Loading

Vatnsfæðing og ungbarnasund

Þegar ég var ólétt hafði ég séð fyrir mér að í hríðunum hefði ég huggulega stund í baði með þægilega tónlist. Ég hafði sankað að mér rólegri tónlist og búið til spilunarlista sem ég hugðist spila undir á meðan ég andaði mig í gegnum hríðarnar. Hins vegar þegar þær hófust hjá mér fékk ég svo mikinn krampa í bakið að ég gat ekki slakað á milli hríða. Ég fékk því sprautu með einhverju deyfilyfi og sofnaði í kjölfarið. Ég missti því af hríðunum og þegar ég vaknaði var komið að fæðingunni. Ég hafði nefnt baðið við ljósmóðurina sem tók á móti mér upp á fæðingadeild og spurði hún mig hvort ég vildi ekki bara eiga í baðinu. Ég var alveg til í það og fæddist prinsessan mín þar á Hreiðrinu. Fyrstu kynni hennar við umheiminn voru í vatni og alla tíð hefur henni þótt þæginlegt að svamla í því.

Þegar hún var skírð fékk hún gjafabréf í ungbarnasund sem við að sjálfsögðu nýttum og í kjölfarið fórum við á tvö námskeið til viðbótar. Þetta var stundin okkar og hlökkuðum við alltaf til að mæta. Í sundinu áttum við huggulega stund saman og nutum okkar í botn. Dóttir mín elskaði vatnið og var magnað að sjá hvað hún var fljót að læra að kafa eins og hún hefði ekki gert neitt annað. En börn fæðast með hæfileika til að loka fyrir öndunarveginn þegar þau komast í tæri við vatn sem hverfur þegar þau eldast nema ef því er haldið við með reglulegum æfingum. Talað er um að þessi hæfileiki hverfi annars um 6 mánaða aldur. Kallast þetta köfunarviðbragðið og getur staðið yfir í allt að 10 sekúndur en þá lokast barkalok, hjartsláttur hægist, blóðþrýstingur eykst og blóð streymir til hjarta og heila. Dóttir mín elskaði að fara í sund og 4 árum seinna hefur ekkert breyst. Ungbarnasundið var okkar stund og fannst henni æðislegt þegar við sungum í vatninu og svömluðum um.

Í dag förum við reglulega í sund og kafar hún um. Stundum þarf ég að pota í hana til að athuga hvort allt sé í lagi því það er ótrúlegt hvað þessi litli 4 ára kroppur getur haldið lengi niður í sér andanum.
Ég mæli því hiklaust með ungbarnasundi og að halda köfunarviðbragðinu við.

– – –

Katrín Pétursdóttir er 28 ára gömul Reykjavíkurmær, menntaður viðskiptafræðingur með BSc gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og lauk nýverið Msc gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Ásamt því er hún með einkaþjálfarapróf úr einkaþjálfaraskóla World Class. Katrín stundaði fimleika í 18 ár og hefur þjálfað fimleika í yfir 15 ár en ákvað nýverið að taka pásu frá þjálfun til að geta eytt meiri tíma með dóttur sinni. Liðin hennar hafa náð góðum árangri undir hennar handleiðslu og státa þau meðal annars af Evrópu-, Norðurlanda-, Íslands- og Bikarmeistaratitlum. Katrín á 4 ára stelpu sem heitir Helena Dís. Hún er mikil prinsessa og vill helst bara ganga í kjólum og með kórónu alla daga. Katrín hefur áhuga á hreyfingu, útiveru, ferðalögum, ljósmyndun, fallegri hönnun og vera með vinum og fjölskyldu.

– – –

Langar þig að verða bloggari?

Ertu sprengfull/ur af hugmyndum? Dugar Facebook ekki lengur til að tjá þín hjartans mál? Ertu sæmilega ritfær og skemmtilegri en allt? Þá er þetta algjörlega málið fyrir þig.

Við ætlum að endurvekja okkar stórkemmtilega MÖMMUBLOGG og erum að leita að vel skrifandi og áhugaverðum foreldrum til að deila sögum úr lífi sínu.

Umfjöllunarefnið er allt sem viðkemur börnum, hinu daglega lífi, hversdagskrísum, merkilegum uppgötvunum, sniðugum hugmyndum og flest allt þar á milli. Foreldrahandbókin.is er vefsíða sem byggir á samnefndri bók sem hefur verið ófáanleg um nokkurt skeið en er væntanleg aftur nú á vormánuðum. Síðan hefur alla jafna verið með vinsælustu lífstíls/fréttasíðum landsins og á sér dyggan lesendahóp.

Ef þú hefur áhuga þá endilega sendu okkur póst á netfangið: thora(hja)foreldrahandbokin.is

X