Loading

Þú átt barnið svo taktu ábyrgð á því

Við rákumst á pistil eftir Helgu Dögg Sverridóttur inn á Vikudagur.is. Þar er verið að fjalla um grein eftir Anni Matthiesen, sem er þingmaður á danska þinginu. Verið er að fjalla um hver beri ábyrðina á börnunum og minna á það að það erum við foreldrar sem það gerum… ekki skólakerfið og ekki samfélagið. Greinin hefur vakið umdeild viðbrögð og bent er á að Anni Matthisesen sé sjálf umdeild. Sitt sýnist hverjum en þetta má samt ræða og þó að við séum flest að standa okkur vel þá eru þarna punktar sem maður má taka til athugunar. Munum að þó við séum ekki fullkomin þýðir ekki að við séum slæmir foreldrar.

Hér er brot úr greininni:

„Anni segir það hlutverk foreldra að aga barn sitt og kenna því að segja, takk, afsakið og bjóða góðan daginn. Það er líka hlutverk foreldra að kenna barni sínu heiðarleika, að ljúga ekki og stela, mæta á réttum tíma og bera virðingu fyrir öðrum. Að tala ekki með fullan munninn, henda ekki rusli á gólfið og úti í náttúrunni og segir Anni þetta nokkur dæmi, af mörgum, um það sem foreldrar eiga að kenna barni sínu og ganga eftir að þau fylgi þessum almennu reglum.

Sjálf get ég bætt við að foreldrar bera ábyrgð á námi barnsins þegar í grunnskólann er komið, hegðun, umgengni þess og framkomu við starfsfólk skóla og aðra nemendur. Allt eru þetta þættir sem foreldrar eiga að kenna barni sínu, það er ekki verkefni grunnskólakennara.

Allt það sem foreldrar vilja ná í hinu daglega lífi bitnar á barninu, fullt starf, yfirvinna, ræktin, fara út með vinum, kaupa inn, passa hús og garð, kanna tölvupóst, senda smáskilaboð, vera á snjáldursíðunni og allt annað sem fólk tekur sér fyrir hendur. Það er mikilvægara segir Anni að sleppa einhverjum af þessum þáttum í ákveðinn tíma og vera til staðar fyrir barnið.

Ég er nokkuð sannfærð um að samfélagsmiðlar taki mikinn tíma frá foreldrum rétt eins og hjá unglingum. Foreldrar eru fyrirmynd og börn gera það sem fyrir þeim er haft. Hugsið ykkur um áður en þið takið tækin framyfir barnið ykkar.

Mundu, þú átt barnið og því fylgir ábyrgð segir Anni. Og undir það má taka. Hvert barn upplifir æskuár einu sinni og því er mikilvægt að foreldrar haldi rétt á spilunum og séu til staðar fyrir barnið.”

Greinina má lesa í heild sinni HÉR og við mælum með þeirri lesningu.

X