Loading

ÞEGAR ÞRÍR VERÐA EINN

Jæja…

Þannig er mál með vexti að ég á barn og þar af leiðandi eitt stykki barnsföður, og hafa þessi tveir menn lengi verið mínir uppáhalds menn. Ástandið hefur aðeins breyst, litli kallinn minn er ennþá og verður alltaf sólargeislinn í lífi mínu en barnsfaðirinn er farinn úr því að vera kærasti og sambýlingur minn yfir í bara barnsföður. Þessi gaur sem fær að hafa sólargeislann minn jafn mikið og ég. Sem þyðir að aðra hverja viku fer lilli til pabba sins og ég sit með tárin í augunum, ísboxið í fanginu, upp í sófa að horfa á grátbroslegar væmnar stelpumyndir. Alein.

Það er ólýsanlega erfitt að komast yfir eitthvern sem hefur verið hluti af þínu lifi í ákveðinn tima, orðinn jafnvel hluti af þér. Þú þekkir ekkert annað en þig og hann. Og svo þú, hann og lilli. Þetta þriggja manna teymi sem ætlaði að sigra heiminn og ekkert gat stövað yfirdrifnu orkuna og hamingjuna hjá þeim.
En BAMM einn daginn er þetta búið og hvernig sem þetta endaði, hvað sem gerðist þá er það alltaf erfitt. Maður þarf sinn tíma til að vera leið og reið, áttavilt og spyrjandi sjálfa sig hvað gerði ég? Var þetta mér að kenna? Honum? Okkur báðum líklegast.

Að ganga í gegnum skilnað er eins og ég segi alltaf erfitt. Þú saknar hans og hatar hann, vilt hann aftur, fyrirgefur honum, sérð eftir öllu sem þú hefur gert, gengur í gegnum allan pakkann og rússíbanareið af tilfinningum. Á endanum muntu komast yfir þetta og þetta mun verða auðveldara.

EN! Þegar lítið barn er í spilinu eru hlutirnir hinsvegar tvöfalt erfiðari og flóknari. Þú misstir ekki bara makann, þú misstir svo miklu miklu meira. Fjölskyldan sem þu áttir er allt í einu horfin, brotin. Og allt í einu byr mamma þarna og pabbi annarstaðar og auminginn skilur ekki neitt i neinu.
Þú situr á sófanum og gerir þer grein fyrir að þú misstir uppáhalds mennina þína. Annar kemur aldrei aftur en hinn fer alltaf frá þer aðra hverja viku.
Það er nógu erfitt að ganga i gegnum skilnað en þegar maður þarf mest á knúsum og kossum frá barninu sinu og það ekki til staðar, ÞAÐ er erfiðast. Þú ert alein.

Þó að ég treysti pabbanum 100% fyrir barninu að þá er þetta erfitt, að vera allt í einu alein þegar maður var buin að vera í þriggja manna teymi svo lengi.
Að þurfa að skipuleggja allt eftir mömmuvikum eða pabbavikum, passa að tannlæknatiminn sé í mömmuviku, afmælið hjá ömmu verður að vera haldið þessa helgi ekki næstu, hvernig verða jólin? Áramótin? Páskarnir? Fær hann tvær afmælisveislur og alltof mikið af paskaeggjum? Verður hann í þessum skola eða hinum, þurfum við sem sagt að búa nálægt hvort öðru, er það ekkert vandræðalegt? Að deila fatakostnaði, leikskólagjöldum og fleiru getur oft verið heilmikið mál og eitt risastórt vandamál útaf fyrir sig. Mikil rifrildi og togstreyta.

Þetta er pakki sem ekki allir eru tilbúnir í og þegar maður er hálfvængbrotin eftir skilnað og ringlaður er oft erfitt að þurfa að standa á eigin fótum og taka ákvarðanir og standa sig. En það bara kemur ekkert annað til greina, hvað sem gerist hvernig sem þetta er þá gengur barnið fyrir og foreldranir VERÐA að læra það að ýta gremjunni og reiðinni gagnvart hvort öðru til hliðar á meðan rætt er um leikskólamál og forræði.

Börn eiga skilið að fá að vera hjá mömmu og pabba ekki bara mömmu eða bara pabba og ég veit að aðstæður eru oft flóknar en ef allt er í sæmulegu standi og pabbinn treystir sér til að vera jafn mikið með barnið eins og mamman er það bara frábært. Þó að ég grenji í viku tvisvar í mánuði þá verð ég að hugsa, hann er hjá pabba sinum og hann kemur aftur!

Ég er búin að læra það að þó að það virðist hræðilegt að sjá hann ekki í heila viku að þá fæ ég nú líka heila viku með honum og við verðum bara að gera það besta úr henni. Njóta þess að vera saman, gera allt sem okkur langar að gera, heimsækja langömmur og frænkur, fara í sund og húsdýragarðinn, moka sand og baka vöfflur, knúsast og eiga okkar tíma. Því núna er hann númer 1, 2, og 3 hjá mér og svo kem ég sjálf, vinnan, vinirnir, áhugamálin og ef ég verð heppin eitthvern tíman í framtíðinni verða mennirnir í lífi mínu aftur tveir þegar ég finn einhvern þarna út í þessu stóra heimi sem tekur einstæðri mömmu.
En þessa daga nýt ég þess í botn að hafa prinsinn minn og hann er eini karlmaðurinn í mínu lífi og allt sem ég þarf og svo miklu miklu meira en það!

Bryndís Óðinsdóttir

X