Loading

Úr afreksíþrótt í móðurhlutverkið

Ég var nýbúin að keppa á Norðurlandamóti í hópfimleikum sem haldið var í Noregi í lok árs 2011 þar sem liðið mitt lenti í 3.sæti og urðu Evrópumeistarar í dansi. Ég var staðráðin í að verða betri og tilbúin að leggja allt undir. Ég ákvað að fresta BS ritgerðarskrifunum þar til um sumarið svo ég gæti einbeitt mér að íþróttinni og orðið betri.

En þá kom sjokkið. Ég var búin að vera óvenju þreytt, hélt það væri langþreyta eftir að hafa æft mikið, verið í 6 fögum í háskólanum og tveimur störfum allt á sama tíma. Ég hélt að líkaminn væri að vinna upp orku. Eftir mánuð af þreytu ákvað ég að pissa á prikið sem sýndi greinilega tvö strik. Ég átti von á barni. Tilfinningin var margþrungin, ofboðslega glöð yfir því að ég ætti von á litlu barni en einnig hræðsla yfir því að ég væri of ung og ætti eftir að gera svo margt áður en ég tæki móðurhlutverkið að mér. Ég þurfti að sætta mig við það að leggja fimleikabolinn á hilluna, að minnsta kosti um tíma.

Í fyrsta skipti í mörg ár mætti ég ekki á fimleikaæfingu. Íþróttin sem hafði verið hluti af daglegu lífi mínu í 17 ár, ég hafði æft 4-6 sinnum í viku 2,5-3 tíma í senn í fleiri ár. Þetta var þvílík breyting og ekki leið á löngu þar til ég fann fyrir miklum söknuði yfir því að geta ekki farið í heljarstökk og hoppað og skoppað. Það var ekki bara hreyfingin heldur hópurinn sem ég hafði tilheyrt, að hitta allar stelpurnar á nánast hverjum degi. En ég varð að einbeita mér að því að hugsa vel um mig, vera heilbrigð og hvíla mig fyrir litla barnið sem stækkaði inni í mér. Ég fór að fara í ræktina en fann ekki gleðina í því. Hugsunin var „til hvers er ég að þessu? Ég er ekkert að komast í form, aðeins að stækka og fitna með barninu“. Ég ákvað því að taka mér frí frá ræktinni. En þar sem söknuðurinn var orðinn svo mikill á fimleikana var ég staðráðin í því að byrja aftur eftir fæðinguna.

Tveimur vikum eftir að prinsessan mín kom í heiminn sátum við í sófanum heima og horfðum á beina útsendingu á Evrópumótið í hópfimleikum 2012. Mig kitlaði í puttana að komast aftur í fimleikasalinn. Á þeim degi hófust æfingar hjá mér. Í tvo tíma á dag gerði ég styrktaræfingar heima á meðan prinsessan svaf svo ég gæti mætt aftur í fimleikasalinn. Tveimur mánuðum eftir fæðingu treysti ég mér til að fara á fimleikaæfingu. Ég mjólkaði mig á morgnana svo ég kæmist frá dömunni á þriggja tíma æfingar á kvöldin. Grindin hafði ekki jafnað sig almennilega svo ég var ekki að gera erfið stökk, aðallega styrktaræfingar og léttar fimleikaæfingar.

Eftir mánuð var síðan valið í 18 manna hóp. Ég var ekki í hópnum og var mjög sár enda hafði ég alla tíð verið inní 12 manna liði. Þetta var auðvitað rétt ákvörðun hjá þjálfurunum þar sem ég var engan veginn tilbúin líkamlega til að fara að æfa fyrir keppni. En á þeim tíma var ég gríðarlega sár. Ég settist niður heima og tók þá ákvörðun að það væri ekki þess virði allt umstangið í kringum þetta, að mjólka og redda pössun til að mæta á 3 tíma æfingar ef ég væri ekki í keppnishópnum. Ég vildi þá frekar eyða meiri tíma með prinsessunni og byrja aftur þegar líkaminn væri tilbúinn. Síðan um sumarið ætlaði ég að fara að æfa aftur en þá var æfingatímanum breytt og vegna vinnu komst ég aðeins síðasta klukkutímann. Ég mætti samviskusamlega þennan klukkutíma.

