Loading

Val á fæðingarstað

Val á fæðingarstað er algerlega undir konu komið. Konur mega fæða þar sem þær vilja og verða að gæta þess að halda fast um þann rétt sinn.

Hvar kona ákveður að fæða barnið sitt er algerlega hennar (og hennar allra nánustu fjölskyldu) að ákveða. Við verðum að gæta þess að gleyma ekki að við megum fæða börnin okkar hvar sem við viljum. Við getum verið heima hjá okkur, uppi á sjúkrahúsi, úti í Heiðmörk, inni í fjárhúsi, uppi á Vatnajökli. Við megum og eigum að velja okkar fæðingarstað.

Hvar sem kona ákveður að fæða barn sitt ætti hún að taka upplýsta ákvörðun um fæðingarstað. Kynna sér kosti og galla og standa með þeirri ákvörðun sem hentar henni og hennar fjölskyldu. Út frá þægindum, öryggi og skynsemi að sjálfsögðu. Leyfinu til að ákveða sinn fæðingarstað og valdinu til að taka ákvörðun fyrir sig og sína fylgir nefnilega líka ábyrgð og meðan konur taka upplýsta ákvörðun um fæðingarstað, gera þær það með þá vitneskju að valinu fylgir ábyrgð.

Að taka meðvitaða ákvörðun felur ekki í sér að hundsa ráðleggingar sérfræðinga í kringum sig heldur að velja sjálfur út frá þeim ráðleggingum sem kona hefur fengið. Valið er oftast í samræmi við ráðleggingar sérfræðingar, sérstaklega ef það er spurning um öryggi en ákvörðunina tekur konan og velur fyrir sig. Niðurstaðan er kannski alltaf sú sama, að gera það sem kona telur best í stöðunni en ákvörðunin er tekur út frá bestu vitneskju, upplýst en ekki sem viljalaust verkfæri.

Varla þarf að staldra við það að langflestar konur fæða barn þar sem þær telja sig og barn sitt öruggastar og þrátt fyrir að maður telji þetta kommon sens þá liggja að baki fjölmargar rannsóknir sem styðja einmitt þetta. Konur taka upplýsta ákvörðun um val á fæðingarstað, með öryggi sitt og barnsins í huga og fylgja í langflestum tilfellum góðum ráðleggingum sérfræðinga.

Ákvörðun um val á fæðingarstað þýðir heldur ekki að kona geti ekki skipt um skoðun. Það er í góðu lagi að ákveða að vera á einum stað en ef sá staður hentar svo ekki þegar uppi er staðið er gott að skipta bara um skoðun og færa sig. Valið er ekki meitlað í stein.

Langflestar konur velja fæðingarstað út frá fjöldanum eða ríkjandi normi. Á Íslandi fæðast langflest börn á LSH, þó heimafæðingum fari fjölgandi og einhverjar eru sem betur fer enn utan höfuðborgarsvæðisins.

Þegar kona hefur tekið ákvörðun um fæðingarstað er ábyrgð hinna sem í kringum hana eru að styðja ákvörðunina sem tekin var alveg óháð því hvað okkur finnst persónulega og ganga út frá því að ákvörðinin hafi verið tekin af yfirlögðu ráði og samkvæmt bestu vitneskju. Því kona á ekki undir nokkrum kringumstæðum að þurfa að útskýra eða verja val sitt á fæðingarstað fyrir öðrum. Hún á að hafa næði, virðingu og orku í að undirbúa komu barnsins í heiminn.

– – – –

Soffía Bæringsdóttir hefur starfað sem doula frá 2008 og verið þess heiðurs aðnjótandi að vera við yfir fimmtíu fæðingar og aðstoðað rúmlega hundrað pör í að undirbúa sig fyrir fæðingu. Hún hefur á undanförnum árum haldið fyrirlestra og námskeið um fæðingarundirbúning og svefn ungbarna, tekið á móti erlendum fyrirlesurum og haldið utanum doulu-nám á Íslandi.
Hún tekur að sér stuðning við verðandi foreldra á meðgöngu, í gegnum fæðingu og í sængurlegu. Einnig tekur hún að sér fæðingarundirbúning.

Soffíu þykir mikilvægt að vera til staðar fyrir nýjar fjölskyldur í nýju hlutverki. Áhugi hennar liggur í að veita samfellda, trausta þjónustu, hlúa að og efla foreldra. Í gegnum störf sín sem doula hefur hún fundið hve gífurlegar mikilvægur stuðningur við fjölskyldur er. Metnaður hennar liggur í að vera til staðar fyrir nýjar fjölskyldur á þeirra forsendum.

Soffía er gift þriggja dætra móðir og á tvo hamstra.

X