Loading

VIÐ GETUM GERT SVO MARGT…

Pistill eftir Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur, höfund bókarinnar Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?

Við getum gert svo margt…..

… til að minnka líkurnar á kynferðislegu ofbeldi… Ég fór á svokallað “workshop” í Suður-Afríku er ég bjó þar í fyrravetur. Ég freistaði þess að skrifa hér niður helstu punkta sem stóðu upp úr fyrir mér. Ég er ekki sálfræðingur eða menntuð á þessu sviði en vona að ég komi þessu rétt frá mér og valdi ekki misskilningi. Það má þá skrifa hér fyrir neðan og leiðrétta mig. Ég er bara að hugsa um að sameinuð séum við í að vernda öll börn og það þýðir víst lítið að stinga hausnum í sandinn.

*Kyssa, faðma, strjúka litla kolla og klappa á bakið; öll börn þurfa fallega ástúðlega líkamlega snertingu og væntumþykju. Öll börn þurfa að heyra að þau séu sérstök og elskuð útaf lífinu. Öll börn þurfa að heyra að þau skipti einhvern mestu máli og sá hinn sami sé tilbúinn til að vaða fyrir þau eld og brennistein. Öllum börnum finnst gott að heyra að mamma og pabbi séu svo glöð að eiga þau. Í stuttu máli þá spotta kynferðisofbeldismenn og konur börn sem eru vannærð af ást, umhyggju og athygli úr mílufjarlægð.

*Ég þarf að spyrja mömmu/pabba. Það er snjallt að koma þessari setningu að með flest allt. Og það er hægt að segja börnum að nota hana líka þegar einhver spyr þau um eitthvað sem þau eru ekki viss með, vilja ekki gera, langar ekki að gera eða finnst undarlegt… það gefur þeim útgönguleið… Ég verð að spyrja mömmu… og um leið mikið turn off fyrir aðila sem hefur eitthvað misjafnt í huga… eins og t.d. að biðja barn um eitthvað kynferðislegt…

*Það er stór munur á leyndarmáli og “surprise” eða einhverju sem á að koma á óvart… engin leyndarmál er það sem þarf að kenna börnum og ef einhver biður þau um að þegja yfir leyndarmáli þá á að segja mömmu eða pabba það, það má og á alltaf segja mömmu og pabba allt.. alltaf! Óvænt ánægja er annað… eins og t.d. með gjafir og fleira.

*Ef einhver hótar barni, hvort sem það er annað barn (eins og í skólanum) eða fullorðinn einstaklingur. Þá er gott að kenna börnum að taka aldrei hótanir alvarlega. Það sé bara verið að plata mann til að gera það sem hinn aðilinn vill. Kenna þeim að það sé mjög ljótt og mjög alvarlegt mál að hóta/kúga (þau mega ekki gera það sjálf) og maður þurfi að láta vita þegar manni er hótað… og lofa því þá (foreldrið lofar) að trúa barninu ef til dæmis því er hótað að ef það geri ekki hitt eða þetta þá sé mömmu sagt að það hafi gert eitthvað hræðilegt… ,,mamma/pabbi trúir þér og standa með þér!”

*Þegar maður fær undarlega/óþægilega tilfinningu fyrir einhverjum aðila, vini, kunningja, ættingja að þá ber að taka það alvarlega og láta ekki börnin sín eftirlitslaus til þess aðila, að minnsta kost að hafa varann á sér… eins og undarlegi frændinn sem er alltaf að kitla börnin eða kyssa og hættir ekki þó þau vilji ekki meira (augljóst að þeim finnst þetta ekki gaman) og öllum finnst óþægilegt að horfa upp á en enginn gerir neitt… tala nú ekki um ef sá aðili er mjög æstur í að passa fyrir mann og fara með barnið í bíó, ferðalög, hingað og þangað aftur og aftur…

*Slæmir aðilar velja sér ennfremur brotnar fjölskyldur og frekar fjölskyldur þar sem þreyttir einstæðir foreldrar eru sem þurfa mikla hjálp og þiggja alla hjálp sem býðst!

*Aðilar sem vilja bara vera með börnum alltaf… eru aldrei með fullorðnu fólki eða sækjast aldrei í félagsskap jafnaldra sinna… það er grunsamlegt.