Í lok sumars var úrtaka fyrir Norðurlandamótið hjá liðinu. Ég mætti og var varla byrjuð að stökkva og reyndi mitt besta en það gefur auga leið að það dugði ekki til að komast í liðið. Á þessum tímapunkti fannst mér allt vera að vinna á móti mér í íþróttinni og ákvað ég að nú væri tími til að hætta að ég myndi aldrei ná hinum getulega séð þar sem íþróttin hafði þróast mikið þessi tvö ár sem ég hafði verið frá fimleikunum.

Ég fór að æfa crossfit og komst í flott form. En ég var aldrei 100% sátt við að hafa hætt í íþróttinni sem ég elskaði svo mikið. Ég var heldur ekki sátt að hafa hætt á þennan hátt. Eftir 3 mánuði í crossfit fann ég að mig vantaði eitthvað til að keppast að og ákvað að byrja aftur í fimleikum til að sjá hvort ég hefði þetta ennþá. Ég þurfti að búa mig vel undir það andlega að
byrja aftur og vera þá ein af þeim lökustu í hópnum. En áður hafði ég ávallt haft sæti í liðinu.

Ég byrjaði hægt og rólega og fór þetta á húmornum og gerði hiklaust grín af sjálfri mér ef stökkin gengu ekki upp. Ég held að það hafi bjargað mér. Það keppnistímabil var ég varamaður sem var alveg nýtt hlutverk fyrir mér en gríðarlega lærdómsríkt. Ég ákvað að fara í úrtöku fyrir landsliðið og það kom mér mjög á óvart þegar ég komst í gegnum fyrstu síuna, svo aðra og að lokum í sjálft landsliðið í flokki blandaðra liða. En það hafði verið draumurinn þótt ég hafði haft það á bak við eyrað að ég væri engan veginn á sama stað og hinir. Líkaminn var ekki jafn sterkur og fyrir meðgönguna og stökk sem ég hafði gert hugsunarlaust var ég farin að hafa mig alla við til að ná. En það endaði svo að ég keppti með landsliðinu á Evrópumótinu sem var haldið hér á Íslandi árið 2014 og var það skemmtilegasta mót sem ég hef upplifað.

Það var líka enn meiri gleði að taka þátt í mótinu þar sem þetta var fyrsta mótið sem ég keppti á frá því ég þurfti að hætta vegna meðgöngunnar. Öll vinnan og metnaðurinn sem ég hafði lagt í þetta skilaði sér svo sannarlega að lokum. Þetta hefði þó aldrei gerst nema með þeim stuðningi sem ég fékk frá fjölskyldunni en þau studdu mig 100 % og voru alltaf tilbúin að passa litlu prinsessuna. Eftir þetta gat ég hætt sátt og sagt skilið við íþróttina þó að ég hafði haldið áfram að þjálfa.

Minningin lifir og get ég stolt sagt dóttur minni eigin reynslusögu um að metnaður og vinnusemi borgi sig.

– – –

Katrín Pétursdóttir er 28 ára gömul Reykjavíkurmær, menntaður viðskiptafræðingur með BSc gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og lauk nýverið Msc gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Ásamt því er hún með einkaþjálfarapróf úr einkaþjálfaraskóla World Class. Katrín stundaði fimleika í 18 ár og hefur þjálfað fimleika í yfir 15 ár en ákvað nýverið að taka pásu frá þjálfun til að geta eytt meiri tíma með dóttur sinni. Liðin hennar hafa náð góðum árangri undir hennar handleiðslu og státa þau meðal annars af Evrópu-, Norðurlanda-, Íslands- og Bikarmeistaratitlum. Katrín á 4 ára stelpu sem heitir Helena Dís. Hún er mikil prinsessa og vill helst bara ganga í kjólum og með kórónu alla daga. Katrin hefur áhuga á hreyfingu, útiveru, ferðalögum, ljósmyndun, fallegri hönnun og vera með vinum og fjölskyldu.

– – –

Langar þig að verða bloggari?

Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt?
Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórkemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora@foreldrahandbokin.is

X