Loading

Þegar tannálfurinn klikkar

Þessi tannálfur er skrítinn skrambi en hann gleður börnin og það er víst fyrir öllu. Endrum og eins hefur hann þörf fyrir að senda frá sér skilaboð og þá eru góð ráð dýr. Sjálf prentaði ég einu sinni út frekar púkalegt bréf þar sem tannálfurinn hrósaði syni mínum sérstaklega fyrir hugrekkið sem hann sýndi hjá tannlækninum þegar draga þurfti úr honum framtennurnar sem sátu fastar.

Hann var engu að síður hæst ánægður með bréfið og geymir það vel. Því miður var ég staðin að verki á dögunum þegar ég gleymdi að greiða út tannféð og drengurinn lagði saman tvo og tvo. Skömmustuleg leit ég á hann og hann spurði mig hvort að ég væri tannálfurinn. „Já,” mjálmaði ég ámátlega og bað hann í lengstu lög að þegja. Systir hans ætti ennþá tvö góð ár af tannálfatrú eftir og ég vildi ekki spilla því. Þá kom minn maður og knúsaði mig, sagði svo ábúðarfullur „þetta er allt í lagi mamma mín. Þú ert búin að standa þig mjög vel sem tannálfur.”

Við rákumst hins vegar á mun metnaðarfyllri útgáfu af tannálfsbréfi en ég sendi forðum daga og deilum því hér. Þetta er alvöru gott fólk – eitthvað sem við getum tekið okkur til fyrirmyndar næst þegar tönn fellur.

Þóra

X