Loading

ÞEGAR BARNIÐ MANNS FER Í GEGNUM GREININGU

Í þessu fyrsta bloggi mínu langar mig að segja frá þeirri reynslu og sjokki sem fylgir því þegar barnið manns greinist með einhver frávik.

Elsti sonur minn fæddist í desember 2000. Mjög hress og vakandi barn sem svaf ekki á daginn. Var mjög fljótur að hreyfa sig og allt líkamlegt langt á undan „norminu”. En hann talaði ekki og þegar hann fór í leikskóla um tveggja og hálfs árs gamall sagði hann sem minnst eða á við eins árs barn. Kunni bara þessi helstu orð og búið. Annars var bara bent og gargað.
Hann var mjög orkumikill og prílaði um allt og strauk af leikskólanum oftar en einu sinni bara af því hann gat það.
Þegar hann var þriggja ára var farið af stað með frumgreiningu og sálfræðiathugun. Ég var nú ekki sátt en jæja, betra að vita ef einhvað er.
Við tók mikið ferli, athugun í leikskóla, spurningarlistar og viðtöl. Hann var greindur með ADHD og sendur á greiningarstöðina og þaðan á BUGL.
Þegar þetta ferli var allt búið var niðurstaðan sú að hann væri ofvirkur með athyglisbrest, hvatvísi, mótþróaþrjóskuröskun, misþroska, langt á eftir í málskilning og tali og margt meira. Við foreldrarnir vorum eitt spurningamerki um hvað þetta allt væri og hvað gerðist nú.

Við tók sjokk og hugsanir um að ég hefði brugðist barninu. það væri allt ónýtt og nú væri ekkert hægt að gera í framtíðinni. Svo var farið að tala um lyf þá fékk ég nóg og vildi helst bara fara með barnið mitt uppá fjöll. Lyf skildi hann ekki fá.

Hann fór í talþjálfun, fékk sérkennslu í leikskólanum og matarræðið var tekið í gegn. Allskonar heilsuráð og óhefðbundnar lækningar voru reynd og skoðuð en ekkert virtist virka. Í raun vissum við ekki enn hvað allt þetta þýddi sem var að barninu. Barist var hvern dag við að halda honum rólegum og „gera hann eðlilegan,” og passa upp á að yngri bróður hans færi ekki sömu leið.

Þegar við loks settumst niður og fórum að fræðast um þetta og lesa þá kom margt okkur á óvart. Við vorum með snilling í höndunum sem átti eftir að finna sig.
Við þetta áttaði maðurinn minn sig á því að hann væri nú kanski ekki alveg í „lagi” heldur og fór til geðlæknis. Hann kom út aftur með lyfseðil og „stimpill” um að hann væri ADHD. Úff, nú varð ég smeyk enda þessi „stimpill” ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Þetta varð svo til þess að ég fór að læra meira og lesa um ADHD og lyfjagöf. Strákurinn byrjaði svo á lyfjum sumarið fyrir 1. bekk. Breytinginn á barninu var rosaleg. Á einni viku fór hann úr því að teikna krass með einum lit í að teikna hluti í mörgum litum og heilu listaverkin komu fram. Enn þann dag í dag teiknar hann listaverk langt fram úr annari getu. Skólinn var ekki góður í byrjun enda kunni hann ekki neina stafi gat ekki talið upp að fimm. Ég hafði því ekki mikla trú á þessu, en þar sem ég hafði samt séð svo mikla breytingu á manninum mínum til hins betra hélt ég í vonina.

Þegar hann fór í 2. bekk vorum við flutt á nýjan stað og hann byrjaði í nýjum skóla. Á mjög stuttum tíma fór hann að telja upp að tíu, skrifa nafnið sitt og eftir veturinn var hann farinn að reyna að lesa og reikna. Lyfjaskammturinn var kominn á rétt ról og allt gekk upp.

Með hverju árinu sem líður þá tekur hann stökk og í dag sé ég að það er ekkert að hræðast þó börnin eða þú fáir á þig þann „stimpil” að vera öðruvísi.
Á þessum tíma fór ég líka sjálf í gegnum greiningu og reyndist með ADHD. Yngri srákurinn hefur sloppið og sá yngsti of ungur enn.

Með þessari sögu okkar langaði mig að láta aðra foreldra vita að þau eru ekki ein um að vera í þessum sporum, þau eru ekki ein með þessar hugsanir og lífið er ekki búið þó barnið sé ekki „fullkomið” eftir bókinni. Það er fullkomið eins og það er.

Ég er enn að læra eitthvað nýtt á hverjum degi með son minn. Hver dagur er verkefni sem þarf að takast á við en það er fullkomlega þess virði.

Alveg frá upphafi fékk strákurinn að vita hvað var í gangi og hvað væri að.
Með tímanum höfum við lært að þetta er ekki eitthvað sem maður á að skammast sín fyrir heldur fagna.

Kv. Hrafnhildur Eva

X