Loading

ÞAÐ TEKUR Á AÐ BÚA TIL BARN

Ég verð alltaf svo glöð að lesa og heyra um pör sem að ná að verða ólétt strax eftir að það er byrjað að reyna að búa til barn. Og einnig er gaman að heyra um kríli sem koma óvænt undir hjá foreldrunum, en samt svo velkomin í heiminn. En aftur á móti eru ansi margir sem glíma við þann vanda að það tekur marga mánuði og jafnvel ár áður en konan verður ólétt.

Eins og ég nefndi í seinusta mömmu bloggi mínu þá þurftum við hjúin hjálp við að eignast gullmolann okkar. En við vissum það ekki fyrr en eftir 2 ára „reynirí“ að við myndum þurfa á þessari hjálp að halda.

Þegar við byrjuðum að reyna að „verða ólétt“ þá var ég búin að lesa mér til um allt milli himins og jarðar hvað myndi geta hjálpað til við að búa til eitt stykki barn. Ég vissi allt um það hvaða töflur ætti að taka og mixtúrur, einnig drakk ég eitthvað ógeðis te. Svo auðvitað hvaða egglospróf ætti að kaupa, hvaða krem ætti að nota og annað tengt þessu bæði fyrir mig og kallinn. Við sem sagt fórum í það að prufa allt sem ég las mér til um.

Ég hætti á pillunni og vissi auðvitað að það gæti tekið smá tíma fyrir hormónin vegna pillunnar að fara úr líkamanum og þess vegna vorum við ekkert mikið að reyna fyrstu mánuðina eftir að ég hætti á pillunni. Svo byrjaði ballið. Við kunnum tíðarhringinn minn utan af enda með reglulegan tíðarhring. Ég var ansi dugleg að skella í mig te og mixtúru, keypti alveg helling af þessu dótaríi. Svo voru öll tilheyrandi vítamín tekin og nóg af þeim líka. Maður var sem sagt uppfullur af hollustu fyrir frumurnar sínar.

Við tókum því rólega fyrst um sinn í þessu reyniríi okkar og var alltaf samt sú hugsun rétt áður en að blæðingarnar byrjuðu, hvort að þetta hafi nú tekist hjá okkur. En svo kom annað á daginn. Það tókst ekki í heilt ár. Við vorum mjög sár yfir því að ég varð aldrei ólétt, enda lögðum við mikið á okkur í reyniríinu. En svo eftir nokkra daga af sorg, fórum við aftur að hugsa um það að byrja upp á nýtt að reyna, og alltaf sú hugsun að þetta myndi takast næst.

Þá fyrst eftir eitt ár fórum við til læknis að leita okkur hjálpar. Hann sendi mig í allskonar rannsóknir, og var búið að pota og pína mig ansi oft, í þessum rannsóknum. En maður gerir auðvitað hvað sem er fyrir það eitt að vita hvað sé að og til að geta uppfyllt drauminn sinn. Svo vorum við send heim með frjósemistöflur. Hugsunin hjá okkur þá var að núna myndi þetta koma, hlýtur bara að vera því við vorum með í höndunum hvorki meira né minna en tvöfaldan skammt af frjósemis góssinu.

Þrátt fyrir þessar töflur tókst okkur ekki að verða ólétt. Við fengum þá tíma hjá yndislegum lækni hjá ART Medica sem sagði við okkur að núna ætlaði hann að gera okkur ólétt og það með hans hjálp (smásjárfrjóvgunar). Við vorum svo ánægð að fá loksins svar við vanda okkur og hlökkuðum til að byrja í ferlinu. Það var samt erfitt fyrst um sinn að heyra þessar fréttir en við vorum fljót að jafna okkur og hálf létt við svarinu á vandanum.

Það tekur á ansi marga að reyna að eignast börn og sumir hverjir fá ekki draum sinn uppfylltan jafnvel eftir margar frjósemisaðgerðir og suma tekur það jafnvel ansi langan tíma. Við fengum okkar draum uppfylltan en það tók okkur samt sem áður tvö ár. Það að reyna að fá draum sinn uppfylltan tekur á fólk, andlega og líkamlega. Þetta er erfitt ferli hvort sem fólk þarf hjálp við það eða ekki.

– –
Ég heiti María Rut Baldursdóttir og er 26 ára gömul. Ég á tilvonandi mann (giftist honum í sumar) og einn son fæddan í júní 2010. Ég vinn hjá Reykjavíkurborg og er að læra Guðfræði við Háskóla Íslands. Ég er söngkona og hef mikinn áhuga á tónlist. Elska að dekra við strákana mína og þeir við mig. Lífið gæti ekki verið yndislegra.

X