagana. Bakstrar geta hjálpað gegn bólgunni og það er mjög sniðugt að hafa vatnsflösku með sér á klósettið til að létta á sviðanum. Eftir á fann ég alls konar markaðssettar vörur tengdar „neðanskoli“ eftir fæðingu. Og hver veit nema ég fjárfesti í græðandi jurtablöndu til að sulla yfir kynfærin mín fyrstu dagana eftir næstu fæðingu. En, ég hefði aldrei farið að leita eftir einhverju svoleiðis þegar ég gekk með fyrra barnið mitt, því að enginn talaði um það.
  • Þú munt fara alveg rosalega úr hárum. Enn og aftur, langflestar konur lenda í þessu. Sturtur stíflast nánast eftir hvern hárþvott, ryksugur stíflast og það eru hár á öllu sem þú umgengst. Þegar þú (eða einhver hugrökk manneskja) hættir þér í að losa sturtustífluna þá dregurðu upp hárflækju sem mynnir helst á stóran, blautan hamstur, svo mikið hár losnar. Það er ekki mikið hægt að gera í þessu ferli, þetta er samansafnað hárlos frá því að þú varðst ólétt og nú þarf bara að bíða þetta af sér. Ég tæklaði þetta með því að nota hárklemmu sem mest, því þá slitnar hárið ekki eins mikið og t.d. með teygju. Svo reyndi ég að þvo hárið á mér ekkert allt of oft, helst ekki nema annan eða þriðja hvern dag. Annað hefði bara verið of mikið vesen. Og ég sleppti því að bursta eða greiða hárið á mér ef ég komst upp með það. Og hana nú.
  • Þú verður á blæðingum næstu vikurnar. Þú fékkst að upplifa c.a. 9 mánuði án nokkurra heimsókna frá Rósu frænku, en nú er komið að skuldadögum. Gerðu ráð fyrir 5-6 vikum af dömubindanotkun. Fyrstu dagana muntu ganga um í fullorðinsbleyjum, því það blæðir stundum svo mikið. Ég mæli svo með þessum stóru mjúku bómullarbindum frá Natracare þegar jafnvægi hefur komist á þetta. Ég upplifði það tveim dögum eftir fæðinguna að setjast upp í rúminu og finna að það var eitthvað á leiðinni út um leggöngin á mér. Og viti menn, út kom þessi líka myndarlega blóðgusa sem fór út um allt. Aumingja fullorðinsbleyjan átti ekki séns. Pollurinn í rúminu var á stærð við vaskafat. Sem betur fer var ég með vatnshelt lak undir mér svo skaðinn var ekki mikill. Svona „eftirágusur“ gerast víst stundum og það þarf ekki endilega að þýða neitt óeðlilegt (mundu samt að minnast á það við ljósmóðurina þína).
  • Brjóstin á þér munu taka miklum breytingum. Brjóstagjöfin er erfið fyrstu vikurnar. Við eigum allar rétt á aðstoð við upphaf brjóstagjafar. Þér mun vera ráðlagt að hálfpartinn klípa vörtubauginn (bleika svæðið utan um geirvörtuna) á þér saman í samloku og troða upp í litla barnið þitt. Engar áhyggjur, það er eðlilegt. Þú munt verða rosalega þyrst við hverja gjöf og því er gott að hafa alltaf vatnsglas innan seilingar. Barnið þarf að sjúga reglulega til að mjólkurmyndun komist almennilega í gang og viðhaldist, svo þér mun líklegast finnast þú gera lítið annað en að gefa brjóst. Í raun þá myndi ég ekki gera ráð fyrir mörgu öðru fyrstu dagana, komdu þér vel fyrir með krílið þitt, sjónvarpsefni eða góða bók, eitthvað að narta í og nóg af vatni. Ég gaf á 3 tíma fresti fyrstu sólarhringana, fékk stálma í brjóstin (þau blésu út eins og ég væri komin með sílikon) og fyrstu dagana var brjóstagjöfin sár fyrstu mínútur hverrar gjafar. En það er eðlilegt. Það er líka eðlilegt að þú mjólkir ekki nema nokkra mL fyrstu dagana. Magi ungabarna er jú bara á stærð við vínber. Tvö önnur heilræði sem ég vil koma á framfæri varðandi brjóstagjöf eru að leita sér strax hjálpar ef þetta er að ganga eitthvað brösulega og að hafa bara fólk í kringum þig sem er að styðja þig og lætur þér líða vel. Fólk sem er að gagnrýna þig eða lætur þér líða eitthvað óþægilega má bara vera heima hjá sér.
  • Þú gætir fengið slit eftir fæðinguna. Ég lennti sjálf í þessu og hef heyrt af fleirum. Sýnir það bara að slit eru í raun hormónatengd og við ráðum voðalega lítið við þau.
  • Þú ert stödd í tilfinningarússíbana. Hormónaflæðið er á milljón og allt virðist svo ótrúlegt. Svo sem ekki skrítið, þar sem þú varst að koma nýjum einstakling í heiminn. Sumar konur gráta, sumar upplifa hræðslu, óstjórnlega hamingju eða vanlíðan. Ég táraðist oft við það hvað heimurinn var fallegur, ég bara trúði því varla. Svo inn á milli grét ég því ég var hrædd við heiminn og allt það ljóta sem er til í honum. Þetta er eðlilegt og best að hafa fólk sem maður treystir nálægt sér til að styðja mann þegar tilfinningarnar hellast(bókstaflega) yfir mann. Og ekki vera hrædd við að leita þér auka stuðnings ef þér finnst þér líða illa of lengi/oft.
  • Bumbusakn. Þetta er eðlilegt fyrirbæri, við eyðum mörgum mánuðum í að knúsa þessa kúlu okkar, strjúka hana og finna fyrir henni. Kúlan verður að vissu leiti einkenni okkar. Og svo bara allt í einu er maginn allur mjúkur og lafandi, fólk sem veit ekki að við vorum að fæða barn, heldur sennilega bara að við séum pínu feitar. Ég fann rosalegt bumbusakn fyrstu vikurnar, ég elskaði bumbuna mína, þar inni óx unginn minn og var öruggur. Ég bar barnið mitt í burðarsjali og það hjálpaði helling. Unginn minn var utan á mér, ég gat knúsað hann, svipað og ég knúsaði bumbuna og það var yndislegt. Mæli með því.
  • Tíminn fer að líða ótrúlega hratt! Áður en þú veist af mun litla nýfædda barnið þitt vera orðið nokkura daga, vikna, mánuða, ára gamalt. Tíminn bókstaflega flýgur. Ekki vanvirða þessa staðreynd. Settu tímann sem þú hefur með litla barninu þínu í forgang,slakaðu á, njóttu, skrifaðu strax niður hluti sem þú vilt aldrei gleyma og taktu reglulega myndir. Þið munuð varðveita þessar minningar alla ævi.

