Loading

UMHVERFISVOTTAÐAR HÁRVÖRUR: HENTA ÓFRÍSKUM KONUM VEL

Margar ófrískar konur eru uggandi við að stíga fæti inn á hárgreiðslustofur á meðgöngunni, að minnsta kosti í þeim tilgangi að lita hárið. Nú hefur hárgreiðslustofan Feima, með Rán Reynisdóttur í fararbroddi, riðið á vaðið og breytt stofunni þannig að hún telst nú umhverfisvæn. Í ofanálag hefur hún tekið í sölu sérstakar Svans-vottaðar hárvörur sem innihalda engin skaðleg efni.

„Ég ákvað að fara að flytja inn vörurnar þar sem ég hef breytt stofunni minni samkvæmt dönsku systemi sem kallast Grön Salon. Í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er hægt að fá vottun fyrir Grön Salon og vonandi verður bráðum farið að votta íslenskar stofur. Þessar stofur er umhverfis- og mannvænar ef svo má segja. Þar eru nokkur algeng efni í hársnyrtivörum bönnuð sem hafa ýmis konar óæskileg áhrif. Svo sem þau efni sem valda hvað mestu ofnæmi hvort sem er af háralitum eða sjampóum. Paraben eru kannski efnin sem hvað flestir þekkja nafnið á. Það þarf að uppfyllan nokkur atriði hvað þetta varðar sem og umhverfisvernd,” segir Rán en hugmyndin er fengin frá Anne-Sophie Villumsen, eiganda hárgreiðslustofunnar Zenz í Danmörku, sem er frumkvöðull í grænni hárgreiðslu þar í landi.

„Anne-Sophie á stærstu keðju af grænum stofum í Danmörku og hefur í fjölda ára unnið af mikilli hugsjón í þessum málum. Ég fór í heimsókn á eina stofunna hennar í haust og það var mér mikill innblástur.”

„Mér fannst vanta Svansmerktar hársnyrtivörur á Íslandi. Svanurinn er mjög virt umhverfismerki og þar eru gerðar miklar kröfur um lágmörkun á umhverfisáhrifum og að tryggja að vörurnar séu betri fyrir heilsu og umhverfi. Ég hafði samband við Zenz þar sem vörurnar þeirra uppfylla þessar kröfur án þess að gæðunum sé fórnað. “
Rán segir að sérstaklega sé tekið fram að vörurnar henti börnum og ófrískum konum þó hún sé alls ekki að mæla með því að sjampó sé notað á mjög lítil börn. „Ástæðan er bæði sú að við framleiðsluna er fylgt þeim sterku kröfum sem gerðar eru til framleiðslu á Svansmerktum vörum hvað varðar hollustuhætti þannig að þær innihalda ekki paraben eða önnur óæskileg efni.
Annars er almennt talað um að notkun á Svansmerktum snyrtivörum dragi úr losun á mengandi- og heilsuskaðlegum efnum út í umhverfið, vörurnar notist við efni sem brotna auðveldlega niður í náttúrunni, þær eru öruggar og gæðaprófaðar og búið er að lágmarka umhverfisáhrif af umbúðum varanna.”

„Svo erum við einnig með línu sem kallast Pure hjá Zenz, þær vörur innihalda engin ilmefni eða ilmkjarnaolíur. Það er talað um að sú lína henti þunguðum konum, börnum og þeim sem eru með ofnæmi fyrir ilmefnum og viðkvæmir í hársverði. Þar sem þungaðar konur og börn geta verið viðkvæmari fyrir ofnæmisvöldum. Þær vörur sem hafa ilm innihalda ilmkjarnaolíur en ekki þau 26 ilmefni sem eru helst ofnæmisvaldandi,” segir Rán að lokum.

X