Loading

ÞARF AÐ LAGA SJÁLFSMYND BARNSINS?

Mörg börn og unglingar hafa slæma sjálfsmynd eða líkamsmynd. Tíðni slæmrar sjálfsmyndar og líkamsmyndar er mismunandi eftir aldri og kyni. Stúlkur mælast til að mynda með verri líkamsmynd en drengir og geta börn og unglingar sem lent hafa í einelti eða þau sem eru með einkenni ýmissa raskana eins og ADHD verið í meiri áhættu hvað varðar röskun á sjálfsmynd eða líkamsmynd. Fræðimenn hafa tengt slæma sjálfs- og líkamsmynd við aukna tíðni ýmissa geðraskana. Til að mynda geta líkur á þunglyndi, kvíða, átröskunum, slæmum námsárangri og annarri áhættuhegðun aukist eftir því sem sjálfs- og líkamsmyndin versnar. Mikilvægi þess að huga að líðan barna og unglinga og sýn þeirra á sjálfa sig er því nokkuð ljós.

Hægt er að nýta aðferðir úr hugrænni atferlisfræði til að bæta sjálfs- og líkamsmynd einstaklinga og þegar kemur að yngri börnum er mikilvægt að einfalda verkefni og byggja fræðslu og ráðgjöf á leikjum, verkefnum og æfingum.

Vefsíðan www.sjalfsmynd.com er þverfaglegt samstarfsverkefni námsráðgjafa, kennara, hjúkrunarfræðings og sálfræðinga. Þar birtast má finna upplýsingar um líkamsmynd og sjálfsmynd, hagnýt ráð og verkefni og leiki sem hægt er að nýta í ráðgjöf með börnum og unglingum.

Við hvetjum alla sem vinna eða sinna börnum og unglingum að kíkja á vefsíðuna. Heimasíðan er ætluð fagfólki sem og foreldrum og ættu flestir að geta fundið fræðslu, verkefni eða bækur sem gætu komið sér vel í þeirri vinnu að bæta líðan barna og unglinga. Einnig hvetjum við þá sem hafa áhuga á að deila með öðrum skemmtilegum og góðum verkefnum, bókum eða ráðum að hafa samband við okkur. Hægt er að senda póst á elvabjork@sjalfsmynd.com.

X