Loading

Það sem stundum gleymist að tala um eftir fæðingu

Eftirvæntingin eftir barninu og undirbúningurinn fyrir fæðinguna tekur stundum svo mikið rými í lífi okkar að fyrstu stundirnar eftir fæðingu koma oft mjög á óvart. Barnið fætt en slatti eftir af einhverju sem ekki endilega hefur verið talað um. Ekki misskilja, það er alltaf eitthvað sem kemur á óvart, það er ekki hægt að undirbúa sig svo vel að maður hætti að undrast. Þó eru nokkrir hlutir sem koma upp aftur og aftur, sem kannski er ekki mikið talað um.

Þegar barnið er fætt, fæðist fylgjan.Fylgjan kemur síðast og það er heitt og skrýtið að fæða fylgju, yfirleitt áreynslulaust en skrýtið.

Ljósmæður nudda legið eftir fæðingu, til að athuga hvort það taki sig ekki örugglega saman. Það er alveg agalega vont að láta nudda á sér legið eftir fæðingu. Þær nudda legið og athuga það reglulega. Þetta á líka við um eftir keisarafæðingu.

Oft þarf að sauma eftir fæðingu, það er talað um fyrstu, annars og þriðju stigs rifu. Það er oft sárt að láta sauma, þó vel sé búið að deyfa og getur tekið langan tíma. Sársaukinn er líka oft meira eins og sviði eða stingur og fátt sem getur undirbúið mann undir það að láta sauma á sér barmana með lítið barn í fanginu.

– Netanærbuxurnar sem konur fá fyrst eftir fæðingu halda vel en leyna engu!

– Það getur verið erfitt að setjast upp og sitja strax eftir fæðinguna, slíkt tekur oft nokkra daga að jafna sig.

– Maginn er mjúkur og laus strax eftir fæðingu og það getur verið skrýtið að ýta á magann strax á eftir.

– Það getur tekið tíma að jafna sig og ná áttum eftir fæðingu og ná að njóta þess að vera með barninu sínu.

Soffía Bærings

– – –

Soffía Bæringsdóttir hefur starfað sem doula frá 2008 og verið þess heiðurs aðnjótandi að vera við yfir fimmtíu fæðingar og aðstoðað rúmlega hundrað pör í að undirbúa sig fyrir fæðingu. Hún hefur á undanförnum árum haldið fyrirlestra og námskeið um fæðingarundirbúning og svefn ungbarna, tekið á móti erlendum fyrirlesurum og haldið utanum doulu-nám á Íslandi.
Hún tekur að sér stuðning við verðandi foreldra á meðgöngu, í gegnum fæðingu og í sængurlegu. Einnig tekur hún að sér fæðingarundirbúning.

Soffíu þykir mikilvægt að vera til staðar fyrir nýjar fjölskyldur í nýju hlutverki. Áhugi hennar liggur í að veita samfellda, trausta þjónustu, hlúa að og efla foreldra. Í gegnum störf sín sem doula hefur hún fundið hve gífurlegar mikilvægur stuðningur við fjölskyldur er. Metnaður hennar liggur í að vera til staðar fyrir nýjar fjölskyldur á þeirra forsendum.

Soffía er gift þriggja dætra móðir og á tvo hamstra.

Vefsíða Soffíu er Hönd í hönd.

X