Loading

ÞEGAR FORELDRI GLÍMIR VIÐ AFLEIÐINGAR KYNFERÐISOFBELDIS Í ÆSKU

Það eru margir þættir i lífinu sem geta haft áhrif á hvernig manneskjur við verðum. Ofbeldi er einn þeirra þátta og virðast afleiðingar þess geta haft mikil áhrif á líf og líðan þolenda. Afleiðingum ofbeldis í æsku má skipta í skammtíma og langtíma afleiðingar. Skammtímaafleiðingar geta komið fram á meðan ofbeldinu stendur eða stuttu eftir það. Dæmi um slíkar afleiðingar eru martraðir, einbeitingarskortur og reiðiköst. Langtímaafleiðingar ofbeldis í æsku geta verið í formi ýmissa andlegra eða líkamlegra sjúkdóma. Til að mynda virðast þolendur kynferðisofbeldis í æsku líklegri til að nýta heilbrigðisþjónustu í meira mæli en aðrir og nota fleiri veikindadaga frá vinnu. Það skýrist mögulega af því að þolendur þessarar tegundar ofbeldis eru líklegri til að greinast með langvarandi kvíða, þunglyndi, átröskun, fíknisjúkdóma, svefnraskanir, astma, mígreni og gigt, ásamt fleiru.

Afleiðingar kynferðisofbeldis í æsku geta haft áhrif á marga þætti sem tengjast parasamböndum. Á meðgöngu líður kvenþolendum gjarnan ver en öðrum konum. Þær þjást frekar af ýmsum kvillum sem upp geta komið á þeim tíma og óttast fæðinguna meira. Þegar börnin eru komin í heiminn geta þolendur átt erfitt með að tengjast börnum sínum og sýna þeim oft á tíðum minni alúð og nánd en foreldrar sem ekki hafa orðið fyrir ofbeldi. Margir þolendur verða mjög hræddir um börnin sín, sérstaklega þegar börnin eru á þeim aldri sem foreldrarnir voru á þegar þeir voru beittir ofbeldi.

Parasambönd sem í eru einn eða tveir þolendur eiga til að vera stormasamari en önnur sambönd og þau eru líklegri til að enda með skilnaði. Erfiðleikar sem pörin takast á við geta meðal annars verið í formi samskiptaerfiðleika, skapofsakasta, raskana eða sjúkdóma sem þolandi tekst á við. Þá eru erfiðleikar með kynlíf vel þekkt afleiðing kynferðisofbeldis í æsku.

Hvað geta þolendur kynferðisofbeldis í æsku gert, ef þeir telja sig takast á við afleiðingar ofbeldisins í sínu persónulega lífi, parasambandi eða í umönnun barna sinna?

Fyrsta skrefið er að viðurkenna ofbeldið og þær afleiðingar sem það hefur haft á líf og líðan þolanda. Þolandi þarf að gera það sem hann getur til að sýna sjálfum sér umhyggju og samkennd. Þegar því hefur verið náð geta breytingar farið að eiga sér stað. Sumir ná að vinna að bata með stuðningi vina eða fjölskyldumeðlima. Aðrir leita sér meðferðar hjá grasrótarsamtökum (t.d. Stígamótum) eða hjá sjálfstætt starfandi meðferðaraðilum. Aðalatriðið er að þolandi fái skilning og stuðning meðan á bataferlinu stendur og að sá sem veitir stuðninginn hafi þekkingu og hæfni til að veita hann. Aðstandendur þolenda geta verið í erfiðri stöðu og margir hverjir hafa þörf fyrir stuðning og geta þeir í mörgum tilvikum leitað til sömu aðila og þolendurnir.

– – –

Rakel Rán er með meistaragráðu í fjölskyldumeðferð og starfar hún á meðferðarstofunni Shalom í Reykjavík. Þar býður hún upp á ráðgjöf og meðferð fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur. Rakel hefur sérhæft sig í meðferð við langtímaafleiðingum kynferðisofbeldis í æsku, sem og samskiptum við börn og umönnun þeirra.
Rakel Rán heldur úti fésbókarsíðunni Ást og umhyggja – fjölskyldustuðningur. Hægt er að hafa samband við Rakel með tölvupósti á netfangið rakelran@gmail.com

X