Loading

Upplifðir þú erfiða fæðingu?

Það er svo að segja alveg sama hve gamlar konur eru og hve langt síðan það er sem þær áttu barn, þær eru fljótar að kalla fram fæðingarreynslu sína. Fæðing er líklega ein stærsta stund í lífi konu og hvort upplifunin hafi verið góð eða ekki dvelur oft lengi með okkur.

 • Við munum hverjir voru viðstaddir, hvernig þeir komu fram við okkur, hvað var gert og hvað ekki, hvort við upplifðum okkur við stjórnvölinn, kraftmiklar eða ekki. Stundum munum við svo ekkert frá fæðingunni.
 • Fæðingarreynslan mótar okkur og þegar hún er ekki eins og við kjósum getur það haft áhrif á okkur og þá sérstaklega næstu fæðingar.
 • Hvað gerir fæðingarreynslu góða eða erfiða er ekki skrifað á pappíra eða í mæðraskýrslur eða vottað góð fæðing / erfið fæðing.
 • Fæðingarreynslan er okkar upplifun. Það sem ein kona upplifir sem draumafæðingu getur önnur upplifað sem fæðingarhrylling.

 

Birth trauma is in the eye of the beholder
-Cheryl Beck

Erfiðar fæðingar sem sitja í konum eru oft:

 • inngripafæðingar eða fæðingar þar sem verkjastilling gekk ekki
 • langar fæðingar og sársaukafullar
 • ótti um líf barns
 • fyrirburi eða léttburi
 • andvana fæðing
 • keisarafæðing
 • Fæðing í kjölfar veikinda t.d. meðgöngusykursýki eða meðgöngueitrunar
 • Starfsfólk vinnur ekki með konu, veitir t.d. ekki nægilegar upplýsingar, hlustar ekki á óskir hennar eða er ókurteist og óvarfærið
 • Skortur á stuðningi frá maka og fæðingarfélögum

Erfið fæðingarreynsla getur líka stafað af fyrri reynslu t.d. ef kona hefur upplifað kynferðisofbeldi. Upplifun kvenna á að hafa ekki staðið sig sem skyldi situr einnig oft í konum, þeim finnst eins og þær hafi brugðist, ekki gert nóg eða hafa getað komið í veg fyrir hvernig fór.

Konur sem hafa upplifað erfiða fæðingu bera þess oft merki í skemmri eða lengri tíma. Margar konur sem hafa upplifað erfiða fæðingu upplifa áfallastreituröskun svona rétt eins og viðkomandi hafi lent í bílslysi eða öðru áfalli.

Margar konur sem hafa upplifað erfiða fæðingu finna svo fyrir deyfð eða depurð og/eða þunglyndi í kjölfar fæðingar.

Meðal einkenna eru:

 • depurð í lengri tíma
 • óvenju mikill pirringur og smáatriði angra mann
 • ofsahræðsluköst
 • einbeitingarskortur
 • minnkuð virkni
 • áhugaleysi gagnvart sjálfum sér, maka og barni
 • Sektarkennd, höfnunartilfinning og/eða upplifa sig ekki nóg
 • Það þyrmir yfir mann
 • tilfinning um að kona geti ekki ráðið við aðstæður
 • svefnörðuleikar, of lítill svefn eða sífelld þörf til að sofa
 • líkamleg einkenni spennu svo sem höfuðverkir, magaverki og sjóntruflanir

Það kemur mörgum konum á óvart að fæðingartrauma er þekkt áfallastreituröskun með skilgreindum atriðum fyrir erfiða fæðingarreynslu. Það að upplifa erfiða fæðingu og vera eftir sig eftir hana er ekki merki um aumingjaskap eða að kona hafi geta staðið sig betur eða hefði hefði hefði…. heldur ósköp eðlileg varnarviðbrögð líkama og sálar við erfiðum aðstæðum, rétt eins og kona myndi bregðast við ef hún lenti í öðru áfalli.

Það tekur konur mislangan tíma að vinna sig frá sinni reynslu, sumir eru mörg ár að takast á við að sætta sig við upplifunina. Fyrsta skrefið í að vinna sig frá erfiðri fæðingarreynslu er að horfast í augu við að reynslan angri mann, sjá hvaða atriði gera það og vinna sig frá því skref fyrir skref.

– – –

Soffía Bæringsdóttir veitir stuðning, ráðgjöf og þjónustu við fjölskyldur í fæðingarferlinu, auk þess sem hún býður upp á doulufylgd. Soffía hefur starfað sem doula frá árinu 2008 og verið viðstödd yfir fimmtíu fæðingar og liðsinnt yfir 100 pörum við fæðingarundirbúning þeirra.

Soffía heldur námskeið fyrir verðandi foreldra og fagnámskeið. Að sinni er hún með námskeið til að hjálpa konum að vinna úr erfiðri fæðingarreynslu og svo praktískt fæðingarnámskeið þar sem farið er yfir praktísk atriði í fæðingu, nudd, stöður og stellingar og slökun.

Að auki er Soffía með aðstöðu fyrir vörur úr vefverslun sinni í Lygnu fjölskyldumiðstöð m.a. bækur og burðarpoka. Nálgast má heimasíðuna hennar hér.

Hægt er að ná í Soffíu með því að senda póst á soffia@hondihond.is eða hringja í í síma 862-4804.

X