*Aðilar sem spyrja hvort dóttir manns sé byrjuð með blæðingar eða minnast á að brjóst hafi stækkað á heimsætunni eða eitthvað annað óviðeigandi getur líka verið mjög grunsamlegt og ber að taka alvarlega.

*Kenna börnunum okkar að sumir hlutir á líkamanum eru þeirra einkamál sem enginn annar má snerta nema þau sjálf (ekki hræða þau kom fram þar sem ég var af því hrædd börn geta verið óútreiknanleg), heldur bara að þau viti að þau eiga rass, klof, typpi og þess háttar sjálf. Ekki eins og það sé neitt ljótt eða slæmt, alls ekki og einmitt ekki (hægt að tala um þetta allt saman þegar þau eru í baði t.d.)… heldur bara að það sé einfaldlega þannig. Og þau megi heldur ekki snerta, pota eða eitthvað slíkt í annarra manna einka líkamshluta… það sé stranglega bannað, meira að segja með lögum… það má alveg koma því að líka… (að maður geti farið í fangelsi fyrir það).

Sjá líka: http://www.underwearrule.org/

*Börn ráða hvort þau vilja kyssa og faðma ættingja og vini. Mamma má tala fyrir þau og segja ,,Gunna vill ekki kyssa bless núna” til að sýna fordæmi að þau ráða. En þau þurfa að vera kurteis að sjálfsögðu og þakka fyrir sig og svo framvegis.
*Ef fullorðnir eða eldri krakkar biðja þau um hjálp eiga þau að segja: ,,nei ég get ekki”/,,Ég verð að spyrja mömmu/pabba!”. Börn hjálpa ekki fullorðnum.. það er bara fáránlegt…(þau skilja vel að það sé fáránlegt) fullorðnir eða eldri krakkar þurfa að biðja einhvern fullorðinn að hjálpa sér… svo einfalt er það.
*Kenna þeim að ókunnugir séu allir þeir sem þau þekkja ekki. Það er erfitt að kenna þeim að tala ekki við ókunnuga en það er hægt að segja þeim að við föðmum ekki og kyssum ekki ókunnuga og við förum aldrei neitt með ókunnugum af því þeir eru ókunnugir. Þau skilja það alveg.
*Að sofa hjá vinum er öruggast þegar börn kunna að klæða sig, hátta sig og fara á klósettið sjálf. Ennfremur er hægt að segja fyrir framan barnið og þá sem það gistir hjá að barnið megi hringja þegar það vill heim og að barnið má skipta um skoðun og koma heim ef það fær heimþrá.
*Það má segja börnum sem eru farin að heimsækja vini sína að ef þeim líður illa, eitthvað kemur upp á, þeim líður skringilega eða hvað það nú er þá má ljúga og segja ,,mér er svo illt í maganum ég þarf að drífa mig heim” eða ,,ég gleymdi að ég átti að vera komin heim fyrir löngu” og svo drífa þau sig út, þurfa ekki að segja neitt meira (þurfa ekkert að afsaka sig neitt).

*Við eigum að vera á varðbergi

  • Þegar aðili gefur börnum kynferðisleg gælunöfn.
  • Er alltaf að bjóðast til að passa barnið/unglinginn eða fara með barninu/unglingnum hingað og þangað einn!
  • Þegar aðili virðist reyna að komast í aðstæður þar sem hann er einn með barninu/unglingnum
  • Reynir að útiloka okkur sem foreldra… eða reynir að einangra barnið…
  • Aðili er alltaf að gefa barni/ungling pening/sælgæti/dýrt dót…

*Þegar barnið ykkar er búið í skólanum, í íþróttum, búið að gista hjá vini, búið að vera í heimsókn einhversstaðar og þið viljið fá tilfinningu fyrir því hvort allt hafi ekki verið í lagi er best að spyrja einhvern veginn svona: ,,Hvernig leið þér í skólanum í dag?” og jafnvel: ,,Hvernig leið þér inni í hjartanu þínu í skólanum í dag?”

