Mömmuskömm, líkamsskömm og bara skömm yfir höfuð er eitthvða sem við höfum ímugust á hér. Við erum öll ólík og upplifum hlutina á misjafnan hátt. Á meðan eitt vefst fyrir einum getur það leikið í höndunum á þeim næsta. Óraunhæfar hugmyndir um líkamann eftir fæðingu er eitt af því sem hvílir á mörgum nýbökuðum mæðrum. Þær (við) hafa þá hugmynd í kollinum að þær muni skreppa saman á skömmum tíma og allt verði eins og það var. Og stundum gerist það… en alls ekki alltaf. Stóra málið hér er að við hættum að gera þessar kröfur til okkar og leyfum líkama okkar að jafna sig á þeim hraða sem hann þarf. Og þó að sumar konur skreppi saman niður í ekki neitt og birti af því myndir á samfélagsmiðlum og pressan dásami þær fyrir hvað þær eru „duglegar” þá verðum við að muna að það er okkar að snúa við þessar þróun og breyta viðmiðum samfélagsins. Þess vegna er svo þakklátt þegar við látum vaða og skilum skömminni (sem er mjög vinsælt orð þessa dagana en á svo sannarlega vel við hér). Sjálf fitnaði ég eftir að ég átti mitt fyrsta barn, brjóstagjöfin gerði nákvæmlega ekki neitt fyrir mig og ég brast í grát þegar ég leit í spegilin eftir sturtu – fimm dögum eftir keisara. En viti menn… það er í lagi og við megum ekki vera svona vondar við okkur.
Kona að nafni Ruth Lee átti barn á dögunum. Hún segir sjálf frá því að hún hafi gert allt „rétt”. Hún raðaði í sig vítamínum, eyddi heilu dögunum á fæðingarnámskeiðum, notaði öll slitkrem og olíur undir sólinni, var dugleg að hreya sig og stúderaði „náttúrulegar” fæðingar alla meðgönguna. Engu að síður varð fæðingin mjög erfið, endaði í keisara, slitin voru svakaleg og til að toppa það gekk brjóstagjöfin afskaplega illa.
Eins og svo algengt er fylgdi Ruth fjöldanum öllum af fyrirsætum og jóga-gúrúum á meðgöngunni. Það voru iðullega myndir af þeim korteri eftir fæðingu með barnið niðrá strönd og allir í himnasælu. Sjálf hafi hún því átt von á að það sama ætti við um hana. Það varð því verulegt áfall þegar svo varð ekki og nokkrum dögum eftir keisarann tók hún meðfylgjandi mynd af sér og deildi á samfélagsmiðlum. Með henni skrifaði hún:
Ég er að deila þessari mynd því ég veit að það er fullt af fólki sem upplifir sig ekki sem nóg! Því finnst kannski það ekki vera nógu fallegt eða einskis virði. Þetta eru kannski ekki líkamleg ör heldur fremur brotin sambönd, erfiðleikar í vinnu, andleg veikindi, peningaáhyggjur eða bara almenn uppgjöf á lífinu.
Verið góð við ykkur. Og þið megið vita að þið eruð ekki ein. Samanburður rænir ykkur gleðinni. Ekki láta samfélagsmiðla brengla sýn ykkar á hvað er fallegt og hvað er raunverulegt. Og umfram allt megið þið vita að ef þið eruð brotin, þá er ég hér.
Ruth hafði áður sagt um myndina að hún hafi tekið hana nokkrum dögum eftir fæðinguna þegar fæðingarþunglyndi fór fyrst að gera vart við sig. „Ég tók myndina og var í áfalli. Ég trúði ekki að þetta væri ég.”