Loading

ULL OG SILKI

Pistill eftir Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur, höfund bókarinnar Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?

Kæru vinir.

Mig langaði að segja ykkur sem ekki vitið að silki & ull eru dásamleg efni. Ég hef notað silki- og ullarnærföt sem og húfur á börnin mín frá því þau fæddust og geri enn með góðum árangri (eru 5 og 8 ára:). Sonur minn, sem er afar heitfengur, er þrátt fyrir það nær alltaf í ullar- og silkinærbol (blöndu). Hér fyrir neðan sjáið þið af hverju.

Um silki og silkihúfur fyrir ungabörn & börn:

Silkihúfa verndar opin höfuðmót ungabarnsins og veitir barninu vernd fyrir stöðugu hljóðáreiti umhverfisins sem getur angrað viðkvæma heyrn þess. Mjúkt yfirborð silkihúfunnar nuddar höfuð barnsins og getur gefið barninu öryggiskennd og róað það. Höfuð barnsins er stórt hlutfallslega í samanburði við líkama þess sem þýðir að hitatapið sem verður um höfuðið er mikið en með höfuðið klætt í skilkihúfu heldur barnið jöfnu hitastigi. Barnið getur verið með silkihúfuna allan sólarhringinn þar sem eiginleikar silkis eru þeir að í kulda vermir það en í hita virkar það kælandi. Mikilvægt er að velja alltaf rétta stærð en ef húfan er of stór er hægt að hnýta hnút efst á kollinum með silkiborða.

Silki inniheldur nærandi sericin sem dregur úr ertingu í húð. Silki er svipað mannshúð og er þess vegna af mörgum sagt vera eins og önnur húð. Silki er ákaflega hlýtt efni næstum sambærilegt við ull og fimm sinnum hlýrra en bómull. Silkiþræðir varðveita nægt loft til þess að virka sem hitaeinangrun en þökk sé fínna og léttra þráða silkisins virkar það kaldara en ull og er þess vegna einnig frábært í heitu veðri (virkar kælandi!).

Hvað varðar ullina:

Lofthiti á Íslandi er oftast lágur og á veturna fer hann oft undir frostmark. Þegar þannig viðrar förum við að klæðast peysum og öðrum skjólfatnaði. Þegar við svitnum við leik og árenslu eru bómullarnærföt mjög óheppilegur nærklæðnaður vegna þess að bómullin tekur í sig rakann frá líkamanum og nærfötin verða rök og jafnvel blaut. Rakinn í nærfötunum leiðir þá hitann frá líkamanum og kuldann að honum og getur það leitt til ofkælingar (hrollur og manni verður kalt). Þeim mun meira sem barn er dúðað því meiri raki myndast í bómullarnærfötunum. Raki í bómullarnærfötum eykur á myndun sveppa og bakteríugróðurs á húðinni. Rakinn við húðina dregur úr súrefnisflæðinu þannig að hún getur ekki varið sig. Súrefnissvelt húð getur til dæmis fengi á sig roða eða hrúður sem sveppir eða bakteríur valda. Þessi einkenni hverfa þó fljótlega ef ullarnærföt eru notuð. Talið er að bakteríur sem valda eyrnasjúkdómum hafi meiri möguleika á að valda barninu skaða ef bómullarhúfur eru notaðar. Silki- eða ullarhúfur, sem eru næst höfðinu, eru vænlegri kostur. Ullarnærföt afa þveröfug áhrif því að rakinn frá límamanum fer ekki inn í ullarþráðinn eins og hann gerir við bómullarþráðinn, heldur gufar hann upp út um flíkina með hjálp hitaútstreymisins frá líkamanum. Þegar valin er ull í nærföt skiptir það miklu máli hvaða ull er valin, því grófleiki ullar er mismunandi eftir tegund kindarinnar. Því fíngerðari sem hún er því mýkri er hún. Merinóull af merinósauðfé er besta ull sem völ er á og skiptir miklu máli að hún hafi fengið lífræna meðferð frá a-ö. Einnig að hún sé ávallt þvegin með lífrænni sápu. Merinóullin er mjúk og gælir við hörundið og þótt ótrúlegt sé þá eykst einangrun hennar ef hún blotnar (eða verður rök) og eykur það öryggið þegar börn eru lengi úti eða fullorðnir eru á löngum og erfiðum ferðalögum. Vond líkamslykt situr heldur ekki í merinóull, enda fær húðin nægilegt súrefni og getur því betur varið sig gegn sveppum og bakteríum.

Sumir hafa ofnæmi fyrir ull en þá er hægt að nota 100 % silkinærföt. Silkið er jafnvel enn bakteríu- og sveppafælnara en ullin.

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er kennari að mennt en hefur undanfarin ár helgað sig næringu ungbarna og hollari lífsháttum allrar fjölskyldunnar. Hún gaf út bókina Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? sem hefur reynst íslenskum foreldurm ómetanlegur fjársjóður í leitinni að hollari lífsháttum. Ebba heldur úti vefsíðunni pureebba.com þar sem hægt er að finna myndbönd og girnilegar uppskriftir.

X