Loading

ÞAKKLÆTI

Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær!

Ég sat með tveimur börnum við sjónvarpið – að kvöldi 14. maí 2007 – við vorum að horfa á Grey´s Anatomy.  Síminn hringdi og á línunni var félagsráðgjafi – erindið var hvort við hjónin gætum hugsað okkur að taka í fóstur 14 mánaða gamla stúlku.  Ég játti því en sagðist þurfa að ræða við manninn minn og félagsráðgjafa hinna barnanna áður en ég gæti gefið endanlegt svar.

Viku síðar fluttist Rósin á Sjónarhól – pínulítil með hvítt hár og blá augu.  Með fjólublátt Gerber snuð (sem ég geymi enn), í gallakjól og röndóttum bol, í sokkabuxum og litlum bleikum skóm.  Lífið varð aldrei aftur samt – þessi litla títla fangaði hjarta mitt á augabragði.  Hún hljóp og skríkti og hló og fyllti húsið mitt af gleði og ást.  Hún kom hingað inn í fangi ömmu sinnar, brosandi en kannski hikandi – kvaddi fólkið sitt og skoðaði nýja heimilið.  Hún var opin og forvitin, glaðvær lítill grallari.  Það eru til hundruðir mynda frá þessu sumri, sem geyma ógleymanleg augnablik af lítill stúlku sem uppgötvar nýjan heim.

Þetta gullfallega barn sem kom inn í líf okkar hjóna fyrir 5 árum síðan verður 6 ára í vikunni – hún er búin að missa tvær tennur, klippa hvíta hárið styttra og les fyrir mig á hverju kvöldi.  Hún heldur ennþá þéttingsfast um hjartað mitt og sleppir vonandi aldrei.

Þetta er stelpan mín og ég gleymi því oft og iðulega að ég kom hvergi nærri því að koma henni í heiminn.  Það skiptir mig reyndar engu – tilfinningarnar sem ég ber til hennar eru í engu frábrugðnar þeim sem ég ber til drengjanna sem ég fæddi sjálf.

Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti til fólksins sem kom Rósinni minni í þennan heim og annaðist hana.  Þakklæti þeim sem völdu okkur sem fósturforeldra hennar, þakklæti þeim sem treystu okkur fyrir umönnun hennar.  Þakklæti og virðing til handa þeim sem elska þessa litlu stelpu engu minna en ég geri sjálf.  Og síðast en ekki síst virðing og skilningur gagnvart þeim sem eiga sér þá ósk heitasta að sameinast að nýju.

X