*Við þurfum að segja börnum hvernig börnin verða til. Ég skildi það eins og góður tími væri í kringum 6 ára aldurinn. Og maður segir frá því bara eins og maður sé að tala um hvað maður ætli að fá sér í morgunmat, tekur alla tilfinningu úr umræðunni/frásögunni. Það er hægt að búa til fallega sögu líka… pabbarnir eiga sæði sem þarf að synda hratt og vel til að komast inn í eggið sem mamman á… eitthvað svona í þessum dúr. Og það er hægt að taka fram að þetta mega bara fullorðnir gera af því aðeins fullorðið fólk getur orðið mamma og pabbi… en maður ráði því alveg þegar maður er orðinn fullorðinn hvort maður vilji eignast börn. Eins með blæðingar hjá konum. Það má segja að allar konur séu með svo fallegt hreiður inn í sér þar sem litla barnið vex ef mamman er með barn í maganum… en þegar það er ekkert barn er blóð í hreiðrinu sem safnast saman og þarf svo að komast út af því það er ekkert barn… og það sé ekkert vont… og eitthvað bla bla bla…

*Opnar hurðir heima hjá okkur þegar börn eru að leik eða eru með vini.

*Eldri börn ennfremur misnota stundum þau yngri. NB það barn þarf hjálp strax sem misnotar yngra barn og þá er hægt að bjarga miklu svo það misnoti ekki hundruðir barna í viðbót seinna á lífsleiðinni.

*Tölvur og internetnotkun þarf að vera í alfaraleið á heimilinu, í stofunni, eldhúsinu og enn fremur þegar einhver fullorðinn er heima… börn eiga ekki að vera alein í tölvunni inn í herbergi.. það er ávísun á vandræði. Og það má segja þeim að það sé ýmislegt á netinu sem er ekki ætlað börnum og getur gert þau hrædd og því megi þau ekki vera ein í tölvunni. Hvað varðar unglinga þarf að fræða þá um hvernig auðvelt er að villa á sér heimildir í gegnum netið og taka dæmi.

*Ef börn eru ein heima og eiga ekki að opna fyrir neinum þarf að taka fram að þau eiga heldur ekki að opna þó einhver sé mjög meiddur fyrir utan að biðja um hjálp eða einhver sé með óvænta gjöf fyrir einhvern í fjölskyldunni og svo framvegis.

*Það er vel hægt að koma heim klukkutíma fyrr en maður sagði þegar verið er að passa fyrir mann og jafnvel snjallt að vera búinn að baða og hátta börnin.

*Ágætt að velja tómstundir þar sem mörg börn eru saman komin með þjálfara eða kennara. Ekki einn á einn.

*Svo þurfum við líka að vernda okkur og reyna þannig að koma sjálfum okkur ekki í aðstæður þar sem við erum alein lengi með ókunnugu barni.

*Ef barn einhvern tímann reynir að segja okkur frá einhverju sem gæti hugsanlega verið misnotkun þurfum við að vera mjög róleg (ákaflega mikilvægt) og segja aftur og aftur að það sé aldrei barninu að kenna þegar svona gerist og að við séum glöð að barnið sagði okkur þetta… Annars er hætta á því að barnið segi ekki meira… aldrei…

*Sumir kynferðisafbrotamenn voru sjálfir misnotaðir sem börn en það þýðir sko ekki að allir sem hafa verið misnotðir einhvern tímann á lífsleiðinni misnoti aðra. Einmitt ekki og alls ekki! Mjög mikilvægt að allir skilji það. Það er undantekningin ekki reglan!

*Með réttri hjálp og góðri hjálp geta aðilar sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi/misnotkun náð sér fullkomlega! Þetta er ekki dauðadómur.
Gangi okkur öllum vel að gæta allra barna, okkar eigin og annarra!

Knús
Ebba xxx

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er kennari að mennt en hefur undanfarin ár helgað sig næringu ungbarna og hollari lífsháttum allrar fjölskyldunnar. Hún gaf út bókina Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? sem hefur reynst íslenskum foreldurm ómetanlegur fjársjóður í leitinni að hollari lífsháttum. Ebba heldur úti vefsíðunni pureebba.com þar sem hægt er að finna myndbönd og girnilegar uppskriftir.

X