Loading

ÞEGAR BRJÓSTAGJÖF FER FYRIR BRJÓSTIÐ Á FÓLKI

Mikið óksaplega fer í taugarnar á mér þessi tvískynungsháttur er kemur að brjóstagjöf. Nýkomin frá Bandaríkjunum verð ég að viðurkenna að það er ekki tekið út með sældinni að vera með barn á brjósti. Hvergi er að finna afdrep fyrir mjólkandi mæður, og í yfirfullum flugvélum sér maður þann kostinn vænstan að troðast inn á klósettið og gefa barninu sem er auðvitað bara ógeðslegt. Ekki myndi ég vilja borða þar inni í fýlunni en þarf að bjóða barninu upp á það.

Fæðuforði barnanna okkar hefur verið klámvæddur þannig að það þykir fátt dónalegra en að gefa brjóst. Ætlast er til að þú vefjir þig með þar til gerðum brjóstagjafatjaldi til að fela gjörninginn – til að misbjóða ekki fólkinu í kringum þig og vesalings barnið þarf að nærast í súrefnislausu rými.

Endalaust heyrir maður sögur af konum sem hafa verið reknar út af veitingastöðum, flugvélum og almenningsstöðum fyrir það eitt að misbjóða samborgurum sínum með brjóstunum á sér. Oftar en ekki er því haldið fram að það sé spillandi fyrir börn að verða vitni að athæfinu. Þetta er hræðilegt svo að ekki sé meira sagt. Löggjöfin er þó skýr og víða t.d. í Bandaríkjunum er viðaukar við löggjöfina til að íttreka rétt kvenna til að brynna börnum sínum þar sem þeim sýnist.

Hér á Íslandi er hins vegar sjálfkrafa gert ráð fyrir að þú sért með barnið á brjósti. Þú ert jú með brjóst og þau ber að nota! Brjóstamjólk er best í heimi og allt það. Maður er ekki einu sinni spurður. Konur sem eiga erfitt með að mjólka eða kæra sig ekki um það lenda í mestu vandræðum og kvarta undantekningalítið undan fáránlegum samfélagslegum þrýstingi þar sem þær eru nánast stimplaðar sem úrrhrök í samfélagi mæðra. Víða annarsstaðar í heiminum er þessu þveröfugt farið. Í Bandaríkjunum er það t.a.m. eðlileg spurning hvort þú ætlir að gefa brjóst eða ekki og brjóstagjöf á almannafæri er eitthvað sem hreinlega tíðkast ekki. Ég man allavega ekki eftir að hafa séð aðra konu gefa brjóst. Kannski mjólka þær sig áður en þær fara í verslunarleiðangra eða flug en þá þarf að hita mjólkina ekki satt og hvar gera þær það. Auk þess finnst mér skrítið að þurfa að gera slíkar málamiðlanir. Við erum jú spendýr ekki satt. Allavega – þá er ég bæði pirruð og hissa yfir þessu.

Í Bretlandi virðast yfirvöld þó vera að sjá ljósið. Þau eru semsagt búnir að átta sig á því þar að brjóstamjólkin sé mikilvæg undirstaða fyrir barnið og það sé gott fyrir breska æsku að fá sem besta undirstöðu því hún mun erfa landið. Breskar mæður séu líka umvörpum að velja þurrmjólk fram yfir brjóstamjólkina sem sé neikvæð þróun. Því eru yfirvöld að hrinda úr vör áttaki sem miðar að því að auðvelda mjólkandi mæðrum tilveruna með því að koma upp sérstökum gjafaherbergjum sem víðast.

Sjálfri finnst mér þetta frábær hugmynd. Ég er orðin hundleið á að vera eins og eitthvað úrrhrak í felum að gefa barninu mínu að drekka. Ég er líka svo sjúklega sjálfsmeðvituð eitthvað að mér finnst eins og allir hljóti að vera að glápa á mig og það vita allar mjólkandi konur að það er síst að hjálpa manni.

Svo er líka hægt að taka hinn pólinn í hæðina og vera bara fjandans sama um hvað öðru fólki finnst. Eins og ein vinkona mín sagði: Þóra, ekki láta neinn segja þér hvar eða hvenær þú mátt gefa barninu. Ég hef sko gefið brjóst í sjálfu Vatíkaninu og það í messu!

En er það ekki líka einmitt málið. Er Vatíkanið ekki hinn fullkomni staður til að gera það fallegasta sem til er. Að næra litla kraftaverkið sitt sem maður bjó sjálfur til í líkamanum á sér. Ég held að það sé fátt meira viðeigandi. Ég held að það sé kominn tími til að við minnum okkur á hinn sanna tilgang brjóstanna.

X