Loading

THE TERRIBLE-TWOS

Ég á son sem verður tveggja ára í lok nóvember. Undanfarna mánuði hefur farið að bera á meiri mótþróa, sjálfstæði og frjálsum vilja. Þegar ég tók eftir þessu mynstri þá hugsaði ég með mér „Jæja, það er að koma að þessu. The terrible twos eru að bresta á“. Þess vegna fannst mér tilvalið að skrifa stuttan pistil um þetta umtalaða tímabil og góðar ráðleggingar sem gætu gagnast foreldrum.

Þriðja aldursár barnsins er talið vera stór hjalli í foreldrahlutverkinu. Til tveggja ára aldurs er talið að foreldrar séu í hlutverki þjóns en á þriðja aldursárinu fara foreldrar yfirleitt að breyta foreldrahlutverkinu, úr þessu svokallaða þjónustuhlutverki í hlutverk stjórnanda og leiðtoga. Þetta tímabil er þekkt sem the terrible twos vegna þess að þegar foreldrar takast á við þessa breytingu þá svara börnin fyrir sig með öllum sínum tilfinningalega styrk. Fyrstu tvö árin er barnið ef til vill miðpunktur athyglinnar, allt snýst um barnið og hvað hentar því. Þannig að þegar foreldrarnir fara að breyta foreldrahlutverkinu gerir barnið nánast hvað sem er til að halda í óbreytt ástand þar sem barnið er miðpunktur alls. Þau vilja jafnvel að þetta haldist eins að eilífu, sem getur leitt til órökrétts mótþróa og óstjórnlegrar reiði þegar barnið fær ekki það sem það vill (Rosemond, 2013).

Í náminu lærði ég mörg góða ráð til þess að takast á við ýmiss konar óæskilega hegðun (sem ég vona svo sannarlega að gagnist mér á komandi árum!). Hér koma nokkur ráð:

  • Gefið barninu skýr fyrirmæli. Skýr fyrirmæli segja til um hvað barnið á að gera (en ekki hvað barnið á ekki að gera). Þegar gefa á skýr fyrirmæli er gott að ná augnsambandi við barnið og vera í hæð við það. Einnig er gott að venja sig á að orða fyrirmæli sem staðhæfingar en ekki spurningar. Dæmi um skýr fyrirmæli: „Settu bókina í hilluna“, Sestu niður í stólinn“, „Leggstu niður núna“. Dæmi um óskýr fyrirmæli: „Ekki hafa bókina á gólfinu“, Það á ekki að standa í stólnum“, „Ekki standa í rúminu“.
  • Gefið barninu tvo valmöguleika. Þegar þið biðjið barnið um að gera eitthvað, eins og að klæða sig í skóna þá getur hentað að gefa barninu tvo valmöguleika. Dæmi: „Má bjóða þér að fara í strigaskóna eða stígvélin“, „ Má bjóða þér að hafa rauðu húfuna eða bláu húfuna“, „Má bjóða þér að gera þetta sjálfur eða á mamma/pabbi að gera þetta fyrir þig“.
  • Verið þolinmóð. Það hjálpar hvorki ykkur né börnunum ef þið eruð óþolinmóð og getur jafnvel gert erfiðar aðstæður enn erfiðari.
  • Biðjið um aðstoð ef þið eruð að gefast upp í erfiðum aðstæðum. Það er ekki veikleikamerki að biðja um aðstoð. Ef þið eruð alveg að gefast upp þegar barnið er í mótþróakasti fáið þá makann eða einhvern nákominn sem er á svæðinu til að taka við. Það er betra að biðja um aðstoð heldur en að missa hugsanlega þolinmæðina og segja eða gera eitthvað sem við sjáum eftir. Því við getum öll gert mistök. Nú ef þið eruð ein í erfiðum aðstæðum og eruð að missa þolinmæðina þá gæti hjálpað ykkur að taka nokkrar sekúndur til að stíga skref til baka og anda áður en haldið er áfram.

Þessi listi er að sjálfsögðu ekki tæmandi. Til eru allskyns leiðir og ráðleggingar sem geta hjálpað okkur að takast á við óæskilega hegðun og skapofsaköst. En þetta eru meðal annars þeir þættir sem ég ætla að reyna að hafa í huga í gegnum þetta tímabil sem er að bresta á.

Sara Tosti

– – –
Ég er móðir yndislegs drengs sem verður tveggja ára í lok nóvember, er með Master í sálfræði, með áherslu á barnasálfræði, og vinn við sérkennslu í leikskóla í Hafnarfirði.

Heimildir:

Rosemond, J. (2013). How to make the terrible twos terrific. Kansas City: Andrews McNeel Publishing, LLC

X