Loading

TÖLVULEIKJANOTKUN BARNA

Aðsend grein eftir Helgu Karólínu Símonardóttur:

Hvað er barnið þitt að gera inní herbergi? Hvað er barnið þitt að gera inni í herbergi vina sinna?
Með þessari grein hef ég hug á að vekja áhuga foreldra á því hvað börnin þeirra eru að gera.

Það hafa komið reglulega upp umræður í samfélaginu um skaðsemi ofbeldisleikja og ofbeldismynda, tökum sem dæmi tvö morð sem framin voru á seinustu tveim árum, eitt á Íslandi og fjöldamorð í Noregi. Bæði morðin voru mjög alvarleg og var rætt um það bæði fyrir dómi yfir sakborningum og í fjölmiðlum hvort og hvernig tölvuleikir hefðu áhrif á atburðina. Meðal annars var sagt frá því í fréttum að í Noregi hefðu verslanir ákveðið að taka tvo tölvuleiki úr sölu, vegna hugsanlegra tengsla þessa tölvuleikja við morðin í Útey. Auðvitað er ekki hægt að sanna það staðfastlega að atburðarrás og hugarástand sakborninganna sé hægt að tengja við ofbeldisfulla tölvuleiki en leikirnir gætu mögulega haft áhrif.

Mér persónulega finnst alltof algengt að börn séu að spila grófa ofbeldisleiki sem eru bannaðir þeirra aldursflokkum. Nýverið var ég stödd í skóla á höfuðborgarsvæðinu og spjallaði þar við nokkra 12 ára drengi, meiri hluti drengjanna spiluðu COD eða Call of Duty, World at War og Black Ops, WOW og þessháttar leiki. Wow er bannaður innan 12 ára og COD er bannaður innan 18 ára. Hvernig er það, gera foreldrar sér grein fyrir því hvað stendur að baki þessum takmörkunum?
Þessi grein er ekki til þess að skjóta foreldra niður í þeirra eigin uppeldi, enda finnst mér það ekki mitt að segja þeim hvað þau eiga leyfa og banna börnunum sínum EN það er mitt að segja hvað er leyft og bannað börnunum mínum. Því biðla ég til allra foreldra, ekki aðeins þeirra sem tengjast börnunum mínum á einn eða annan hátt, um að leyfa ekki öðrum börnum að spila bannaða leiki eða horfa á bannaðar myndir heima hjá þeim, því við höfum ekki heimild til þess að taka ákvarðanir fyrir hönd annarra foreldra. Samkvæmt 2. gr. Laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum segir skýrt að „Bannað er að sýna börnum undir lögræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og -tölvuleiki, sem og kvikmyndir eða tölvuleiki sem ógna velferð þeirra“. Ég stóð í þeirri meiningu að börnin mín fengju ekki tækifæri á að horfa á eða spila ofbeldisfulla leiki heima hjá öðrum, á þessu heimili er þetta bannað og börnin vita það. Á ég ekki að geta treyst á það að börnin fá ekki færi á að nálgast efni sem er bannað þeirra aldursflokk heima hjá vinum?
Ég hef spurt foreldra útí þetta, flestir foreldrar virðast átta sig á því að á sumum heimilum eru ofbeldisfullir leikir leyfðir, þó þeir séu bannaðir ákveðnum aldurshópum. Það virðist ríkja hljóðlátt samkomulag um að ræða þessi mál ekki. En er það rétt? Það kemur fram í 94. gr. Barnaverndarlaga að „Þeim ber jafnframt, eftir því sem í þeirra valdi er, að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni eða öðru slíku efni, m.a. með því að koma í veg fyrir aðgang þeirra að því.“.
Fyrst og fremst eigum við foreldrarnir að vita hvaða áhrif ofbeldisfullt efni í myndmiðlum hefur á börnin okkar. Að auki eigum við að hafa skilning á því hvers vegna það eru aldurstakmörk á leikjunum okkar.
En hver er ástæðan? Hvaða áhrif hafa ofbeldisfullir leikir og ofbeldisfullar myndir á börn?

Tekið af persona.is:
Rannsóknin sem leidd var af Dr. Vincent Matthews sýnir í fyrsta sinn á óyggjandi hátt að tölvuleikjanotkun hefur áhrif á heilastarfsemi. Í nýlegu viðtali segir hann að rannsóknin hafi sýnt, að við spilun ofbeldisfullra tölvuleikja örvist heilasvæðið sem tengist tilfinningaörvun á meðan virkni svæða sem tengjast sjálfsstjórn minnkar.

Fleiri rannsóknir hafa meðal annars sýnt fram á það að ofbeldisfullt myndefni getur haft áhrif á skapgerð barna, börn verða æstari og örari. Miklar líkur á því að börn verði ónæmari fyrir ofbeldi eftir langvarandi áhorf á ofbeldi í kvikmyndum eða tölvuleikjum. Einnig hefur verið sýnt fram á að 8-9 ára börn eru móttækilegust fyrir áhrifum frá ofbeldisefni og það geti fylgt þeim til framtíðar.

Hvað getum við foreldrar gert? Jú við getum byrjað á því að ræða opinskátt um skaðsemi ofbeldisefnis í myndmiðlum. Setja sameiginleg markmið í átt að betri æsku.
Foreldrar geta skoðað tölvuleikina sem börnin þeirra eru að leika sér í. Kynna sér aldurstakmörk á tölvuleikjum barnanna og hversvegna þessi aldurstakmörk eru. Hægt er að fara inná Youtube.com skrifa þar nafnið á leiknum og gameplay, þar er hægt að horfa á það hvernig leikurinn er uppsettur, og hvað barnið sér þegar það er að spila leikinn. Hægt er að setja lása eða síur á internet heimilisins þannig að börnin geti ekki nálgast efni sem er ekki leyfilegt. Verum fyrst og fremst meðvituð um það sem börnin okkar eru að gera. Hvaða leiki þau eru að spila og hvers konar sjónvarpsefni þau eru að horfa á. Ef við ákveðum að leyfa barninu okkar að horfa á myndefni sem er bannað eða spila leik sem er bannaður þeirra aldursflokk þá skulum við aldrei áætla svo að börn annarra hafi þá sömu heimild. Við þekkjum börnin okkar best og höfum stjórn á uppeldi okkar barna en við höfum ekki heimild til þess að ákvarða hvað önnur börn eru tilbúin að gera og hvað þau mega.

Áhugaverðar síður fyrir foreldra til að skoða:
http://www.pegi.info/is/
http://www.pegi.info/is/index/id/1228/media/pdf/354.pdf þetta er listinn sem notaður er við flokkun leikja
http://www.pegi.info/en/index/id/media/pdf/241.pdf
http://kvikmyndaskodun.is/Home/Info
http://barn.is/barn/adalsida/malaflokkar/tolvur_og_gsm/

X