Loading

VERSTI LYGARINN ER ÉG

Ég á bágt með að trúa því hversu mikil áhrif síðasta færsla hafði. Ég fann gífurlegan stuðning frá fólki úr öllum áttum, bæði frá fólki sem ég hef þekkt lengi og þekki ekki. Vil ég þakka öllum þeim einstaklingum. Þetta var ómetanlegur styrkur. Það mætti ef til vill líkja tilfinningunni sem ég fékk við allan þennan stuðning við margar hendur að ýta á bakið á mér og passa að ég dytti ekki. Ég tók upp tólið og hringdi í sálfræðing. Sá sem ég var hjá í teyminu á Landspítalanum hringdi reyndar og baðst afsökunar á hvernig samskiptin voru. Ég ákvað samt að fara til sálfræðingsins sem ég var búin að panta tíma hjá og árangurinn er ótrúlegur ef þann tíma.

Þegar ég ræddi við hann um kvíðann sem ég er búin að vera með núna undanfarið spurði hann mig um einkennin sem ég fæ þegar kvíðinn kemur. Jú, ég fer að nötra öll, á erfitt með að anda og finnst sem hjarta mitt ætli út um brjóstið. Síðan spurði sálinn mig hvaða einkenni ég fengi þegar ég missti stjórn á bílnum. Aftur fannst mér svarið augljóst, jú, ég fer öll að nötra, á erfitt með að anda og hjartað í mér ætlar hreinlega að yfirgefa líkamann. Um leið og ég hafði sleppt orðinu áttaði ég mig á því að einkennin voru nákvæmlega eins í báðum tilvikum. Enda í báðum tilvikum er líkaminn að pumpa adrenalíni út í líkamann. Í bíltilvikinu er það vegna yfirvofandi hættu en málið með kvíðann er að heilinn fer að pumpa adrenalíninu út í líkamann vegna fals skilaboða. Hann er að gefa líkamanum skilaboð um að hætta sé yfirvofandi. Út frá þessari nýfengnu vitneskju minni hef ég tæklað kvíðann með þeirri aðferð að segja við sjálfa mig að engin hætta sé á ferðum og fljótlega fer kvíðinn að hörfa. Stundum dvelur hann aðeins of lengi fyrir minn smekk en mér finnst ég hafa stjórnina núna, ekki kvíðinn eða þunglyndið. Þannig að í raun var ég hinn versti lygari, bara við sjálfa mig, undir áhrifum þunglyndis og kvíða. Núna er það hins vegar ég sem sit undir stýri en ekki kvíðinn.

Núna loksins sé ég birtuna og það verður ávallt bjartara og bjartara hjá mér. Ég ásaka ekki sjálfa mig fyrir þær hugsanir sem ég hef fengið, ég gerði það á tímabili, en eftir að hafa unnið betur í sjálfri mér sé ég að ég reyndi ávallt að gera mitt besta. Ég reyni enn að gera mitt besta, á hverjum degi. Hvorki ég né nokkur annar getur beðið um meira en það.
Ég vona að sú reynsla sem ég hef deilt með ykkur og öllum umheiminum (halló Google translate) hafi opnað augu ykkar fyrir fæðingarþunglyndi. Þetta er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir, hvort sem okkur líkar betur eða verr þá lenda ansi margir í þessum pytti, líka karlar. Það mikilvæga er að gera sitt besta og vera ekki fórnarlamb hugsana sinna heldur fremur stýra þeim sjálfur.

Ég er með póstfangið hiljan@gmail.com ef einhverri eða einhverjum þarna úti langar að ræða við mig. „Fangið“ mitt er opið.
– – –

Ég heiti Hildur Lilja en er yfirleitt kölluð Hilja. Ég er 26 ára, gift og á tvo litla drengi. Ég er menntaður náttúrufræðikennari og ástríða mín tengist fyrst og fremst hinum ýmsu sviðum heimilisins og reyni ég að deila þeirri ástríðu á www.hiljainspires.blogspot.com. Hér hef ég hins vegar hugsað mér að deila með ykkur móðurhlutverki mínu.

X