Það eru fleiri hlutir sem ég gæti skrifað niður, en fyrir mig var þetta svona það helsta sem kom mér að óvörum. Þegar ég fer að rifja upp fyrstu dagana og vikurnar þá langar mig helst að fara aftur í tímann og fá að upplifa þessar dýrmætu stundir aftur. Ég hef aldrei verið eins hamingjusöm og eftir að frumburðurinn minn kom í heiminn og það er magnað að hugsa til þess að ég er að fara að upplifa þetta allt aftur eftir ekki svo margar vikur. Samt verður sú reynsla önnur, því þetta er jú önnur meðganga, annað barn og þroskaðri, betri mamma. Nýtt ævintýri.

Sem stelpur og konur þá heyrum við oft talað um fæðingar og barnsburð á mjög steríótýpískan hátt. Sem unglingur og fram undir tvítugt var ég skíthrædd við það að verða ólétt, og í raun er það skiljanlegt. Hver kannast ekki við hryllingssögurnar um það að vera klippt, að rifna, vera saumuð og að allar konur ættu að fá sér mænudeyfingu því þetta sé svo ógeðslega vont? Þessar sögur eru og hafa verið, að mér finnst, ríkjandi í umræðunni um þessi efni. En það er svo margt annað sem við ættum að segja hvor annari, margt til að hlakka til, margt grátbroslegt og margt sem er gott að búa sig undir andlega. Tölum um það.

Gangi ykkur öllum vel.
Ungamamma.

X