Loading

Tulipop opnar skrifstofu í New York

Við gleðjumst alltaf sannarlega þegar íslenskt hugverk blómstrar og hvað þá þegar það fær byr undir báða vængi erlendis. Ævintýraheimur Tulipop er í miklu uppáhaldi og nú hefur fyrirtækið sett á markað nýja vörulínu í samstarfi við bandaríska leikfangaframleiðandann Toynami. Um er að ræða Tulipop bangsa, sparibauk og litlar vínyl fígúrur sem koma í svokallaðri happaöskju.

Fjóra helstu íbúa Tulipop eyjunnar, sem Íslendingar eru farnir að þekkja vel, verður nú hægt að fá sem bangsa, þ.e. hugljúfa sveppastrákinn Bubble, hugrökku sveppastelpuna Gloomy, prímadonnuna Miss Maddy og skógarskrímslið Fred. Í boði verða bæði stórir og litlir bangsar og er þetta vara sem Tulipop aðdáendur hafa lengi beðið eftir

Íbúar Tulipop eyjunnar verða einnig fáanlegir sem litlar „vinyl” figúrur. Fígúrurnar koma í svkölluðum happaöskjum en slíkar öskjur eru mjög vinsælar í Bandaríkjunum. Ekki er gefið upp hvaða karakter er í öskjunni hverju sinni og því kemur á óvart hvað leynist í henni!

Einn vinsælasta karakter Tulipop eyjunnar, vinalega skógarskrímslið Fred, verður einnig hægt að fá sem sparibauk.

Nýja vörulínan er liður í markaðssókn Tulipop í Bandaríkjunum en fyrirtækið hefur samið við bandaríska leikfangaframleiðandinn Toynami um rétt til afnota á hönnun Tulipop ævintýraheimsins. Í byrjun febrúar fara vörurnar í sölu í um 100 verslunum í Bandaríkjunum. Þá mun Tulipop opna skrifstofu í New York í byrjun febrúar og fylgja vörulínunni eftir með öðrum vörum Tulipop.

„Vörulínan hefur verið lengi í þróun og það var frábært að fá reyndan leikfangaframleiðanda með okkur í lið. Við erum afar ánægðar með útkomuna og vonumst til að hún gleðji alla Tulipop aðdáendur,”

segir Signý Kolbeinsdóttir, yfirhönnuður Tulipop.

Nýju vörurnar verða til sölu hjá öllum helstu söluaðilum Tulipop á Íslandi, m.a. Epal, Hrím, Dúka, Eymundsson, og í vefverslun Tulipop.

X