Loading

ÞÚ ERT FEIT!

Það var ósköp venjulegur sunnudagur og ég og fjögurra ára gamall sonur minn brugðum okkur út í búð til að kaupa í matinn. Við stóðum við kassann þegar ég heyrði skyndilega að sonur minn var farinn að tala við konuna fyrir framan okkur. Ég pældi svo sem lítið í því fyrr en ég heyri hann tilkynna henni háum rómi að hún væri feit. Vesalings konan hló vandræðalega og ansaði þessu engu. Ég roðnaði niður í tær og brosti vandræðalega til konunnar á sama tíma og ég reyndi af öllum mætti að þagga niður í syni mínum sem skildi ekki hvað allir voru allt í einu skrítnir.

Ég hraðaði mér út úr búðinni og velti því fyrir mér hvernig maður tæklaði svona vandamál. Átti ég að skamma hann fyrir að segja konunni að hún væri feit og þar með troða inn í höfuðið á honum að það væri eitthvað athugavert við að vera feitur? Átti ég að láta eins og ekkert hefði í skorist? Við settumst út í bíl og ég sagði honum blíðum rómi að maður ætti nú ekki að segja við fólk að það væri feitt eða mjótt eða eitthvað. Þarna var ég eiginlega komin í þrot því að hvernig útskýrir maður fyrir fjögurra ára barni að það sé eitthvað athugavert við að benda á holdarfar, hárlit, húðlit eða þar fram eftir götunum. Og úr því við erum komin á þessar slóðir þá veltir maður því fyrir sér hvaðan fjögurra ára drengur fær þá flugu í kollinn að það þurfi að tilkynna fólki það eitthvað sérstaklega að það sé í góðum holdum.

Síðan þetta gerðist hef ég ítrekað reynt að ræða við hann um mannasiði og að maður ræði ekki útlit fólks við það. En þetta er erfitt. Hvernig á hann að skilja að það megi koma með ákveðnar athugasemdir en ekki aðrar – án þess að gefa til kynna að það sé eitthvað athugavert við að líta svoleiðis út? Mér finnst hann alltof ungur til að meðtaka þær hugmyndir samfélagsins að eitt útlit sé betra en annað. Sjálf er ég minnug þess þegar ég var lítil að það kom maður í heimsókn til okkar. Maðurinn var ístrumikill og ég spurði hann í hjartans sakleysi hvort hann ætti von á barni. Ég man ennþá svipinn á mömmu.

Um daginn vorum við síðan aftur stödd út í búð og þá tók hann það upp hjá sjálfum sér að tilkynna konu að hún væri gömul. Ég signdi mig í laumi og setti upp vandræðabrosið mitt góða. Konan brást vel við og ansaði þessu engu. Sjálf vissi ég eiginlega ekki hvernig ég ætti að bregðast við – og veit ekki enn.

Þóra

X