Loading

TÖFRAR KÓKOSOLÍUNNAR

Pistill eftir Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur, höfund bókarinnar Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?

Mig langar svo að segja ykkur að lífræn, kaldpressuð (unrefined) kókosolía er dásamlegt “krem” (body lotion) á húðina bæði fyrir stóra sem smáa. Ég nota sjálf aldrei neitt annað á mig og börnin mín, eftir bað, fyrir bað, ofan í bað:) og eftir sund. Ég treð henni í blautt hárið stundum (þegar það er orðið eins og hey:), þvæ það svo 30 mín eða nokkrum klukkutímum síðar – læt hana vera eins lengi og ég hef tíma til). Ég tek ennfremur málninguna af mér á kvöldin með bómul, volgu vatni og kókosolíu.

Kókosolía er náttúrulega bakteríu-, vírus- og sveppadrepandi sem dæmi. Þannig er líka gott að þvo litla rassa með klút/grisju, volgu vatni og kókosolíu. Öll lykt fer með olíunni og hún mýkir, hreinsar og nærir. En einnig má nota ólífuolíu og aðrar kaldhreinsaðar, óunnar (lífrænar) olíur.

Þumalfingursreglan er sú að allt sem maður má borða getur maður rólegur sett á húðina því húðin er okkar stærsta líffæri og allt sem við setjum á hana fer í líkamann, líffærin, blóðið osfrv. Ef þið byrjið að lesa innihaldslýsingar á snyrtivörum þá komið þið líklega til með að sjá allskonar orð sem þið botnið ekkert í (oft mjööög löng = pínu grunsó). Ég sérstaklega forðast paraben efni (rotvarnarefni sem eru sögð hormónatruflandi). (Ég kaupi krem fyrir mig úr heilsubúðum en les alltaf innihaldslýsingar. Ég reyni að hafa kremin mín eins hrein og hægt er þó ég eigi reyndar krem sem mig langar ekki beint að borða!:)

Kókosolía inniheldur smá sólarvörn (kannski ekki til að liggja á Mallorca í marga klukkutíma á ströndinni í júlí:). En mér finnst hún duga hér vel á sólardögum þegar maður er úti bara einn og einn klukkutíma í einu. Talað er um að það sé ákaflega mikilvægt að húðin fái á sig sólargeislana í um 15-30 mínútur áður en við berum á okkur sólarvarnir til að hún geti myndað D-vítamín. Enn önnur ástæða til að láta börn leika sér úti. Þess vegna þurfum við að taka D-vítamínið inn sérstaklega þessa mánuði sem varla sést til sólar, eða við erum ekki neitt í sól.

Eins og fram kemur í bókinni, Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? þá er algjör óþarfi að nota sápu á börn (og okkur upp að vissu marki:) Ég set í baðið hjá börnunum mínum sjávarsalt (sem er náttúrulega sótthreinsandi) kannski um 1 msk og út í það nokkra dropa af lavender ilmkjarnaolíu (sveppa-, vírus- og bakteríudrepandi en ennfremur róandi!) og skelli svo saltinu í baðið. Ég setti lengi vel kókosolíu líka en núna eru börnin mín orðin svo stór að hárið á þeim verður eilítið kleprað af olíubaði:) svo ég sleppi því, set frekar á þau smá er þau koma upp úr.

Og að lokum segir David Wolfe þetta í bók sinni Superfoods:

Take a teaspoon of coconut oil and apply it to your (or your child’s) gums and teeth to kill germs in the mouth and help normalize oral PH. Coconut oil can help protect your teeth. Coconut oil contribues to healthy biofilms in the mouth.

Einnig segir hann að hún sé góð í svefnherbergið:):)

Svo af þessu má sjá að hægt er að nota kókosolíu í hinum ýmsa tilgangi.

Eigið góða daga.

Mínar bestu heilsugleðikveðjur,
Ebba xx

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er kennari að mennt en hefur undanfarin ár helgað sig næringu ungbarna og hollari lífsháttum allrar fjölskyldunnar. Hún gaf út bókina Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? sem hefur reynst íslenskum foreldurm ómetanlegur fjársjóður í leitinni að hollari lífsháttum. Ebba heldur úti vefsíðunni pureebba.com þar sem hægt er að finna myndbönd og girnilegar uppskriftir.

X