Loading

ÚT AÐ BORÐA MEÐ BÖRNIN… HVERT ER ÓHÆTT AÐ FARA?

Það vill svo til að á mínu heimili nennir bara stundum enginn að elda… já, ég er að viðurkenna þetta blákalt!

En þá vandast málið. Hvert á að fara að borða þar sem allir fá eitthvað sem þá langar í og þar sem litlir skæruliðar eru velkomnir?
Ég með mitt fyrsta barn var ansi kræf til að byrja með, tók strákinn með mér hvert sem ég fór og ætlaði sko ekki að láta neitt stoppa mig. Eftir nokkrar misheppnaðar ferðir á veitingahús bæjarins þar sem ég þurfti að sitja með drenginn í fanginu (engir barnastólar á svæðinu) og fékk illt augnaráð frá starfsfólkinu hef ég uppgötvað að sumir veitingastaðir halda að öll börn borði bara franskar og samloku með skinku og osti hef ég afmarkað staðavalið niður í nokkra útvalda.

Þessir staðir eiga það sameiginlegt að vera með barnastóla, létt andrúmsloft og þokkalega fjölbreyttan matseðil handa börnum.

Saffran- Glæsibæ
Staðurinn er ekki sér útbúinn fyrir börn en uppfyllir samt öll þau skilyrði sem ég set upp. Fullt af barnastólum, leikborð og ótrúlega hollan, skemmtilegan og ódýran matseðil fyrir börn. Súperkraftakjúklingurinn er í algeru uppháhaldi hjá litla manninum mínum. Saffran er einnig staðsettur í Kópavogi og svo er Saffran Express í Ártúnsbrekkunni þar sem hægt er að grípa með sér mat heim.

The Laundromat Cafe- Austurstræti 9
Neðri hæðin er sér útbúin fyrir börn með stóru og rúmgóðu leiksvæði sem hentar krökkum á öllum aldri. Ennig getur verið mjög kósí að sitja uppi og horfa út um stóru gluggana og sjá hvað er að gerast úti. Því miður er bara eitt stórt borð niðri, mætti bæta fleirum við, en borðin eru ætluð til að borða á og lítið mál að tala við starfsfólkið og biðja þá sem sitja og spjalla að færa sig yfir í setustofuna á leiksvæðinu ef fólk gleymir sér. Barnabrunchinn er vel útlátin og dugar jafnvel fyrir tvo litla munna.

Roadhouse- Snorrabraut 56
Boðið er upp á dót, blað og liti handa krökkum sem hentar vel fyrir alla aldurshópa. Fjörugum krökkum sem langar að skoða sig um er vel tekið af starfsfólkinu og stemmningin er óþvinguð. Þó að maturinn sé að meiri hluta hamborgarar og franskar og matseðilinn sé lítill þá finnst mér voða gott að vita af því að allt er gert á staðum. Mæli með kjúklingalundum fyrir litla stubba.

Hamborgarafabrikkan- Höfðatorgi
Eftir að stákurinn minn varð aðeins eldri elskar hann að fara á Fabrikkuna, en tónlistin þótti honum aðeins of há þegar hann var minni. Það er alltaf nóg að skoða t.d. kýrin og allt skrautið á veggjunum, það er líka fínt að bregða sér inn á Höfðatorg í göngutúr ef manni fer að leiðast. Matseðilinn mætti vera hollari en litla manninum finnst maturinn samt ósköp góður.

Nítjánda- Turninum Smáratorgi
Þar er glæsilegt leikherbergi og starfsmaður lítur eftir þeim allra yngstu meðan aðrir klára matinn sinn og spjalla. Það er ókeypis fyrir yngri en 6 ára í hlaðborð og brunch og hálft gjald fyrir 7-12 ára. Allskonar réttir í boði svo það ætti að vera einfalt að finna eitthvað fyrir litla stubba.

IKEA- Kauptúni 4
Við köllum það nú varla að fara út að borða þegar við borðum í IKEA en það er bara ekki hægt að sleppa þeim á svona lista. Aðstaðan er einstaklega góð fyrir barnafólk, matseðilinn fjölbreyttur og oft er maturinn ókeypis fyrir börn. Það er einhver stemming í því hjá litla karli að fara í IKEA, skoða dótið og fá sér síðan kjötbollur með sósu og sultu.

Jafn gaman og það getur verið að fara út að borða með fjölskylduna þá vita líka allir foreldrar sem hafa upplifað það að það er fátt leiðinlegra en að skunda út af veitingastað bullsveittur með gargandi barn undir hendinni.

Endilega bætið við listann ef þið lumið á fleiri veitingastöðum sem uppfylla ofantalin skilyrði.

– –
Ég heiti Telma Eir Aðalsteinsdóttir er 29 ára og búsett í Vesturbænum ásamt manninum mínum og syni okkar fæddum 2010. Ég er með BA-próf í Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og eins og sést á námsvalinu er ég ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.

X