Loading

„ÞETTA GERIST BARA SJÁLFKRAFA ÞVÍ ÉG ER EINKVERF”

Oft á tíðum hef ég velt því fyrir mér hvernig hugarheimur einstaklinga með einhverfu er. Einnig spyr ég sjálfa mig oft að því hve mikið álag það er fyrir eldri stelpurnar mínar tvær að yngsta systirin er eins og hún er – með einhverfu. Sumir dagar eru yndislegir, kærleiksríkir og góðir. En aðrir dagar eru erfiðari og sumir dagar mun erfiðari, án þess að hægt sé að lýsa því með góðu móti.

Það má segja að með ólíkindum er hvað eldri dæturnar eru duglegar að hjálpa mér með systur sína. En hér er lítil frásögn af því hvernig hlutirnir geta farið á skjön og úrskeiðis á örskömmum tíma – eða bara á augnabliki. Eitt kvöldið lenti þeim systrum saman og ég nýfarin til vinnu. Eitthvað var öðruvísi en venjulega og sú stutta missti, eins og svo oft áður, stjórn á skapi sínu með tilheyrandi látum. En þegar þetta gerist og hún áttar sig á ástandi sínu og sér hvað hún hefur gert, verður hún stundum alveg miður sín. Þá segjum við oft sem svo að nú sé hún búin að ná sér niður. Í þetta skiptið fór hún inn í herbergið sitt, fann sér blað og penna og skrifaði eftirfarandi til systur sinnar:

„Elsku Harpa firir gévðu hvað ég meiddi þig mikið ég vildi ekki géra þeta. Þeta gerist bara sjálfkrafa því ég er eikverf…. Ekki koma til mín og knúsa mig.“

Þetta er svo lýsandi fyrir þessa yndislegu skottu mína sem er aðeins sjö ára gömul. Hún skrifaði þetta og rétti svo systur sinni. Hún virðist eiga auðveldara með að skrifa hvernig henni líður og tjá þannig tilfinningar sínar en með orðum. Síðustu mánuðina hefur hún, í ört vaxandi mæli, notað þessa aðferð til tjáskipta. Hér er hún að biðjast fyrirgefningar á að hafa meitt systur sína. Hún lýsir því á sinn hátt hvernig og hvers vegna hún ræður ekki við aðstæðurnar og bætir því svo við að hún vilji ekki knús.

Heimur einhverfunnar er óútskýranlegur. Hegðun dóttur minnar er mjög aðstæðubundin hverju sinni. Við sumar aðstæður heldur hún sér „heilbrigðri“ en ekki við aðrar. Ég vildi óska að ég gæti komist inní hugarheim hennar og skilið betur það sem þar fer fram. Ég vildi svo gjarnan vita hvernig hlutirnir gerast í litla höfðinu hennar og hvers vegna mismunandi aðstæður virka svo ólíkt á hana. Ef ég gæti það, myndi ég örugglega skilja hana miklu betur. Þá gæti ég líka skilið betur hvers vegna hún virðist stundum sem „heilbrigð“, en eins og ummyndast svo við sum skilyrði.

Það var enginn sem sagði að lífið væri einfalt, hvað þá auðvelt. Vissulega getur það bæði virst og verið mjög flókið og allflest fáum við að glíma við eitthvað sem við eigum bágt með að skilja. Þannig er þetta líf, misflókið og miserfitt.

Elísabet

– –

Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X