Loading

UM ÚTIVISTARTÍMA BARNA

Ég er mikill talsmaður útivistartíma barna og hef reynt eftir bestu getu að framfylgja honum. Samkvæmt barnaverndarlögum er útivistartími barna 12 ára og yngri á tímabilinu 1. september til 1. maí til kl. 20.00. Unglingar, 13 − 16 ára, mega vera úti til kl. 22.00. Frá 1. maí – 1. september lengist útivistartími barna og unglinga. Þá mega börn 12 ára og yngri vera úti til kl. 22.00 en þau eldri, 13 − 16 ára, til kl. 24.00.

En hvers vegna að lengja útivistartímann 1. maí? Víst tekur daginn að lengja, veðrið að hlýna og vorið að birtast í sinni fegurstu mynd. Engu að síður þurfa börn og unglingar á umræddum aldri að mæta í skólann og þurfa ekki minni hvíld né svefn og áður. Það er ekki að ástæðulausu sem tekið er á útivistartíma innan barnaverndarlaga, en börn og unglingar þurfa að jafnaði níu til tíu tíma svefn. Við þurfum einnig að velta fyrir okkur að nægur nætursvefn er forsenda vellíðunar. Þreyta og svefnleysi eykur líkurnar á slysum þar sem erfiðara reynist að bregðast við og athyglin minnkar. Þau eru þá ekki eins meðvituð um þær gildrur sem geta leynst í umhverfinu. Ég er einnig sannfærð um að minni nætursvefn minnkar námsgetu. Þau verða þreytt, pirruð og finnst erfitt að sitja út heila kennslustund, hvað þá margar. Svo má ekki gleyma að vorið dregur til sín athygli, en á sama tíma er mikið að gera í skólunum sem og hinum ýmsu tómstundum, þegar sumarfrí nálgast.

Hér má ekki skilja mig sem svo að ég sé mótfallin útiveru barna. Ég er sannur talsmaður þess að börn njóti útiveru og útivistar. Ég hefði varla valið að mennta mig í tómstunda- og félagsmálafræðum ef ég teldi að börnin hefðu ekki gott af hvers kyns útiveru. Hins vegar er ég á því að okkur foreldrum beri skylda til að fara eftir barnaverndarlögum um útivistartíma. Á sama tíma er það að sjálfsögðu okkar að meta og ákveða hvort börnin okkar eiga að koma heim fyrr en útivistartíminn segir til um.

Tökum okkur saman og vinnum að því sameiginlega að börnin okkar fái nægan nætursvefn. Að eitt foreldri, eða einir foreldrar, leyfi barni sínu að vera úti lengur en lög gera ráð fyrir, setur aðra foreldra í erfiðari stöðu. Ef allir foreldrar færu eftir lögum um útivistatíma væri þetta ekkert tiltökumál og þyrfti ekki mörg orð um. Okkur foreldrum ber að kenna börnum okkar að lög eru til þess sett að farið sé eftir þeim. Við ökum varla yfir á rauðu ljósi af því að barninu langar til að við gerum það ─ eða hvað? Förum að lögum og stöndum vörð um börnin okkar!

Svo er það efni í annan pistil sem snýr að þeim ungmennum sem eru eldri, en þó ekki orðin fullorðin lögum samkvæmt. Elsta dóttir mín er í 10. bekk, komin á sextánda ár, en þá gilda engar útivistareglur. Hvers vegna? Þau verða ekki sjálfráða fyrr en 18 ára og í raun fáránlegt að ekki séu lög og reglur um útivistartíma fyrir þennan aldur!

– –
Elísabet Sóley Stefánsdóttir er tómstunda- og félagsmálafræðingur að mennt og stundar nú MA-nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Elísabet hefur unnið mikið með börnum, á leikskóla, við daggæslu og við forfallakennslu. Hún hefur einnig haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Samhliða meistaranámi starfar Elísabet sem ráðgjafi í eineltismálum hjá Liðsmönnum Jerico. Hún heldur fræðslufyrirlestra um einelti í skólum og á stofnunum og vinnur afleysingarstörf á meðferðarheimili fyrir unglinga. Elísabet á þrjár dætur og sú yngsta er með dæmigerða einhverfu. Hægt er að hafa samband við Elísabetu í tölvupósti: elistef@simnet.is

X