Loading

VALKVÍÐI

Á síðustu árum hefur aukist til muna það sem hægt er að velja sér að gera með barninu sínu til að stytta manni stundirnar í fæðingarorlofinu. Ýmis námskeið eru í boði sem tengir samveru móður og barns. Eins mikið og mann langar að prófa næstum allt sem í boði er þá er það því miður ekki alltaf geranlegt, allaveganna ekki fyrir mig því að jú öll kosta þessi námskeið peninga.

Eftir þriggja mánaða veru heima fyrir þá finn ég hvað mig er farið að langa að kíkja á einhver af öllum þessu skemmtilegu námskeiðum sem í boði eru. Þegar ég byrjaði að grenslast fyrir um hvað í boði er þá fylltist ég valkvíða, það er; ungbarnasund, jóga, mömmuleikfimi, kerrupúl, ungbarnanudd og fleira og fleira.
Ég væri sko alveg til í að fara í þetta allt en ég verð að reyna að velja eitthvað af þessu.
Mér finnst alveg frábært hversu mikið er í boði því að maður hefur svo rosalega gott af því að hafa eitthvað fyrir stafni þó að það sé kannski ekki nema tvisvar í viku.
Maður getur bókstaflega morknað svona heima hjá sér því að maður á það alveg til að einangrast svolítið í fæðingarorlofinu.Vinkonurnar eru ekki í fæðingarorlofspakkanum þannig að ekki fer ég að banka upp á hjá þeim í kaffi að degi til í miðri viku.

Ég átti seinna barnið mitt í október 2011. Hún fæddist eftir 37 vikur og var alveg oggoponsu lítil. Hún var á mörkum þess að lenda inn á vöku vegna þess hversu lítil og létt hún var. Þar sem að hún var svona lítil og viðkvæm þá urðum við að passa okkur rosalega vel heimafyrir fyrst eftir að hún fæddist. Við þurftum að fyrirbyggja eftir mesta megni að hún yrði lasin og tryggja það að hún þyngdist og dafnaði vel.
Við fórum þ.a.l. ekki mikið með hana út í vagninum þegar hún var nokkra vikna því það kólnaði hratt og snjóaði mikið í lok nóvember og allan desember. Núna þar sem að hún er búin að ná upp þyngdinni þá er kominn tími til að fara að rífa sig upp og skella sér út í göngutúra. Ekki er verra að slá 3 flugur í einu höggi og viðra sjálfan sig, barnið og hundinn.

Ég er ekki mikið þessi líkamræktarstöðvartýpa sem fer 5 daga vikunnar í ræktina og púlar. Ég vildi óska að ég nennti því, þá væri ég kannski í frábæru formi en hef reynt þann pakka nokkuð oft en er ekki alveg að finna mig í því. Ég bý í sveitasælunni í Mosfellsbæ og finnst æðislegt að komast út að ganga eða hjóla, en þar sem að hjólatíminn er meira fyrir mig og hundinn, þá er það bara að skella sér í gönguskónna, hlý föt og út að ganga.

Núna ætla ég bara að ákveða hvaða námskeið við ætlum að byrja á að prófa, hætta þessu hangsi og skottast út í göngutúra!

– – –
Ég heiti Ása B Morthens og er þrítug mamma. Ég vinn í bókhaldi og er sem stendur í fæðingarorlofi með yngra barnið mitt. Börnin mín tvö, strákur fæddur í maí 2006 og lítil stelpa fædd í október 2011, eru æðibitarnir mínir. Síðan eru líka á heimilinu hundur og tveir kettir þannig að heimilislífið er ansi fjörugt.

Þegar maður gengur í gegnum allt þetta ferli að vera ófrískur og eiga barn verður maður svo skemmtilega ruglaður og stundum pælir maður um of í hlutunum.
Með blogginu mínu langar mig bara aðeins að rasa úr með sögum og pælingum sem tengist móðurhlutverkinu og uppeldinu.

X