Loading

TVÖFÖLD ATHYGLI

Eldra barnið mitt er 5 ára þegar það yngra kom heiminn. Hann hafði fengið einn mína athygli í öll þau ár og ekkert þurft að hugsa út í það að deila tíma sínum með mér.

Á meðan ég gekk með yngra barnið þá hugsaði ég oft út í það hvernig þetta yrði þegar hún væri komin í heiminn, ég þá orðin tveggja barna mamma og þyrfti að veita þeim báðum alla mína athygli og tíma.Ég bjóst aldrei við að það gæti verið svona erfitt því að jú ekki vill maður gera upp á milli barnanna sinna. Þar sem að það eru 5 ár á milli þeirra og þau eru strákur og stelpa þá þurfa þau athygli og tíma á mjög svo ólíkan hátt.

Fyrst um sinn var þetta rosalega erfitt og erfiðast var öll neikvæða athyglin sem strákurinn minn sóttist eftir. Hann var ofsalega ljúfur við litlu systur sína, og er ennþá, en þegar kom að mér þá fannst mér það eins og það eina sem hann vildi væri að ég yrði reið við sig. Þetta var að sjálfsögðu rosalega erfitt og mjög stutt í tárin því að mér leið auðvitað illa yfir því að geta ekki bara átt góðan tíma með honum í rólegheitunum.
Þær sem eiga tvö börn eða fleiri kannst nú vel við það að vera með yngra barnið á handleggnum grátandi,svangt og þurfa að fá að drekka, á meðan það eldra kallar í mann og vill sýna manni eitthvað.

Ég hef lent í því að stelpan mín taki grátaríur og stóri bróðir með miklar áhyggjur af því hvað væri að hjá litlu systur, að þurfa að svara „afhverju?” spurningum og hugga á sama tíma getur verið frekar erfitt.
Það hefur komið fyrir að ég sé ein heima með þau og allt ómögulegt hjá þessari yngri, strákurinn að bíða eftir að ég komi og spili við sig en af því að ég kemst ekki alveg strax að leika þá labbar hann á eftir mér með spurningarflóðið, og á meðan þetta allt er að gerast þá langar mér stundum að hlaupa út fyrir og fá að öskra aðeins upp í vindinn.

Þetta getur verið gífurlega erfitt þar sem að mig langar alltaf að gera þeim báðum til geðs. Ofan á það fæ ég oft rosalegt samviskubit á kvöldin þegar ég er búin að koma þeim báðum niður, að hafa ekki getað gert meira en ég gerði. Þá vakna upp ýmsar spurningar í hausnum á mér, hefði ég frekar átt að gera þetta eða hitt? hvort er betra að gera þetta svona eða hinsegin?

Já það er ekki auðvelt að sjá um fjölskyldu og heimili. Það kreftst gífurlegs skipulags og þolinmæði, sem er ekki eitthvað sem ég hef en er að reyna að vinna upp í mér. Stundum þarf ég bara að anda djúpt, telja upp að tíu og síðan byrja bara upp á nýtt. Það sem skiptir mestu máli er að láta ekki minn pirring eða óþolinmæði bitna á börnunum.
Ég get alveg sagt að ég líti mjög upp til þeirra sem eiga fleiri en tvö börn. Það bara getur ekki verið auðvelt.

Að vera foreldri er það yndislegasta sem til er, að sjá börnin sín stækka og þroskast er eitthvað sem ég myndi ekki skipta út fyrir neitt, og ef ég þarf að reyna betur eins erfitt og það getur verið þá geri ég það.

Núna eftir 3 mánuði sem tveggja barna mamma finn ég að þetta er alltaf að verða auðveldara, þó að auðvitað komi upp dagar þar sem að ekkert er að ganga upp hjá mér og allt á öðrum endanum, þá er ég farin að læra inn á það hvernig ég get tæklað tímann með báðum börnunum mínum í einu.

– – –
Ég heiti Ása B Morthens og er þrítug mamma. Ég vinn í bókhaldi og er sem stendur í fæðingarorlofi með yngra barnið mitt. Börnin mín tvö, strákur fæddur í maí 2006 og lítil stelpa fædd í október 2011, eru æðibitarnir mínir. Síðan eru líka á heimilinu hundur og tveir kettir þannig að heimilislífið er ansi fjörugt.

Þegar maður gengur í gegnum allt þetta ferli að vera ófrískur og eiga barn verður maður svo skemmtilega ruglaður og stundum pælir maður um of í hlutunum.
Með blogginu mínu langar mig bara aðeins að rasa úr með sögum og pælingum sem tengist móðurhlutverkinu og uppeldinu.

X